Tollalög

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 14:46:05 (5747)

2002-03-07 14:46:05# 127. lþ. 92.5 fundur 576. mál: #A tollalög# (tollar á grænmeti) frv. 46/2002, DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[14:46]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér heyrðist koma fram í máli hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar að grænmetisverð til neytenda mundi ekki lækka við þessa aðgerð. Ljóst er að það mun lækka um allt að 15% að meðaltali og upp í 55%. Þá kemur hins vegar að smávöruversluninni, álagningu hennar á vöruna. Þarna er verið að lækka. Nú er spurningin hvernig smávöruverslunin tekur við þessu og stendur að álagningunni.

Það felst meira í þessu samkomulagi. Það á að lækka rafmagnsverð til lýsingar hjá ylræktendum. Það á að bjóða styrki til úreldingar gróðurhúsa, styrkja ýmis verkefni í yl- og garðrækt, endurskoða stofnlán til garðyrkju og taka upp öflugt eftirlit með verðlagi grænmetis og ávaxta í samstarfi verkalýðshreyfingarinnar, bænda, vinnuveitenda og stjórnvalda. Einmitt þessir aðilar komi að þessu samkomulagi.

Ég tel að hv. þm. geri heldur lítið úr þessu. Ég held að þetta skipti neytendur afar miklu máli ef verslunin stendur við sitt.