Landgræðsla

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 17:07:01 (5777)

2002-03-07 17:07:01# 127. lþ. 92.6 fundur 584. mál: #A landgræðsla# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[17:07]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að enginn hafi skilið það svo að þessi umræða tengdist á nokkurn hátt núverandi landgræðslustjóra, enda er hann kunnur atorkumaður á sínu sviði sem ekkert hefur verið nema gott um að segja. Hann og fleiri góðir fyrrverandi og núverandi starfsmenn á þeim bæ eru upp til hópa hugsjónafólk sem hefur unnið mikið starf.

En þetta fólk hefur auðvitað ekki verið eitt í verkum. Við skulum ekki gleyma því að grettistökum hefur verið lyft í bæði skógrækt og landgræðslu á Íslandi með tilstuðlan áhugamannasamtaka, einstaklinga, hópa og samtaka og drjúgur hluti af fjármunum og reyndar hreinlega starfsorku á þessu sviði hefur lengi vel verið lagður til í sjálfboðavinnu. Það er góð staðreynd sem sýnir tilfinningar þjóðarinnar til landsins.

Varðandi fagkröfurnar dettur mér í hug, án þess að ég ætli að fara að gera um það einhverja formlega brtt., að hv. landbn. gæti velt því fyrir sér hvort þarna færi kannski betur að segja að landgræðslustjóri skuli hafa háskólamenntun á sviði búvísinda eða náttúrufræða. Þá væri það haft opið og orðið tiltölulega vítt svið. Undir það fellur að sjálfsögðu sérstök fagmenntun í landgræðslufræðum, mikil ósköp, en það breikkar þetta út þannig að búfræðikandídatar og líffræðingar og grasafræðingar gætu komið þarna til greina. (KVM: Og jarðfræðingar?) Jarðfræðingar gætu jafnvel haft vit á þessu. Alla vega þar sem plönturnar sitja fastar, þeir hafa eitthvað um það mál að segja. Þeir vita sitthvað um efnafræði jarðvegsins o.s.frv.

Síðan endurtek ég að ég teldi fróðlegt að nefndin fari yfir það hvort kannski ætti frekar að horfa á að til yrði einhvers konar skógræktar- og landverndarráð sem gæti samanstaðið af fulltrúum úr ýmsum áttum, frá bændum, frá náttúruverndarsamtökum og fleiri slíkum aðilum. Það væri þá stefnumótandi og ráðgefandi batterí.