Lögskráning sjómanna

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 10:57:22 (5709)

2002-03-07 10:57:22# 127. lþ. 91.4 fundur 563. mál: #A lögskráning sjómanna# (öryggisfræðsla) frv. 12/2002, JB
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 127. lþ.

[10:57]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um lögskráningu sjómanna er hér til 2. umr. og hv. formaður samgn. hefur mælt fyrir nál. frá samgn. Ég er með nokkurn fyrirvara við nál. sem ég vil gera örstutta grein fyrir.

Í fyrsta lagi vil ég geta þess að að mínu mati eins og kemur fram í nál. og í frv. eru öryggismál og fræðsla í öryggismálum afar mikilvæg og eitt af grundvallaratriðum fyrir okkar mikilvæga atvinnuveg allra landsmanna að bæði sé stöðug og öflug grunnfræðsla fyrir þá sem eru að fara að stunda þennan atvinnuveg og starfa í honum. Það er forsenda fyrir því að hann geti blómgast og dafnað og orðið við þeim væntingum sem við berum til hans.

Einnig ber að leggja áherslu á aukna endurmenntun í þessari grein, í öryggismálum sjómanna. Það ber að efla og auka alla menntun á þessu sviði og þar verður seint of vel gert.

Frumvarpið sem nú er til umræðu leggur einmitt áherslu á að það verði skylda að sjómenn sæki slík námskeið áður en þeir fá fulla og endanlega lögskráningu á skip og ég styð það sjónarmið og finnst eðlilegt að gerðar séu þær kröfur í þessum atvinnuvegi sem öðrum og ekki síst í þessum atvinnuvegi.

Það sem ég vil leggja áherslu á og gera athugasemd við er að rekstur slíkra námskeiða á að meginhluta að standa undir sér með gjöldum af þátttakendum. Að meginhluta er lagt til að svo sé. Þetta er töluverður kostnaður. Bæði námskeiðsgjald og einnig líka atvinnutöf fyrir þá sem verða af atvinnu á meðan þeir fara á námskeið og fyrir þá sem þurfa kannski að sækja slík námskeið langan veg, þá getur þetta verið umtalsverður kostnaður. Ég tel að það eigi að gjalda varhug við því að byggja öryggisfræðslu sjómanna nánast eingöngu á námskeiðsgjöldum þeirra sem þau stunda.

Mér er kunnugt um að fjárveitingar til Slysavarnaskóla sjómanna eru í miklu lágmarki og standa aðeins undir því sem nemur brýnum grunnrekstrarkostnaði þess starfs. Þar er ekki fjármagn til að byggja upp eða efla og endurbæta starfsemina, bæta við nýjum tækjakosti og láta hana fylgja með tímanum. Það skortir mikið á að svo sé. Ég hefði talið að það hefði átt að vera áhersla í þessum lagabreytingum á að fjárhagsgrundvöllur Slysavarnaskóla sjómanna væri styrktur þannig að hann gæti axlað á fullan hátt þá ábyrgð sem við berum gagnvart þessari fræðslu fyrir sjómannastéttina. Það er haft áfram opið í frv. að fræðslan skuli fjármögnuð með skólagjöldum. En ég hefði viljað sjá áherslu á að þetta væri ein af frumskyldum ríkisins, okkar sameiginlegu skyldum að styrkja og efla slysavarnafræðslu sjómanna, bæði grunnmenntun og endurmenntun. Það ætti ekki að byggjast í svo ríkum mæli á þátttökugjöldum sjómanna sjálfra heldur ætti það í auknum mæli að vera stutt af hálfu ríkisins og við mundum standa enn þá betur við starf Slysavarnaskóla sjómanna og að þeir fengju aukið fjármagn til þess að byggja sig upp. Þá sýn finnst mér skorta í frv. sem hér er verið að leggja fram, og þá áherslu á þær skyldur sem samfélagið ber í þessu máli því þetta er svo sannarlega mikilvægt mál að öryggisfræðsla sjómanna sé með því allra besta sem við getum staðið að.