Tollalög

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 14:56:14 (5752)

2002-03-07 14:56:14# 127. lþ. 92.5 fundur 576. mál: #A tollalög# (tollar á grænmeti) frv. 46/2002, KÓ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[14:56]

Kjartan Ólafsson (andsvar):

Herra forseti. Vegna ræðu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar vil ég koma nokkrum punktum að. Hann nefndi það sem má segja að sé rétt, að sú tollalagabreyting sem við erum að ræða hér er afmörkuð hvað þetta verkefni varðar. Það er rétt. Hann minntist hins vegar á að hann vissi að nefnd sem hefur starfað á vegum landbrh. undir vinnuheitinu ,,grænmetisnefnd`` hafi unnið að málinu í eina tíu mánuði. Aðilar vinnumarkaðarins starfa í þeirri nefnd. Hún komst að ákveðinni niðurstöðu varðandi þetta mál í heild sinni, um hvernig skyldi fara með þessi mál. Þetta er hluti af þeirri niðurstöðu. Tillögugerð nefndarinnar er opinbert plagg og hefur verið kynnt í fjölmiðlum og hefði öllum þingmönnum verið auðvelt að komast yfir hana. Hluti af niðurstöðu hennar er að 30% tollur sé tekinn af öllu grænmeti sem flutt er til landsins, þ.e. að fastur tollur upp á 30% sé tekinn af öllu. Magntollinum er breytt með þeim hætti að hann er settur í tíu þrep en ekki í fjögur þrep eins og áður var. Þetta er meginniðurstaðan, þ.e. hluti af niðurstöðu nefndarinnar.

Það má svo sem segja að rétt sé, þægilegra og betra, að ræða niðurstöðu nefndarinnar og aðlögunarsamning í heild sinni. Ég hygg hins vegar að landbrh. muni hafa hann í handraðanum innan skamms.