Brottfall lagaákvæða um héraðslækna o.fl.

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 12:45:59 (5735)

2002-03-07 12:45:59# 127. lþ. 91.9 fundur 564. mál: #A brottfall lagaákvæða um héraðslækna o.fl.# frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 127. lþ.

[12:45]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér hefur verið kynnt frv. til laga um breytingu á lögum um brottfall lagaákvæða um héraðslækna o.fl. og eru það að mörgu leyti eðlilegar breytingar. Störf héraðslæknanna hafa verið að breytast og störf í heilsugæslunni að mörgu leyti líka. Meðal annars hafa heilbrigðisstofnanir innan sama héraðslæknisumdæmis sameinast, t.d. á Austurlandi þar sem allar heilbrigðisstofnanir á svæði héraðslæknisins eru orðnar að einni stofnun. Er því starf fyrrverandi héraðslæknis í raun orðið það sama og yfirlæknis þessarar heilbrigðisstofnunar að mörgu leyti.

Það sem mér finnst vera til umhugsunar hvað varðar frv. snýr að samræmingu og þeim þáttum þar sem embætti héraðslæknis hefur komið inn á mörg svið og þar sem hægt er að samræma aðgerðir innan hvers læknishéraðs. Þetta mun þá enn þá eiga við um þau svæði þar sem heilbrigðisstofnanirnar eru enn margar innan hvers héraðslæknissvæðis. Ég er að hugsa til samræmingar og þess hlutverks héraðslæknis að koma á sáttum, þ.e. vera málamiðlari og raun að mörgu leyti framlengd hönd bæði landlæknis og ráðuneytis sem embættismaður í héruðum. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra geri okkur grein fyrir því hvernig þessu hlutverki verður sinnt ef lögin taka gildi.

Eins hefur þróunin orðið á annan veg en ég t.d. óskaði að hefði gerst fyrir nokkrum árum síðan, þ.e. að hér yrði í hverju læknishéraði komið á öflugri miðstöð héraðslækna, héraðshjúkrunarfræðinga, til þess einmitt að efla þetta starf heima í héruðunum, færa frumkvæðið meira heim og ná meiri dreifingu í stjórnsýslunni. Það er uppbygging sem mér finnst rétt bæði út frá heilbrigðissjónarmiðum og stjórnun en ekki síður út frá byggðarsjónarmiðum. Þessi þróun hefur því miður ekki orðið. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra komi inn á samræmingar- og samþættingarþáttinn í störfum héraðslæknanna nú við 1. umr. um frv.