Skipun rannsóknarnefndar í málefnum Landssímans og einkavæðingarnefndar

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 16:30:38 (5696)

2002-03-06 16:30:38# 127. lþ. 90.1 fundur 554. mál: #A skipun rannsóknarnefndar í málefnum Landssímans og einkavæðingarnefndar# þál., SvH
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 127. lþ.

[16:30]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson tók fram að einkavæðing Landssímans hefði ekki beðið skipbrot. Vera kann að það sé ekki algert skipbrot en skútuna þessa hefur rekið á reiðanum og borið upp á sker hvort sem tekst að ná henni út aftur eður ei. En á Guðna Ágústssyni hæstv. landbrh. var ekki að heyra að það stæði til í bráð.

Það má með sanni segja að þessar einkavæðingartilraunir með Landssíma Íslands séu orðnar ærið skrautlegar svo ekki sé meira sagt. Hefur maður þó dæmi um ýmislegt sem sérkennilega hefur verið framkvæmt í þeim sökum og nægir að nefna gjafasölur SR-mjöls, Síldarverksmiðja ríkisins og Þormóðs ramma á Siglufirði. Af fleiru er að taka af því sem menn hafa ekki gætt sín. Við skulum kenna því um að menn hafi ekki haft nóga undirstöðuþekkingu á framkvæmd málanna.

En hér gefur að líta dæmi sem er alveg dæmalaust, a.m.k. í íslenskri stjórnmálasögu og í viðskiptasögu landsins. Viðhorf manna til markaðsbúskapar er orðið mjög mikið breytt frá því sem áður var. Meira að segja vinstri menn, sem lengi trúðu á miðstýringuna, hafa breytt um stefnu. Vinstri grænir eru nú þeirrar skoðunar að það eigi að markaðsvæða sjávarútveginn og fylkja þar liði með Samfylkingunni og Frjálslynda flokknum.

En hverjir skyldu ekki vilja fallast á þá aðferð árið 2002? Þegar ég átti heima í Sjálfstfl. var frjáls markaðsbúskapur talinn undirstaða velferðarríkisins, hvorki meira né minna. Frjálst framtak einstaklingsins var höfuðboðskapur og hin frjálsa samkeppni. Þetta voru höfuðstefnumál Sjálfstfl. --- í orði kveðnu virðist vera eins og nú er komið. Ég hirði ekki um að nefna viðhengið, Framsfl., í þessu sambandi. Þar er allt á eina bókina lært hvort sem er. En svo við nefnum aðalatvinnuvegina, hvernig hefur tekist til með einkavæðinguna í þeim, um markaðsbúskapinn, markaðssetninguna? Þar flytur stjórnarandstaðan á Alþingi tillögu um að bjóða veiðiheimildir upp, að markaðsvæða þetta með eðlilegum hætti, en Sjálfstfl. og viðhengi hans vilja útdeila þessu, miðstýra þessu.

Ekki nóg með að þeir vilji miðstýra þessu heldur stjórna því á þann veg að aðeins fáir fái notið afrakstursins, að einstaka menn og gæðingar fái fénýtt sér til eigin handa þessa aðalauðlind landsins. Það sýnir ekki mikinn áhuga hjá hæstv. ráðherrum að hér voru umræður á mánudag og þriðjudag um þetta mikla örlagamál íslensku þjóðarinnar en sjútvrh. var aleinn mættur allan tímann, aleinn mættur. Kannski er formsatriði að leggja þetta fyrir Alþingi. Forráðamenn þjóðfélagsins eru búnir að semja við LÍÚ-herrana.

Hæstv. landbrh. var við annan ráðherra í gær að ræða mikið örlagaatvinnumál, sauðfjárbúskapinn í landinu. Hann lýsti yfir í byrjun máls síns að sauðfjárbændur væru fátæk stétt í landinu. Hann hefði kannski mátt aðeins bæta við þessa yfirlýsingu, t.d. því að Framsfl. hefði haft meginstefnumótun með höndum frá því að hann var stofnaður, í 85 ár, og góða samvinnu og nákvæma við Sjálfstfl. frá 1940. Þá hefðu menn vafalaust sperrt eyrun því þannig er þetta. Þannig er það að Framsfl. hefur borið meginábyrgð á mikilvægustu hagsmunamálum þessarar stéttar og samt er komið sem komið er og Sjálfstfl. hefur gengið undir það jarðarmen.

Hér er sótt mjög að hæstv. samgrh. Það er óþarft. Hann hefur ekkert af sér brotið að minni hyggju. Hann hefur verið leiðitamur og gengið fyrir fyrirskipunum og fyrirmælum allsherjargoðans, Davíðs Oddssonar. Hverjir eru það sem þarna hafa aðallega um vélt? Allt saman ungar úr eggjum Davíðs Oddssonar, allir fyrirsvarsmennirnir sem bera höfuðábyrgð á þessu og raunar veit samgrh. hvað biði hans ef hann ekki hlýddi í einu og öllu. Ungar úr eggjum hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar og Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, hugsjónafræðings og hugmyndasmiðs Sjálfstfl., sem kennir nýfrjálshyggjuna, hina nýju auðvaldsstefnu, sem allt á að sveigja undir.

Sá sem hér stendur er einkavæðingarsinni en ekki skilmálalaust. Ég ætla að rifja upp þegar rætt var um einkavæðingu Landssímans og bankanna. Þá var því lýst yfir mjög skilmerkilega að það væri stefna ríkisstjórnarinnar núverandi að eignaraðild að þessum fjármálastofnunum yrði dreifð. Því var einnig lýst yfir í sambandi við einkavæðingu Landssímans. Hvernig er þessum málum komið? Þetta var eitt af grundvallarskilyrðum þess að sá sem hér stendur gæti fylgt einkavæðingu þessara fyrirtækja. Allt hefur þetta farið á annan veg. Síðast var sóst eftir erlendum fjárfesti til að reka og eignast stjórnarmeirihluta í Landssímanum sjálfum þótt ekki væri þar nema um 25% eignaraðild að tefla. Þetta er fráhvarf frá boðaðri stefnu, stefnu sem olli því til að mynda á sínum tíma að starfsmenn bankanna tóku vel við sér að vinna að einkavæðingunni.

Menn minnast þess kannski þegar samgrh. okkar sté í pontu til að svara gagnrýni á það að Landssíminn hefði ekki verið seldur þegar gengi hans var hæst. Þá lýsti hann því yfir að hann hefði helst ekki getað hugsað sér að standa frammi fyrir mönnum sem hefðu keypt á hágengi og hefðu svo tapað á hlutabréfunum sínum rétt á eftir. Forsrh. tók undir þetta og ég heyrði ekki betur en hv. þm. Vilhjálmur Egilsson væri að kyrja sama söng. Hvers fulltrúar eru þessir menn? Eru þeir fulltrúar eignar landsmanna sem verið er að selja eða eru þeir með augun á hag og velferð þeirra sem kaupa? Ætli það gildi þá líka um þann útlenda?

Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson gat þess að ef lífeyrissjóðirnir hefðu keypt hefði það leikið þá illa. En hvers vegna ekki að gefa þeim Landssímann til þess að efla þá svo að um munar? Þessi rök standast ekkert, þau ganga öll á misvíxl eins og sjá má ef menn íhuga málið kostgæfilega. Landssímamálið og einkavæðingartilraunir hans eru heiftarklúður hvernig sem á það er litið. Svo kemur allsherjargoði og tilkynnir: 150 millj., við vinnum það bara upp seinna. Við græðum á honum seinna. Þetta er allt í besta lagi og það er eiginlega betur af stað farið en heima setið, eftir því sem mér heyrist á honum. Til lukku með það og ég bið hæstv. landbrh. að skila þeim hamingjuóskum mínum.

Nei, þetta er heiftarklúður sem vandséð er hvernig verður greitt úr. Fulltrúi Framsfl., hæstv. landbrh., lýsti því að hér yrði öllu slegið á frest. Sá frestur getur varla orðið skemmri en til næstu kosninga og þá er að sjá hvernig á málinu verður tekið.

Það er afstaða okkar í Frjálslynda flokknum að vilja fylgja þessari tillögu sem hér liggur fyrir. Við teljum að hún gæti mjög greitt úr þessu máli og eigandi þessa stóra fyrirtækis á kröfu á að fá allt málið upp á borðið og það skýrt í smáatriðum. En ég veit hins vegar, og ætla að gerast spámaður að því leyti sem það er sannfæring mín, að þetta mál verður aldrei tekið úr nefnd ef því verður þá vísað þangað. Það sýnir í sjónhendingu sannleiksást og frjálslyndi valdhafanna en þó kannski öllu fremur hræðslu þeirra við að allur sannleikurinn í þessu máli komi upp á borðið og verði lýðum ljós.