Kosningar til sveitarstjórna

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 12:34:42 (5733)

2002-03-07 12:34:42# 127. lþ. 91.8 fundur 550. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (erlendir ríkisborgarar o.fl.) frv. 27/2002, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 127. lþ.

[12:34]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég verð að vekja athygli á því að hér er um stjfrv. að ræða. Þetta er ekki þingmannafrv. eða persónulegt frv. frá mér heldur er þetta stjfrv. og þar af leiðandi þurftu báðir stjórnarflokkar að standa saman að málinu. Við erum í samstarfi við Sjálfstfl. Sjálfstfl. ályktaði á landsfundi sínum einhverra hluta vegna gegn rafrænum kosningum og þess vegna eru ekki rafrænar kosningar inni í frv. vegna þess að Sjálfstfl. hefur það á prógrammi sínu að vera á móti rafrænum kosningum. Ég er hins vegar nokkuð undrandi á þeirri afstöðu.

Að vísu eru rafrænar kosningar ekkert sjálfsagðar og ég er ekkert viss um, þó að opnuð hefði verið heimild, að þær hefðu nokkurs staðar verið teknar upp því að samkvæmt upplýsingum sem koma fram í grein Gunnars Eydals, skrifstofustjóra Reykjavíkurborgar, í ágætri grein um rafrænar kosningar í síðasta hefti Sveitarstjórnarmála þá er 40% dýrara að hafa rafræna kjörskrá en þessa venjulegu --- ég viðurkenni hins vegar að hún er talsvert þægilegri --- og ef kosningar eru framkvæmdar rafrænt séu þær helmingi dýrari en með gamla laginu. Þetta eru þær tölur sem standa í Sveitarstjórnarmálum. Og ég held að sveitarfélög hefðu almennt ekki lagt í það að sinni að fara út í rafrænar kosningar þó að þær hefðu verið heimilaðar.

Kosningaþátttaka er góð á Íslandi. Að vísu hefur hún dalað nokkuð í Reykjavík en hún er feiknamikil í samanburði við önnur lönd og við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því eða að fara út í rafrænar kosningar vegna þess að við eigum í vandræðum með að fá fólk á kjörstað, ég hef ekki trú á því. Hér var framkvæmd rafræn kosning um flugvöllinn í Reykjavík. Það var háðulega lítil þátttaka í þeirri kosningu, það var rúmur þriðjungur af kosningarbærum aðilum sem tók þátt, gott ef það voru ekki 37% frekar en 36%.

Varðandi dvalartímann, lögheimilistímann, þá var það eins, að ekki var samstaða í stjórnarliðinu um að fara lægra en í þessi fimm ár og þess vegna varð niðurstaðan sú. En við uppfyllum samt lágmarksskilyrði Evrópuráðsins. Ákvæðið um norræna borgara er óbreytt frá gildandi lögum og við höfum búið við það í mörg eða allnokkur kjörtímabil og þó að öðruvísi meiri hlutar hafi verið við stjórn landsins þá hefur því ekki verið breytt.

Það eru sem sagt þrjú atriði sem frv. snýst um, þ.e. verið er að færa framkvæmd sveitarstjórnarkosninga til samræmis við alþingiskosningar, verið er að slaka á kröfunni um meðmælendur í minnstu sveitarfélögunum og síðan er verið að rýmka rétt erlendra ríkisborgara til að taka þátt í sveitarstjórnarkosningum. Og náttúrlega ber að taka fram að með því að fá kosningarrétt þá hafa þeir líka kjörgengi.