Lögskráning sjómanna

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 11:03:16 (5710)

2002-03-07 11:03:16# 127. lþ. 91.4 fundur 563. mál: #A lögskráning sjómanna# (öryggisfræðsla) frv. 12/2002, GAK
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 127. lþ.

[11:03]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Það frv. sem nú er komið til 2. umr., um að gefa mönnum enn einn aðlögunartímann til að sækja námskeið í slysavörnum, er sjálfsagt komið inn af illri nauðsyn. Hins vegar ber að draga skýrt fram í þessari umræðu að 1997 voru sett þau skilyrði í lög að til að fá lögskráningu þyrfti viðkomandi sjómaður að hafa sótt námskeið í öryggisfræðslu við Slysavarnaskóla sjómanna eða önnur sambærileg viðurkennd námskeið.

Þessar reglur voru settar og í tvígang er búið að fresta þeim. Nú erum við að gefa í raun og veru lokafrest sem ég get fyrir mitt leyti fallist á vegna þess að hann er þannig fram settur að fresturinn tengist beinni undanþáguveitingu til þess eins að menn fari á námskeið. Ég tel að þannig verði það að vera. Menn verða að enda þennan feril með því að gefa þá þessa einu aðlögun í viðbót en því aðeins eins og hér er lagt til, að undanþágan fáist eingöngu gegn því að menn séu skráðir á námskeið.

Auðvitað kunna samt sem áður að koma upp einhver slík tilvik að menn geti af einhverjum ástæðum alls ekki sótt námskeið. Menn geta veikst eða slasast eða eitthvað annað borið við og auðvitað verða menn þá kannski að horfa fram hjá því um einhvern tíma en það er mjög nauðsynlegt samt að reyna að halda þessa reglu. Þessu ferli verður að ljúka því að síðan er auðvitað að því stefnt að menn fari í endurþjálfun og haldi við þekkingu sinni á slysavörnum og viðbrögðum við slysum. Til þess þarf Slysavarnaskóli sjómanna auðvitað að halda úti öflugum og reglulegum námskeiðum fyrir sjómenn á komandi árum og áratugum.

Ég segi eins og hv. síðasti ræðumaður vék að í máli sínu að auðvitað þarf að tryggja að þessi öryggisfræðsla haldi velli með því að henni séu veittar þær fjárveitingar sem þarf til að reka Slysavarnaskólann. Oft hefur verið á brattann að sækja í fjárveitingum vegna öryggisfræðslunnar og kemur þá út á eitt hvort um er að ræða þau námskeið sem hafa verið boðin í Slysavarnaskóla sjómanna eða þau sem almennt eru veitt í Sjómannaskólanum þegar menn mennta sig í störfum til sjós, vélstjórnar- og skipstjórnarfræðum. Sjálfsagt er að láta það koma fram í þessari umræðu að í Stýrimannaskóla Íslands m.a. eru núna ákveðin tæki sem notuð hafa verið til endurþjálfunar orðin úr sér gengin. Þau þarf nauðsynlega að endurnýja til þess að við getum staðist þá alþjóðastaðla sem við höfum gengist undir varðandi kröfur frá Alþjóðasiglingamálastofnuninni um þjálfun, vaktstöðu og öryggisfræðslu til sjómanna. Þar eiga menn auðvitað að eiga kost á því að fá ákveðna endurþjálfun í ákveðnum námskeiðum. Nú stendur þannig á í Stýrimannaskólanum að þau tæki sem þar hafa verið notuð á undanförnum árum við að halda námskeið, m.a. í svokölluðum Arpasiglingum í ratsjárkerfum, eru ekki lengur í lagi og talið illmögulegt að halda þeim við. Ekki er hægt að halda námskeið í þessu núna í Stýrimannaskólanum vegna tækjaskorts. Brýna nauðsyn ber til að þar verði gripið inn í.

Svo vel vill til að skólastjóri Stýrimannaskólans og skólanefndarmenn hafa verið fræddir um það að fyrir liggi tilboð frá Norðmönnum um að endurbæta þann búnað sem notaður hefur verið, mjög áhugavert tilboð að mínu viti, og í stað þess að reyna að halda þessum gömlu tækjum við með ærnum kostnaði og tíma hafa Norðmenn boðið fram ný tæki í stað þeirra gömlu og þess viðhaldssamnings sem þeir hafa gengist undir. Þar með losnuðu þeir frá því viðhaldi sem í samningnum er en við hins vegar fáum þessi tæki á afar góðu verði. Ég tel tvímælalaust að þessu tilboði eigi að taka, einn, tveir og þrír, og dreg mjög í efa að við fáum nokkurn tíma annað eins tilboð. Það byggist auðvitað á því að Norðmennirnir gengust undir það að halda tækjunum í Stýrimannaskólanum við með þeim samningi sem gerður var fyrir nokkrum árum um þau tækjakaup. Það er auðvitað orðið afar dýrt að halda við gömlum tækjum í þeirri öru tækniþróun sem á sér stað og þess vegna er afar brýnt að við tökum því tilboði sem okkur hefur verið boðið í þessa veru vegna þess að Norðmenn sjá sér hag í því að losna frá viðhaldssamningnum og bjóða þar af leiðandi mjög mikinn afslátt af hinum nýjum tækjum sem geta svo vonandi þjónað okkur til margra ára.

Þessa vildi ég láta getið vegna þess að þetta er hluti af öryggisfræðslunni. Ég get t.d. líka látið það koma fram að ef þessi tæki í Stýrimannaskólanum hefðu verið biluð á síðasta vetri þegar Siglingastofnun tók út kennslugæði Stýrimannaskólans hefðum við ekki staðist kröfur hvítlistans hjá Alþjóðasiglingamálastofnun um að við séum með fullkomið skólakerfi fyrir skipstjórnarmenntun sem standist alþjóðlegar kröfur. Við hefðum hreinlega ekki staðist það. Þess vegna ber auðvitað brýna nauðsyn til að þarna verði gripið inn í og fjárveitingar fáist til þess að endurnýja þennan tækjakost enda ber okkur skylda samkvæmt alþjóðasamþykktum til að uppfylla þjálfunarkröfur okkar, jafnt í Stýrimannaskólanum sem Slysavarnaskóla sjómanna, og ég vonast til þess að það sem við erum að gera hér verði ekki til þess að rýra öryggi sjómanna eða öryggisfræðslu. Ég vildi bara láta þessa getið og ég vonast til þess að stjórnvöld þessa lands sjái sér hag í því að styðja við Stýrimannaskólann í þessa veru og að hægt verði að taka þessu tilboði fyrr en seinna því að það er tímasett og ganga þarf til þess verks mjög fljótlega. Ég vonast til að menntmrh. horfi þannig á málið að þetta sé hagkvæmt fyrir íslenska þjóð.