Lögskráning sjómanna

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 11:16:58 (5712)

2002-03-07 11:16:58# 127. lþ. 91.4 fundur 563. mál: #A lögskráning sjómanna# (öryggisfræðsla) frv. 12/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 127. lþ.

[11:16]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni um fjárveitingar til Slysavarnaskóla sjómanna, þær eru 47,5 millj., af því eru 3 millj. eyrnamerktar æfingum með þyrlunni. Samkvæmt upplýsingum mínum kostar ein æfing, t.d. að fara með þyrlunni austur á land og æfa þar, 700 þús. kr. þannig að peningarnir eru fljótir að fara og þessar upphæðir hafa staðið í stað. Þær upplýsingar sem ég hef frá skólastjóra Slysavarnaskóla sjómanna eru að fjárveitingar rétt dugi til að halda rekstrinum í þokkalegum gangi en ekki til endurnýjunar eða til þess að færa búnaðinn upp. Það er alvarlegt mál.

Ég legg áherslu á, virðulegi forseti, að í mínum huga er starfsmenntun nauðsynleg til þess að stunda mikilvæg störf eins og sjómennskuna, verklegt nám eða verkleg námskeið. Hún er alveg jafnmikilvæg og hvert annað nám sem við stundum í þjóðfélaginu. Ég er ekki sáttur við þá stefnu að þegar kemur að verklegri þjálfun, verklegri menntun eða beint starfstengdri menntun í svo mikilvægum atvinnugreinum, skuli sú sýn vera sjálfsögð að þar skuli nemendur borga. Ef nemandi sest hins vegar á skólabekk með bók fyrir framan sig, sem líka er gott nám, horfir þar öðruvísi við. Í sjálfu sér er eðlilegt að greiða hugsanlega eitthvert staðfestingargjald en þessi sýn gagnvart starfsmenntuninni, að þar skuli nemendur borga, er sýn sem ég er ekki sáttur við. Alltaf skal sá borga sem er í starfsmenntun og ég er andvígur þeirri sýn stjórnvalda.