Kosningar til sveitarstjórna

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 12:14:50 (5731)

2002-03-07 12:14:50# 127. lþ. 91.8 fundur 550. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (erlendir ríkisborgarar o.fl.) frv. 27/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 127. lþ.

[12:14]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er um að ræða frv. sem að efni til er lagfæring á lögum um kosningar til sveitarstjórna til samræmis við þær breytingar á kosningalögum sem tengdust kjördæmabreytingu sem hér var lögtekin í kringum síðustu alþingiskosningar. Þetta er að sjálfsögðu nauðsynlegt verk og ef eitthvað er tilefni gagnrýni, þá er það helst að slíkum lagfæringum á lögum um kosningar til sveitarstjórna skyldi ekki lokið fyrir löngu. Það er kominn líklega 7. mars, ef ég man dagatalið rétt, og utankjörfundaratkvæðagreiðsla í komandi sveitarstjórnarkosningum hefst núna innan tveggja vikna, eftir u.þ.b. hálfan mánuð, þannig að þau koma ansi seint af fjalli þessi lömb hæstv. félmrh. að hann skuli vera hér að baksa með kosningalagabreytingar svo seint sem núna í marsmánuði, á útmánuðum þess vetrar þegar sveitarstjórnarkosningar fara í hönd. Þess þá heldur er rétt og skylt að taka til hendinni og ég sé ekki annað en að félmn. eigi að drífa í að skoða frv. og reyna að tryggja afgreiðslu þess sem allra fyrst því að auðvitað er það ekki eins og við viljum hafa hlutina, að hér væru þessi lög opin og í meðhöndlun þingsins þegar t.d. utankjörstaðaatkvæðagreiðslan í komandi sveitarstjórnarkosningum er beinlínis hafin.

[12:15]

Að langmestu leyti sýnist mér, herra forseti, sem hér sé um að ræða tæknilegar lagfæringar sem ekki er ástæða til að gera miklar athugasemdir við. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að lesa frv. saman og fara yfir það. Á einstöku stöðum eru efnisbreytingar sem ekki eru endilega sjálfgefnar þó að almennum kosningalögum hafi verið breytt með tilteknum hætti, t.d. má nefna ákvæðið þar sem ákveðið er að fella niður meðmælendur í sveitarfélögum með innan við 100 íbúa. Auðvitað eru það hrein jaðartilvik sem þar er þá verið að reyna að sjá fyrir, mögulegar listakosningar í svo fámennum sveitarfélögum. Sjálfsagt er rétt að reyna að róa fyrir sem flestar víkur í þessu og ég skal ekki segja annað en að þetta efnisatriði geti vel átt rétt á sér.

Hér er ekki hróflað við þeim þáttum sem þó er langalgengast að heyra gagnrýni um varðandi framkvæmd kosninga, tilhögun utankjörstaðaatkvæðagreiðslu, rétti til að kjósa utan kjörfundar á sjúkrastofnunum og öðru sem því tengist. Algengast er að hnökrar verði í framkvæmd eða deilumál komi upp og umkvartanir vegna framkvæmdaatriða sem slíkum hlutum tengjast. Hér er ekki verið, að því ég fæ best séð, að hrófla við þessu á einn eða neinn hátt þannig að kannski er ekki í sjálfu sér tilefni til að taka það mikið upp en ég nefni þetta þó hér vegna þess að það er mjög algengt að fólk kvarti undan því og finnist að réttur þess sé takmarkaður að þessu leyti. Og ef einhverjir helst sæta því að eiga í erfiðleikum með að nýta kosningarrétt sinn eru það gjarnan þeir sem ekki sjá fram á að geta kosið á kjörstað, eru illa ferðafærir þannig að þeir geta ekki með auðveldum hætti nýtt sér utankjörstaðaatkvæðagreiðslur þar sem þær eru til staðar hjá sýslumönnum eða annars staðar, og svo náttúrlega þeir landar sem staddir eru á erlendri grund þegar kosningin fer fram eða í aðdraganda hennar. Enginn vafi er á að veruleg brögð eru að því að þá sé kosningarréttur af mönnum tekinn einfaldlega vegna þess að það geta verið miklir erfiðleikar fyrir menn að neyta atkvæðisréttar síns eins og þá er í pottinn búið. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort ekki væru einhverjar leiðir til að opna einhvers konar póstkosningamöguleika fyrir Íslendinga sem eru staddir erlendis. Hér í sveitarstjórnarkosningum á það við um þá sem tímabundið eru staddir erlendis en ekki varanlega búsettir af augljósum ástæðum, og enn frekar auðvitað gildir þetta í alþingiskosningum þar sem Íslendingar eru oft varanlega búsettir erlendis en kjósa að halda ríkisborgararétti sínum, eiga hér kosningarrétt í þingkosningum.

Þá er náttúrlega stutt yfir í að ræða spurninguna um rafrænar kosningar sem hér hefur borið á góma. Væri mögulegt með fullnægjandi öryggi að opna leiðir fyrir rafræna kosningu væri náttúrlega stórri, efnislegri hindrun rutt úr vegi fyrir þá sem ekki eru staddir á landinu á kjördag eða í aðdraganda hans.

Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt að óneitanlega er nokkuð sérstakt að alls ekki skuli vera minnst á þá möguleika sem tengjast rafrænum kosningum, ég tala nú ekki um rafræna kjörskrá. Maður hafði vænst þess a.m.k. í þessari umferð að opnaður yrði sá möguleiki að sveitarfélögin mættu halda rafræna kjörskrá. Hagræðingarmöguleikar í uppfærslu á kjörskránni eru alveg augljósir, varðandi aðgang að henni o.s.frv. Viss sveitarfélög hafa óskað eftir að fá að hafa rafræna kjörskrá og ég hlýt að leyfa mér að trúa því að það sé eitt af því sem félmn. ætti að taka til skoðunar, hvort einhverjir meinbugir séu á því sjáanlegir að ekki sé unnt að opna það sem valkvæðan möguleika að sveitarfélög geti haft rafræna kjörskrá. Að sjálfsögðu er ekki við því að búast að menn skipti á einni nóttu alfarið úr hefðbundnum kosningum með kjörseðlum og prentaðri kjörskrá og yfir í algjörlega rafræna framkvæmd að öllu leyti. Slíkt mundi væntanlega og ósköp eðlilega gerast í áföngum og ég held að eðlilegur fyrsti áfangi hefði verið að heimila þeim sveitarfélögum sem það kysu að viðhafa rafræna kjörskrá, og mögulega hvetja til þess að rafrænir kjörstaðir yrðu opnaðir til hliðar við hina hefðbundnu. Þannig gætu þeir sem það vildu æft sig í að kjósa rafrænt á tilteknum kjörstöðum þar sem öllu öryggi væri fullnægt og þannig væru menn að þróa kerfið eitthvað áfram í áttina að því að nýta sér þessa kosti.

Eitt áhyggjuefni er ástæða til að nefna í þessu sambandi og það er ósköp einfaldlega minnkandi kosningaþátttaka, hér eins og víða annars staðar. Þannig hefur það t.d. gerst að kosningaþátttaka hefur verið á verulegri niðurleið í Reykjavík, bæði í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum að undanförnu. Undanfarnar tvennar, þrennar kosningar hefur hlutfallið lækkað um ein 5% eða svo, 5--8%, úr tæpum 90% eins og þetta var gjarnan um og fyrir 1990 og vel niður fyrir 80% núna miðað við síðustu alþingiskosningar en þá var kjörsókn í Reykjavík 77,6%. Ef rafrænar kosningar eða a.m.k. sá möguleiki til hliðar við hefðbundnar aðferðir væri opnaður mætti binda vissar vonir við að með öðru gæti það nýst mönnum í baráttu gegn þessari þróun. Auðvitað hljótum við að andæfa doðanum sem þarna er á ferðinni.

Að síðustu, herra forseti, vil ég einnig taka upp eitt sem ég held að allir fyrri ræðumenn hafi rætt og við sem höfum tekið þátt í umræðum um þetta frv. virðumst sammála um, enn sem komið er. Þó að breytingarnar í frv. sem lúta að kosningarrétti fólks af erlendu bergi brotið sem hingað er flutt séu vissulega til bóta og mikil framför frá því fráleita ófremdarástandi sem gilt hefur í þessum efnum hingað til vekur undrun að svo skammt eigi að ganga sem raun ber vitni. Hvers vegna ætti Ísland t.d. að skera sig frá hinum Norðurlöndunum í því og ganga mun skemmra, bæði gagnvart norrænum borgurum og öðrum sem hér hafa sett sig niður? Ég hefði viljað sjá, ef menn vilja halda ákveðinni aðgreiningu, að við stigjum skrefið til fulls gagnvart öðrum norrænum borgurum og veittum þeim fullan kosningarrétt til sveitarstjórna um leið og þeir uppfylltu almenn skilyrði um að hafa sett sig niður og fengið lögheimilisfang í tilteknu sveitarfélagi. Það væri í samræmi við þróun sameiginlegs norræns vinnumarkaðar og búsetumarkaðar sem ég hélt að við hlytum að styðja eindregið ekki síður en aðrir, og færa þá frekar mörkin vegna annarra ríkisborgara niður í eins og þrjú ár í staðinn fyrir að hanga í þessari lágmarksviðmiðun, fimm árum, sem mun vera samkvæmt evrópskum viðmiðunum sem við ætlum okkur að innleiða eða fullgilda hér, viðmiðum frá Evrópuráðinu.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að skynsamlegt sé að vera á mjög rúmum nótum. Ég hefði t.d. talið að tveggja ára regla, svipað og gildir í Finnlandi, væri alveg nóg. Ég bendi bara á þær aðstæður sem eru orðnar í mörgum íslenskum sveitarfélögum, sérstaklega sjávarbyggðum á landsbyggðinni. Þar er drjúgur hluti íbúa með varanlega og fasta búsetu af erlendu bergi brotinn. Þetta eru góðir liðsmenn í viðkomandi samfélögum og atvinnulífi viðkomandi byggðarlaga. Þegar fólk hefur flutt þangað lögheimili, jafnvel keypt hús og komið sér upp fjölskyldu finnst mér að það eigi að gera í því einmitt að hvetja það til virkrar þátttöku í málefnum síns sveitarfélags en ekki öfugt, og gera það m.a. með því að láta það hafa kosningarrétt svo fljótt sem þessum skilyrðum er fullnægt. Það er beinlínis algjörlega fráleitt að fólk sem er búið að setja sig niður í viðkomandi byggðarlagi, eins og ég þekki mörg dæmi um, t.d. pólskt verkafólk á mínum heimaslóðum, búið að kaupa hús, komið með börn í skóla en fær ekki að kjósa til sveitarstjórna, hefur náttúrlega alls ekki getað það eins og málin hafa verið. Að því leyti er frv. auðvitað framför. En þarna hefði mér fundist að mætti ganga lengra.

Svo koma einhverjir farandverkamenn, þótt íslenskir séu, og eru staddir tímabundið, kannski í hálft ár í viðkomandi sveitarfélagi og þar gildir lögheimilisfestin ein. Svo getur það fólk verið farið en hitt sem er búið að setja sig niður á staðnum hefur ekki sama rétt. Þetta er engum til góðs og engum til framdráttar og mér fyndist þar af leiðandi að þarna hefði átt að reyna að finna aðrar skilgreiningar, aðrar viðmiðanir. Auðvitað má þetta ekki heldur vera of flókið þannig að lögheimilisfangið og einhver viðmiðun í árafjölda er kannski einföldust þarna. Mér fyndist t.d. lögheimili og tveggja ára föst búseta í viðkomandi sveitarfélagi vera yfrið nóg og gagnvart norrænum ríkisborgurum gilti sami réttur og gildir um Íslendinga sjálfa. Í reynd finnst mér þurfa að færa miklu gildari röksemdir en tilburðir eru til í frv. til að hafa þar yfir höfuð nokkra mismunun.

Er búið að fara nógu vel yfir það í félmrn. að það sé hreinlega eðlilegt, miðað við grunnreglur norræns samstarfs sem ganga í mörgum tilvikum lengra en EES-rétturinn gerir, að ekki skuli bara vera um algjörlega sambærilega réttarstöðu að ræða? Við keppumst eftir því í sambandi við félagsleg réttindi að menn öðlist slík um leið og þeir flytja milli landa og tapi í engu þeim rétti sem þeir hafa fyrir að lögum síns lands og svo aftur búsetulandsins. Þarna skýtur allt í einu upp kollinum skerðing sem við mundum ekki taka fagnandi og ekki vilja sjá ef um væri að ræða t.d. atvinnuleysisbótarétt, barnabætur, húsaleigubætur eða önnur slík réttindi sem við ætlumst til að séu algjörlega yfirfæranleg og/eða að menn öðlist umsvifalaust með búferlaflutningum innan Norðurlandanna, fullgildan rétt sem þegn eða íbúi viðkomandi sveitarfélags og ríkis um leið og þeir hafa með formlegum hætti flutt heimilisfang sitt. Og kosningarrétturinn til sveitarstjórna ætti að mínu mati að meðhöndlast með sama hætti. Það gerir hann á hinum Norðurlöndunum þar sem kjörgengi og kosningarréttur miðast við sömu búsetuskilyrði og hjá innlendum ríkisborgurum. Þetta atriði eigum við að taka til skoðunar. Sem félagsmaður í félmn. áskil ég mér a.m.k. rétt til að skoða þetta og eftir atvikum leggja til breytingar því að ég sé í því sambandi bókstaflega engar hættur. Ég sé ekki hverju við værum að hætta með því að rýmka þetta að þessu leytinu til þó að mér sé ljóst að það er ekki langur tími til stefnu til að ljúka afgreiðslu málsins úr því að það er svona óheppilega seint fram komið sem raun ber vitni.