Tollalög

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 13:50:36 (5739)

2002-03-07 13:50:36# 127. lþ. 91.10 fundur 576. mál: #A tollalög# (tollar á grænmeti) frv. 46/2002, DrH
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 127. lþ.

[13:50]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þetta frv. er komið fram. Ég tel að það sé ákaflega neytendavænt og muni koma landsmönnum öllum mjög til góða.

Varðandi það sem hv. þm. Gísli Einarsson ræddi hér áðan um stuðning við íslenskan landbúnað, þá er það mín skoðun að ekki sé hægt að stunda landbúnað á Íslandi án stuðnings, og landbúnaður er studdur um allan heim, ekki bara á Íslandi heldur um allan heim og það er einfaldlega neytendum til góða að bændur fái stuðning. (Gripið fram í.) Ég tel að það sé nú ekki rétt að við förum í Evrópusambandið því að þá ... (LB: Láta ...) Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, ég held að ég hafi hér orðið, hæstv. forseti, er það ekki?

(Forseti (GuðjG): Hv. 1. þm. Suðurl. hefur orðið og forseti biður aðra þingmenn að setja sig á mælendaskrá ef þeir þurfa að halda ræðu um þetta.)

Virðulegi forseti. Ég mun þá halda áfram ræðu minni. Eftir að þessi breyting á tollalögum verður mun verð á grænmeti til neytenda lækka um 15% að meðaltali og allt að 55% í sumum tegundum og hér er um að ræða margar tegundir grænmetis. Samkvæmt tillögunum má reikna með að árlegur kostnaður ríkissjóðs vegna þeirra sé um 280 millj. og þar af um 195 millj. vegna beingreiðslna til bænda. Tillögurnar miða við að gerður sé tíu ára aðlögunarsamningur milli stjórnvalda annars vegar og Bændasamtaka Íslands og Sambands garðyrkjubænda hins vegar. Forsendur upphæða í samningnum byggjast á verðbólgumarkmiðum Seðlabankans og breytast þá að sjálfsögðu eftir því sem verðlag þróast.

Þegar við lítum á þessar tillögur og afnám 30% verðtolls þá eru þær að tryggja markaðsmöguleika innlendrar framleiðslu. Niðurfellingu verð- og magntolla af agúrkum, tómötum og paprikum er ætlað að lækka verð til neytenda og taka beingreiðslurnar til um 60 framleiðenda og greiðslurnar nema um 195 millj. kr. á ári.

Herra forseti. Ég tel að grænmetisbændur séu mjög ánægðir með þennan samning og neytendur líka. Þarna er verið að styrkja samkeppnisgrundvöll garðyrkjubænda og verður til þess að greinin fær að hagræða hjá sér.