Skipun rannsóknarnefndar í málefnum Landssímans og einkavæðingarnefndar

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 15:29:04 (5688)

2002-03-06 15:29:04# 127. lþ. 90.1 fundur 554. mál: #A skipun rannsóknarnefndar í málefnum Landssímans og einkavæðingarnefndar# þál., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 127. lþ.

[15:29]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Þótt óheppileg röð atvika og mikil neikvæð umræða hafi um sinn skaðað Landssímann sem fyrirtæki mun þeirri orrahríð linna. Landssíminn mun rísa á ný sem eitt besta og sterkasta fyrirtæki landsins. Landssíminn hefur á að skipa öflugu starfsfólki og samstæðu. Kúrsinn verður réttur af. Þótt ríkisvaldið verði að draga sig út af samkeppnismarkaði og selja hlut sinn í Landssímanum og ríkisbönkunum á næstu árum, þarf það ekki að gerast í hasti. Við framsóknarmenn teljum að mikilvægt sé nú að hægja ferðina og selja ekki við þessar aðstæður heldur styrkja innviði Landssímans, ráða öflugan forstjóra til fyrirtækisins og hreinsa allt þetta andrúmsloft. Sala Landssímans á ekki að fara fram við þessar aðstæður. Við bíðum betri tíma.

[15:30]

Það hefur aldrei staðið til að selja Landssímann nema fyrir sanngjarnt verð. Ég sakna þess að lífeyrissjóðir fólksins skuli ekki hafa komið sem kjölfestufjárfestir inn í þetta fyrirtæki, sjóðir fólksins sem eiga 700 milljarða og hafa eina 130 milljarða til þess að fjárfesta ár hvert. Þessi fyrirtæki fólksins eiga auðvitað í mörgum stórum þjónustufyrirtækjum samtímans að taka við hlutverki ríkisvaldsins.

Ég vil segja hér að það er hagur íslenskrar þjóðar að ábyrgur, traustur og óháður aðili eignist ráðandi hlut í þessu góða fyrirtæki og fleyti landsmönnum þannig á upplýsingahraðbraut inn í nýja öld. Ég vil lýsa því yfir að Framsfl. ber fullt traust til sinna manna í stjórn Landssímans. Þótt fulltrúar Samfylkingarinnar reyndu að skapa pólitískt moldviðri með því að stökkva út úr stjórninni var sýnd meiri ábyrgð við að hlaupa ekki frá borði enda fjarri öllu lagi að skella skuldinni á stjórnina. Fulltrúar Framsfl. hafa sjálfir ákveðið að hverfa úr stjórninni á aðalfundi og vil ég þakka þeim góð störf í þágu Landssímans. Þau hafa fullt traust en við virðum þá skoðun þeirra að kjósa á aðalfundi að hverfa af vettvangi. Stjórnarformaðurinn Friðrik Pálsson hefur sjálfur viðurkennt að það hafi verið óheppilegt að aðrir stjórnarmenn hafi ekki vitað um einkasamning hans við samgrn. Þarna má segja að pottur hafi verið brotinn. En Friðrik Pálsson, formaður stjórnar, viðurkenndi þessi mistök sín, bað stjórnina afsökunar á þeim og útskýrði málavöxtu sína.

Hæstv. forseti. Þrátt fyrir átök um Landssímann skilaði hann mjög góðri afkomu á síðasta ári sem stjórnendur hans, starfsfólk og stjórn fyrirtækisins geta verið stolt af.

Hæstv. forseti. Mér sýnist að flest það sem skiptir máli sé upplýst og muni komast á hreint. Ekkert er jafnmikilvægt og að fyrirtækið fái starfsfrið sem fyrst. Mjölið var ekki alveg hreint en nú hefur grein verið gerð fyrir flestum mistökum og Ríkisendurskoðun mun vinna sitt innra eftirlit. Við berum öll nokkra ábyrgð, Alþingi og ríkisstjórn, þar af samgrh. mesta, enda ríkisstjórn ekki fjölskipað stjórnvald, einkavæðingarnefnd og stjórnendur Landssímans. Ég harma ummæli Hreins Loftssonar um Landssímann og tel ómaklegt af ágætum manni sem gegnt hafði miklum trúnaði fyrir ríkisstjórnina að tjá sig í fjölmiðlum með þeim hætti sem hann gerði um Landssímann. Það var slæm opnun um viðkvæm innri mál fyrirtækisins á skráðum almennum markaði. Svona eiga menn ekki að gera eftir margra ára trúnaðarstörf þótt þeir hafi látið af störfum. Það á að draga af þessu öllu saman lærdóm en Samfylkingin veit að pólitísk rannsóknarnefnd verður bara pólitísk. Allir landsmenn vita hver pólitíkin er. Þeir þekkja pólitíkina. Þeir þekkja deilurnar úr þessu húsi. Þeir þekkja hvað stjórn og stjórnarandstaða eiga oft auðvelt með að ná saman um mál, eða hitt þó heldur.

Ríkisendurskoðun heyrir undir Alþingi. Hún er armleggur Alþingis í þessum málefnum. Það voru fulltrúar Framsfl. fyrir 24 árum sem fyrstir tóku að berjast fyrir þessari stofnun. Halldór Ásgrímsson og Ingvar Gíslason fluttu þáltill. um þetta mál, líklega 1978. Ríkisendurskoðun hefur gegnt miklu hlutverki og staðið vörð sem eftirlitsstofnun fyrir Alþingi og þjóðina. Þess vegna treysti ég henni best allra. Við eigum að styrkja hana fremur en veikja. Við eigum að trúa á hana í þessum verkefnum og fela henni að vinna þessi verk.

Nú ætla ég að vera svo grófur að taka mér sjálfdæmi og býð stjórnarandstöðunni upp á slíkt hið sama hvað Framsfl. varðar. Ég ætla að skipa hæfustu menn stjórnarandstöðunnar til þess að sitja í rannsóknarnefndinni eða öllu heldur gera tillögu um það. Ég mundi leggja til að frá Vinstri grænum kæmu hv. þm. Ögmundur Jónasson og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Frá Samfylkingunni veldi ég hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Síðan yrði stjórnarliðið að koma með fimm. Sjá nú allir menn að erfitt gæti orðið fyrir þetta fólk, þó að stjórnarliðarnir bætist ekki við, að ná sameiginlegri niðurstöðu. (Gripið fram í: Af hverju telur þú á ekki upp líka?) Þess vegna er það svo að níu manna þingnefnd kemst ekki að niðurstöðu í svona flóknu máli. (Gripið fram í.) Ég fullyrði það, aldrei.

Átök á milli stjórnar og stjórnarandstöðu héldu áfram um langa hríð. Á meðan blæddi Landssímanum út, þessu dýrmæta fyrirtæki þjóðarinnar. Það mundi halda áfram að engjast í málinu. En Ríkisendurskoðun mun vinna sitt verk fyrir hv. þingmenn eins og þeir hafa falið henni og hin margvíslega löggjöf sem Alþingi hefur sett á síðustu árum, upplýsingalöggjöf, samkeppnislöggöf, starfsmannalöggjöf o.s.frv., mun tryggja það. Þingið hefur staðið vel að þessum málum á síðustu árum og á ekki að láta sér detta í hug að slík nefnd, pólitískt skipuð, gæti farið ofan í saumana á Landssímamálinu. Ríkisendurskoðun mun gera það.

Þeir menn sem hafa lent í þeim vondu málum sem upp hafa komið upp á síðkastið og tengjast sjálftöku og spillingu í meðferð fjármuna almennings, verða auðvitað að sæta ábyrgð og taka afleiðingum gerða sinna. Slíkt á ekki að þrífast og ég fullyrði að eftirlitskerfi Alþingis og Ríkisendurskoðunar, sem ég hef nefnt, er það gott eftirlitsfyrirtæki í dag að málin upplýsast. Ég ítreka enn að við þurfum að huga að því, miðað við gang mála, að styrkja þessa stofnun enn frekar.

Fjölmiðlar eru jafnan mikilvægir og opna, upplýsa og rannsaka spillingarmál. Þeim ber að þakka alveg sérstaklega. Þeir gegna mikilvægu hlutverki í lýðræðisþjóðfélaginu okkar.

Við framsóknarmenn höfnum því þáltill. Samfylkingarinnar og viljum fremur styrkja og efla Ríkisendurskoðun sem hlutlausa og markvissa í því að veita aðhald og eftirlit svo að allir þeir sem ábyrgð bera og stjórna og starfa fyrir samfélagið fari að lögum og vinni af heiðarleika, ella verði þeir gerðir ábyrgir gerða sinna.

Hæstv. forseti. Ég lýk máli mínu með því að líta svo á að tillagan sem nú er flutt um þessa rannsóknarnefnd sé fyrst og fremst sýndarmennskumál til þess að halda umræðunni gangandi. En stjórnarandstaðan veit það jafn vel og ég að þessi níu manna nefnd mundi aldrei ná árangri í störfum sínum. Ég hygg að það tæki hana langan tíma að skipa formann fyrir hópinn.