Brottfall lagaákvæða um héraðslækna o.fl.

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 12:39:44 (5734)

2002-03-07 12:39:44# 127. lþ. 91.9 fundur 564. mál: #A brottfall lagaákvæða um héraðslækna o.fl.# frv., heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 127. lþ.

[12:39]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um brottfall lagaákvæða um héraðslækna o.fl.

Í frv. er lagt til að embætti héraðslækna verði lagt niður, en meginákvæðin um þau eru í lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990. Flestir héraðslæknar eru í 20% starfi samhliða 80% störfum sem heilsugæslulæknar. Reynslan hefur verið sú að heilsugæslan sinnir flestum störfum sem héraðslæknum eru falin með lögum og þykir því eðlilegt að flytja þessi verkefni til hennar. Í Reykjavík hefur verið héraðslæknir í fullu starfi en núverandi héraðslæknir gegnir jafnframt störfum lækningaforstjóra heilsugæslunnar í Reykjavík. Einnig hefur verið héraðslæknir í fullu starfi á Norðurlandi eystra.

Lagt er til að verkefni þau sem enn eru í höndum héraðslækna færist til yfirlækna heilsugæslunnar. Auk laga um heilbrigðisþjónustu er kveðið á um verkefni héraðslækna í fjölmörgum lögum og er í frv. lögð til breyting á þeim flestum. Undanskilin eru lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, þar sem kveðið er á um hlutverk héraðslæknis í heilbrigðisnefndum. Gert er ráð fyrir að tillaga til breytinga á því fylgi frv. umhvrh. um breytingu á þeim lögum.

Þau verkefni héraðslækna sem lagt er til yfirlæknar heilsugæslunnar sinni eru aðallega sóttvarnir undir stjórn sóttvarnalæknis, seta í svæðisráði fatlaðra og almannavarnanefnd, umsjón með heilsuvernd í framhaldsskólum og nokkur verkefni sem tengjast andláti og meðferð líka. Eru yfirlæknar heilsugæslustöðva, heilsugæslusviða heilbrigðisstofnana og heilsugæslunnar í Reykjavík nefndir í frv. til einföldunar einu nafni yfirlæknar heilsugæslu.

Flestar breytingar sem lagðar eru til í frv. eru í samræmi við ofangreint og skýra sig sjálfar. Þó er ástæða til að fara nánar yfir þær breytingar sem lagðar eru til á lögum um heilbrigðisþjónustu og sóttvarnalögum.

Hvað varðar lög um heilbrigðisþjónustu, samanber I. kafla frv., er lagt til að felld verði á brott ákvæði 6.--9. gr. laganna um læknishéruð, héraðslækna, héraðshjúkrunarfræðinga og heilbrigðismálaráð. Þegar felld verða niður embætti héraðslækna verður skipting landsins í læknishéruð óþörf. Í staðinn er gert ráð fyrir að landinu verði eingöngu skipt í heilsugæsluumdæmi og það verði gert með reglugerð. Það felur ekki í sér efnisbreytingu frá núgildandi lögum því að samkvæmt þeim er heimilt að breyta skiptingu á heilsugæsluumdæmum með reglugerð. Þykir bæði skýrara og aðgengilegra að eingöngu sé kveðið á um skiptingu landsins í heilsugæsluumdæmi í reglugerð.

Enn fremur er lagt til að embætti héraðshjúkrunarfræðinga verði felld niður og ákvæði um skipan heilbrigðismálaráða verði felld brott. Heimild til að skipa héraðshjúkrunarfræðinga hefur nær ekkert verið notuð og heilbrigðismálaráð hafa mjög lítið starfað á undanförnum árum.

Þá er lagt til að Læknishéraðasjóður verði lagður niður. Gert er ráð fyrir að það fé sem merkt er sjóðnum renni til uppbyggingar heilsugæslu í landinu eins og verið hefur.

Í I. kafla frv. eru einnig lagðar til breytingar á nokkrum ákvæðum í lögum um heilbrigðisþjónustu vegna sameiningar Ríkisspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur í Landspítala -- háskólasjúkrahús. Eru þær breytingar lagatæknilegs eðlis.

Loks er lagt til að við 30. gr. laga um heilbrigðisþjónustu bætist ákvæði um heimild til að ráða yfirmenn á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi, sem jafnframt hafi á hendi starf kennara við Háskóla Íslands, tímabundinni ráðningu til allt að fimm ára. Er þetta lagt til í samræmi við ósk frá Landspítala -- háskólasjúkrahúsi sem hefur bent á að mismunandi form ráðningar geti valdið vandkvæðum þegar ráðið er tímabundið í kennarastarf en ótímabundið í yfirmannsstarf.

Í IV. kafla frv. er kveðið á um breytingu á sóttvarnalögum, nr. 19/1997. Lagt er til að ráðherra ákveði með reglugerð hvaða yfirlæknar heilsugæslunnar verði ábyrgir fyrir sóttvörnum undir stjórn héraðslæknis, en ljóst er að mikilvægt er fyrir sóttvarnalækni að hafa slíka tengiliði úti um landið.

Síðan er lagt til að þessum tilteknu yfirlæknum verði falin flest þau verkefni á sviði sóttvarna sem áður voru í höndum héraðslækna. Einnig er lagt til að læknar tilkynni einungis sóttvarnalækni um að einstaklingar hafi smitast af tilkynningarskyldum smitsjúkdómi, sbr. 17. gr. frv. Er þetta í samræmi við það sem tíðkast í framkvæmd.

Þá er lagt til að heimild til að beita sóttvarnaráðstöfunum til bráðabirgða verði eingöngu hjá sóttvarnalækni, sbr. 20. gr. frv.

Loks er lagt til í 22. gr. frv. að heimild til að grípa til sérstakra ráðstafana nái einnig til annarrar vár en ekki einungis til náttúrhamfara eins og nú er. Er þetta lagt til í ljósi hryðjuverkanna í Bandaríkjunum þann 11. september 2001 og þeirra atburða sem fylgdu í kjölfarið. Er þessi breyting lögð til samkvæmt ósk sóttvarnalæknis.

Herra forseti. Ég hef nú fjallað um frv. til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu og öðrum lögum varðandi héraðslækna o.fl. Þar sem frv., ef að lögum verður, leiðir til sparnaðar og hagræðingar tel ég mikilvægt að það nái fram að ganga sem fyrst. Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að leggja til að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trn. og til 2. umr.