Tollalög

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 14:47:31 (5748)

2002-03-07 14:47:31# 127. lþ. 92.5 fundur 576. mál: #A tollalög# (tollar á grænmeti) frv. 46/2002, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[14:47]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Suðurl. er að fjalla um allt annað en það sem í þessu frv. stendur. Það getur vel verið að það sé allt satt og rétt sem hún tíndi til úr samkomulagi sem er í burðarliðnum, hefur verið gert eða á að gera milli viðkomandi aðila. Hún nefndi úreldingar, rafmagnsverð o.s.frv. Um það fjallar ekki þetta frv. Það er ekki aukatekið orð um það hér. Það er engin ávísun í frv. á að styrkja grænmetisbændur í samkeppni við erlenda aðila. Það er ekkert í þessu frv. sem tryggir það. Það er ekkert í þessu frv., hæstv. ráðherra, sem tryggir að verð til neytenda lækki. Ég vil fá að ... (Landbrh.: Skoðaðu málið í heild, maður.) Skoða málið í heild, segir hæstv. ráðherra. Ja, það er vandinn í þessum málaflokki, herra forseti, að þegar menn skoða málin í heild kemur í ljós að neytendur þessa lands þá sendingu frá stjórnvöldum trekk í trekk að verð á þessum varningi fer upp úr öllu valdi. Við skulum þá skoða málið í heild með þeim formerkjum.

Auðvitað veit ég, herra forseti, að framsóknarmönnum líður illa undir þessari umræðu (Landbrh.: Sérlega vel.) þar sem ekkert er að gerast. Það er ekkert að gerast sem mark er á takandi og neytendur verða varir við í þeim málaflokki. Hæstv. landbrh. er í myljandi vörn í hverju málinu á fætur öðru.

Ég er hér í andsvari við ágætan hv. þm., Drífu Hjartardóttur. Ég vakti einfaldlega athygli á að í frv. sem hér um ræðir, sem við erum að fjalla um og við tökum ákvörðun um og Alþingi kemur að, er ekkert handfast um það sem hún ræddi um áðan.