Skylduskil til safna

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 11:35:47 (5720)

2002-03-07 11:35:47# 127. lþ. 91.5 fundur 228. mál: #A skylduskil til safna# (heildarlög) frv. 20/2002, KolH
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 127. lþ.

[11:35]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. sem finna má á þskj. 858 í þessu máli rita ég undir það með fyrirvara og mun nú gera grein fyrir þeim fyrirvara mínum.

Herra forseti. Þessi löggjöf um skylduskil til safna kemur til með að leggja mun ríkari skyldur á þær stofnanir sem heyra undir þessi lög en áður hefur tíðkast. Í viðbótarupplýsingum sem nefndin kallaði eftir frá fjmrn., fjárlagaskrifstofu, kemur fram að nánast sé ógerlegt að gefa nákvæmar upplýsingar um þann kostnaðarauka sem þetta frv. hefur í för með sér fyrir þær stofnanir sem hlut eiga að máli. Í viðbótarupplýsingum sem nefndin kallaði eftir segir að ógerlegt sé að ákvarða þessar upphæðir nánar vegna fjölmargra óþekktra stærða.

Ég ber sérstaklega hag Ríkisútvarpsins fyrir brjósti í þessum efnum, herra forseti. Ríkisútvarpið býr við afar bágan fjárhag. Ríkisútvarpið hefur hingað til safnað dagskrárefni sem safnadeildin og dagskrárgerðarmenn hafa metið þess virði að heyri undir menningararf okkar en því fer fjarri að Ríkisútvarpið hafi safnað öllu dagskrárefni sem út fer eins og þessi lög leggja því á herðar.

Tvennt gerist við það að Ríkisútvarpið þurfi að fara að fara eftir þessum lögum. Í fyrsta lagi þarf að fjölga fólki sem starfar við skráningu hjá Ríkisútvarpinu umtalsvert og í öðru lagi þarf að auka umtalsvert við húsnæði safns Ríkisútvarpsins því að samkvæmt þessu frv. er gert ráð fyrir því að stofnanir eins og Ríkisútvarpið geti sjálfar safnað og geymt safnefni sitt í húsnæði sínu þó að safnið eigi formlega að heyra undir Kvikmyndasafnið.

Sannleikurinn er sá að Ríkisútvarpið kemur ekki til með að geta staðið undir þeim kröfum sem þessi lög leggja því á herðar nema umtalsvert aukið fjármagn komi til, og m.a. aukið húsnæði. Ég hef gagnrýnt í nefndinni, herra forseti, og finnst ekki til fyrirmyndar að hér skuli vera samþykkt lög sem fyrirsjáanlega hafa í för með sér gífurlega aukningu ófyrirséðs kostnaðar, og ekki liggur fyrir pólitísk yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um hvort fjármunir verði settir í þennan málaflokk í fjárlagagerð komandi ára.

Ég vil benda á, herra forseti, að Ríkisútvarpið á við gífurlegan fjárhagsvanda að etja. Nú er svo komið að umtalsvert hefur verið skorið niður af fjármagni sem fer í dagskrárgerð. Því spyr ég hv. frsm. nál. menntmn.: Er það ásættanlegt að Ríkisútvarpinu skuli vera gert ókleift að standa undir menningarhlutverki sínu í dagskrárgerð en ríkisstjórnin ætli síðan að leggja útvarpinu það á herðar að þurfa að skrá og geyma allt bullið sem farið er að senda út á öldum ljósvakans í beinum útsendingum af því að ekki eru til fjármunir til að framleiða almennilegt dagskrárefni?

Er þetta rétt forgangsröðun, herra forseti? Skiptir ekki meira máli að við útvegum Ríkisútvarpinu fjármagn til að standa vörð um menningararfinn með gerð metnaðarfulls dagskrárefnis heldur en að við útvegum því fjármuni til að skrá og geyma það sem sent er út? Ég hefði haldið að það væri í verkahring Alþingis að sjá til þess að Ríkisútvarpið hefði fjármuni í öfluga dagskrárgerð sem geri okkur kleift að varðveita menningararfinn okkar sem út fer á öldum ljósvakans. Við fáum ekki rétta mynd af menningu þjóðarinnar með því dagskrárefni sem við heyrum í Ríkisútvarpinu í dag því að þar er allt gert af miklum vanefnum og margar beinar útsendingar eru afleiðing af fjárskorti.

Ég segi því, herra forseti, að ég vil frekar að aukið fé verði sett í dagskrárgerð Ríkisútvarpsins heldur en að útvarpinu verði lagðar þær lagalegu skyldur á herðar að skrá allt dagskrárefni og hýsa það í híbýlum sínum sem ekki eru til staðar í dag.

Þetta mál snertir síðan aðra þætti í starfsemi útvarpsins. Ríkisútvarpið er svo illa sett að það býr við svokallað analog-kerfi. Það er nokkuð úrelt kerfi og þýðir að allt dagskrárefni Ríkisútvarpsins er framleitt og geymt á segulböndum. Stærri útvarpsstöðvar á Vesturlöndum eru farnar að nota stafrænt kerfi þar sem unnið er inn á tölvur og geymslumöguleikar þannig gjörólíkir. Hjá Ríkisútvarpinu hafa ekki verið til fjármunir til að fjármagna kaup á nýju útvarpsgerðar- eða útsendingarkerfi. Útvarpið okkar kemur til með að þurfa að búa við analog-kerfið í mörg komandi ár ef að líkum lætur, ef ekkert breytist afgerandi í stefnu ríkisstjórnarinnar hvað varðar málefni Ríkisútvarpsins.

Ég fullyrði, herra forseti, að hér er verið að leggja gífurlega auknar byrðar á þessa stofnun sem vantar aukna fjármuni frá fjárveitingavaldinu til annarra þarfa en þeirra að skrá og geyma allt dagskrárefni sem út fer.