Skipun rannsóknarnefndar í málefnum Landssímans og einkavæðingarnefndar

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 15:39:09 (5689)

2002-03-06 15:39:09# 127. lþ. 90.1 fundur 554. mál: #A skipun rannsóknarnefndar í málefnum Landssímans og einkavæðingarnefndar# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 127. lþ.

[15:39]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Í 39. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Alþingi getur skipað nefndir alþingismanna til að rannsaka mikilvæg mál, er almenning varða. Alþingi getur veitt nefndum þessum rétt til að heimta skýrslur, munnlegar og bréflegar, bæði af embættismönnum og einstökum mönnum.``

Samkvæmt laganna hljóðan er umboðið mjög víðtækt ef Alþingi kýs svo með samþykki sínu. Meginefni tillögu samfylkingarþingmannanna er eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að kjósa níu manna rannsóknarnefnd samkvæmt 39. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Rannsóknarnefndin hafi það hlutverk að rannsaka fjárhagsleg málefni, viðskiptahætti og embættisgjörðir fulltrúa eigenda og stjórnenda Landssímans auk tengdra mála er varða sölu fyrirtækisins og hagsmuni almennings.``

Þetta efni er mjög skýrt og almennt orðað enda byggir það á því víðtæka umboði sem Alþingi getur veitt nefndum af þessu tagi eins og tilvitnun mín í upphafi máls í stjórnarskrána ber með sér. Sú upptalning sem þar kemur á eftir í 11 tölusettum liðum í þáltill. þingmanna Samfylkingarinnar er í raun óþörf og ætti í besta falli heima í greinargerð að mínu viti.

Tillaga Samfylkingarinnar endar svo, með leyfi forseta:

,,Nefndin skal einnig kanna aðra þætti þessara mála eftir því sem henni þykir ástæða til.

Nefndin hefur rétt til að krefjast nauðsynlegra gagna um málið og fá skýrslur, munnlegar og skriflegar, frá embættismönnum, einstökum mönnum eða lögaðilum og ráða sér til aðstoðar sérfróða aðila sé þess þörf.

Nefndinni er heimilt að láta rannsóknina eða einstaka þætti hennar fara fram fyrir opnum tjöldum.

Nefndin skal hraða störfum sínum eins og kostur er og skila niðurstöðum til Alþingis eigi síðar en 1. október 2002.

Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.``

Ég tel að þetta sé eðlileg viðbót og þannig uppsettan texta ætti Alþingi að geta samþykkt. Ef menn svo kjósa er síðan sjálfsagt að taka þau atriði sem vikið er að í efnispunktunum 11 og greinargerð tillögunnar til umræðu því vissulega hefur þetta Símamál allt saman sett mikinn svip á umræðu með þjóðinni að undanförnu. Söluferli Landssímans hefur vissulega orðið að einu endemisklúðri og best er að láta það ógert að selja eins og málum er nú komið. Þrátt fyrir allan vandræðaganginn við stjórn fyrrtækisins og söluáætlun er eitt víst, og það lá alltaf ljóst fyrir, að engin sala gat átt sér stað ef kaupandi vildi ekki fyrirtækið á því verði sem upp var sett eða að mat hans á fyrirtækinu og framtíð þess fór ekki saman við sýn okkar á verðmæti og kostum Landssímans.

Ég ætla ekki að hafa þetta langt mál en get þó ekki orða bundist um þau skilaboð sem forstjórar og stjórnarformenn sem starfað hafa í umboði ríkisstjórnar við stjórn og sölu Landssímans hafa sent þjóðinni með athöfnum sínum á undanförnum missirum. Er Þórarinn Viðar Þórarinsson einhver venjulegur meðaljón sem lifað hefur áhrifalítill í þjóðfélagi okkar? Nei, alls ekki. Hann var um árabil framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands og flutti þjóðinni og samninganefndum verkalýðsins tölur um að þjóðin yrði að sníða sér stakk eftir vexti og að óhóflegar launakröfur væru aðför að þjóðinni. Stundum var það jafnframt svo orðað að verkalýðshreyfingin yrði að sýna ábyrgð og jafnvel herða sultarólarnar svo hag lands og þjóðar væri borgið til framtíðar.

Svo komast menn í störf fyrir ríkið, þjóðina, fólkið í landinu, og fá laun og sporslur sem nema tugum milljóna og finnst allt þeim sjálfum til handa svo ósköp einfalt og sjálfsagt. Allt þetta ferli er gengisfelling á trúverðugleika þeirra manna sem nú stjórna verkum í okkar litla þjóðfélagi.

Sama má segja um Friðrik Pálsson sem komst í sjálftökuaðstöðu hjá Landssímanum með sérfræðiráðgjöf í gegnum sín Góðráð ehf. Hann var heldur ekki neinn meðaljón í íslensku samfélagi, forstjóri stórfyrirtækja sem stjórnvöld leituðu oft ráðgjafar hjá í áratugi þótt ráð hans þá væru ekki orðin góð ráðin dýr. Það er ömurlegt að finna hvað ráðamenn ríkisstjórnar og aðrir ráðamenn hafa sett niður almennt í áliti hjá venjulegu fólki, en engan þarf það að undra. Til þess eru ærnar ástæður eins og dæmin sanna. Við getum vissulega öll misstigið okkur og eigum þá að viðurkenna það. Það er mannlegt að skjátlast en ásetningur til slæmra verka er allt annað mál.