Lögskráning sjómanna

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 11:19:14 (5713)

2002-03-07 11:19:14# 127. lþ. 91.4 fundur 563. mál: #A lögskráning sjómanna# (öryggisfræðsla) frv. 12/2002, Frsm. GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 127. lþ.

[11:19]

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta varðandi þyrluna er mál út af fyrir sig. Ég hef litið svo á að áhafnir þyrlu Landhelgisgæslunnar hafi nánast slegið tvær flugur í einu höggi þegar þær hafa tekið þátt í starfi Slysavarnaskóla sjómanna því að þá hafa þær um leið verið að þjálfa sig líka til að bregðast við mismunandi aðstæðum. Reikningur frá Landhelgisgæslunni er eins og hann er vegna þess, eftir því sem mér er sagt, að tillit var tekið til þeirra tekna við fjárlagagerð þegar veitt var fjármagn til Slysavarnaskólans.

Við heyrum hins vegar af því að víða erlendis þar sem svona skólar eru reknir eru þyrlur ekki notaðar heldur er búið til svipað ástand, nánast æft í sundlaug með tilheyrandi miklum blásturstækjum sem búa til mikinn vind og hávaða og menn eru hífðir þar upp í gálga. Ég tel hins vegar eðlilegt að menn æfi við sem raunhæfastar aðstæður hverju sinni svo lengi sem við getum staðið fyrir slíkum æfingum þótt þær kosti okkur mikla peninga.

Hvað áhrærir hins vegar greiðslur vegna hinna verklegu þátta get ég verið alveg sammála hv. þm. Jóni Bjarnasyni. Þar er bara vandinn miklu stærri og meiri. Þar stendur þjóðfélagið allt frammi fyrir þeirri staðreynd að yfir 60% ungmenna sækja í háskóla en tæplega 40% í verkmenntaskóla. Það hlýtur að vekja spurningar á hinu háa Alþingi: Hvernig má það vera að á Íslandi sé þessi þróun algjörlega öndverð við það sem er að gerast á hinum Norðurlöndunum? Leggjum við sjálf svo mikla áherslu á að öll ungmenni skuli fara í háskólanám, langskólanám? Er það kannski af því að yfirvöldum menntamála þyki of dýrt að reka verkmenntaskólana og leggi ekki eins mikla áherslu á þann þátt náms ungmenna? Þetta er miklu stærra og meira mál en svo að við getum fundið einhverja lausn á því sem felst í námi Slysavarnaskóla sjómanna.