Loftferðir

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 11:27:53 (5718)

2002-03-07 11:27:53# 127. lþ. 91.3 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv. 21/2002, Frsm. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 127. lþ.

[11:27]

Frsm. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Nú er komin til 3. umr. frv. um breytingu á lögum um loftferðir sem hefur verið um nokkurt skeið til umfjöllunar í þinginu og hv. samgn. Við 2. umr. málsins gerðum við í minni hlutanum skýra grein fyrir því að við höfum miklar efasemdir um þær miklu valdheimildir sem ætlunin er að færa til Flugmálastjórnar. Við efumst um að skynsamlegt sé að fara þá leið. Við gerðum mjög skýra grein fyrir sjónarmiðum okkar og afstöðu í því máli, þ.e. sá þingmaður sem hér stendur og hv. þm. Kristján L. Möller og Jón Bjarnason.

Hér við 3. umr. leyfum við okkur, tveir hv. þm., ég og Kristján L. Möller, að leggja fram brtt. við þetta frv. en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðist svo:

Öll gjöld sem innheimt hafa verið á grundvelli 4. mgr. 71. gr. a laga nr. 60/1998, frá því að lög nr. 74/2000 tóku gildi, skulu endurgreidd án ástæðulauss dráttar frá gildistöku laga þessara.

Virðulegi forseti. Rætt er um gjöld sem hafa gengið undir nafninu flugmiðaskattur. Þau voru lögð á með þeim lögum sem vitnað var til og hafa verið mjög íþyngjandi fyrir innanlandsflugið. Þau voru mjög umdeild þegar þau voru lögð fram þar sem sá er hér stendur og hv. þm. Kristján L. Möller lögðust eindregið gegn þeim ásamt hv. þm. Jóni Bjarnasyni, fulltrúa Vinstri grænna. Með þessari tillögu er því lagt til að þau gjöld sem innheimt hafa verið samkvæmt þessum lögum verði endurgreidd en í frv. því sem hér liggur fyrir og er til afgreiðslu er ætlunin að hætta við innheimtu á þessum gjöldum. Með tillögu okkar er lagt til að gengið verði skrefi lengra og þau gjöld sem hafa þegar verið innheimt og lagst þungt á innanlandsflugið verði endurgreidd.