Tollalög

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 14:52:22 (5751)

2002-03-07 14:52:22# 127. lþ. 92.5 fundur 576. mál: #A tollalög# (tollar á grænmeti) frv. 46/2002, LB
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[14:52]

Lúðvík Bergvinsson:

Herra forseti. Aðdragandi þessa máls er dálítið sérstæður. Ég held það hafi verið í fyrra að ljóstrað var upp um verulegt verðsamráð í þessum geira. Í framhaldi af því voru settar á fót nefndir, a.m.k. ein nefnd sem taka átti á því sem þar kom fram og benda á leiðir sem hugsanlega gætu leitt til lækkunar á vöruverði á þessum afurðum.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að þó verið sé að ganga frá samningi um þessi mál er það ekkert sem liggur á okkar borðum. Það liggur ekki á borðum þingmanna. Þetta er allt og sumt, þetta ákvæði í tollalögum sem hér er verið að leggja til breytingu á, sem kemur út úr þessu og við getum rætt hér á hinu háa Alþingi þannig að þingið geti tekið þátt í að ákveða hver eigi að vera framtíðarstefnan í þessu. Það hefur ekkert annað komið fyrir þingið.

Ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, að það hefur ekkert komið fyrir þingflokk Samfylkingarinnar sem gefur okkur til kynna á hvaða vegferð þessi samningur er. Við erum hér því að ræða þetta mál út frá þeim forsendum sem hér eru gefnar. Í þessu er ekki að finna neina tryggingu fyrir lækkun á tollum, ekki nokkra. Ég held að nauðsynlegt sé að halda því til haga í þessari umræðu.

Hins vegar hefur hæstv. landbrh. sagt að þegar öll kurl verði komin til grafar muni neytendur sjá verulega verðlækkun á nokkrum grænmetistegundum, paprikum, gúrkum og þá sérstaklega tómötum. Að öðru leyti, virðulegi forseti, er ekkert í frv. sem við getum lagt út af þannig að lækkun á vöruverði verði tryggð. Í raun og veru vitum við ekki hver þróunin verður. Það segir t.d. í greinargerð með frv., með leyfi forseta:

,,Skal landbúnaðarráðherra tryggja að tollur verði ákveðinn á þann hátt að hann skapi sanngjarnt verðlagsaðhald og möguleika á samkeppni.``

Við höfum oft heyrt svona áður. Við höfum oft heyrt lýsingar á því að hverju er stefnt. En svo bankar veruleikinn upp á --- ískaldur. Við höfum séð verðlagsþróunina í grænmetinu undanfarin ár.

Ég ætla ekki að setja á langa ræðu um þetta, virðulegi forseti. Ég vil bara halda því til haga í þessari umræðu að ekkert í þessu frv. tryggir að verðlækkun verði á grænmeti til neytenda. Ekki neitt. (Gripið fram í: Hvað með starf bænda?) Þetta kemur ekkert aðstöðu bænda við því hér er bara verið að fjalla um tollalög. Hér er bara verið að fjalla um innflutning. Þær breytingar eru gerðar að í stað þess að hæstv. landbrh. geti ákveðið að magntollurinn lækki um 0%, 50%, 75% eða 100%, er boðið upp á fleiri valkosti, eina tíu í staðinn fyrir fjóra. Það er allt og sumt. Í því felst engin trygging á að verð á grænmeti muni lækka, ekki nokkur. Ég vil bara halda þessu til haga.

En ég hvet hæstv. landbrh. til að sýna drögin að þessum samningi í þingflokki okkar svo við séum betur í stakk búin til að takast á við þá umræðu sem hér fer fram. Í þessu, virðulegi forseti, er ekki að finna nokkra tilraun eða áætlanir um verðlækkanir.