Tollalög

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 15:12:31 (5754)

2002-03-07 15:12:31# 127. lþ. 92.5 fundur 576. mál: #A tollalög# (tollar á grænmeti) frv. 46/2002, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[15:12]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það boð sem hann setti fram og ég er ekki í nokkrum vafa um að við munum nýta okkur það og fá hæstv. landbrh. á okkar fund til að kynna okkur þetta mál í heild sinni.

Hins vegar sögðum við í umræðunni, a.m.k. ég og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, að þetta tiltekna mál tryggði enga lækkun og ég held að hæstv. landbrh. hafi staðfest það. Ég held að það sé svo sem ekki deilan í málinu. Eins viðurkenndi hæstv. ráðherra að það hefði að mörgu leyti verið betra að ræða allt þetta mál í heild sinni.

Hins vegar var kannski eftirtektarverðust í ræðu hæstv. ráðherra sú fullyrðing að tilteknir flokkar væru á fullri ferð inn í Evrópusambandið sem hefði mátt skýra sem svo að aðrir væru það þá væntanlega ekki. Mér þótti þetta vera dálítið sérstæð yfirlýsing því ég held að það sé svo sem ekki stórt upp í sig tekið þó menn haldi því fram að hæstv. utanrrh. hafi verið á nokkurri siglingu í þá átt. Þess vegna þykir mér það merkilegt að hæstv. landbrh. talaði á þann hátt sem hann gerði hér, að a.m.k. væri eitthvað í það að menn mundu ganga í Evrópusambandið. Ég held að það hafi verið dregið fram að ekki séu allir samstiga í Framsfl. um hvert halda skuli.

Í lok ræðu sinnar nefndi hæstv. landbrh. að þetta mál hefði ekkert með það sem átti sér stað í Öskjuhlíðinni á sínum tíma að gera, en hér er um það að ræða að verið er að óska eftir því að Alþingi veiti hæstv. ráðherra heimild til þess að ákveða tolla með öðrum hætti en gert hefur verið. Með því er hann í sjálfu sér að taka að sér það verkefni að verða einhvers konar verðlagsstjóri á innflutt grænmeti.