Landgræðsla

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 17:38:57 (5786)

2002-03-07 17:38:57# 127. lþ. 92.6 fundur 584. mál: #A landgræðsla# (heildarlög) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[17:38]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þm. að það er náttúrlega ein af meginskyldum þingnefndanna, ekki síst eftir hið breytta þinghald, og ég held reyndar að slíkt eftirlitshlutverk og samstarf hafi aukist á síðustu árum. Ég get beint því til hæstv. forseta að þingið á einmitt að leggja mikið upp úr sambandi þingnefndanna við þau verkefni sem undir nefndirnar heyra og gefa þeim frelsi bæði til ferðalaga og heimsókna til að fræðast um starfið, til að veita því aðhald, til að fá nýjar hugsjónir og standa vel að verki í kringum ég segi svona mikilvægt fyrirtæki eins og Landgræðsluna. Ég hef auðvitað lengi fundið það í starfi mínu sem þingmaður og landbúnaðarnefndarmaður að ferðirnar sem við fórum til að heimsækja svona fyrirtæki, einnig til að heimsækja fólkið, hitta bændurna o.s.frv. voru mjög gefandi og ég fann að viðhorf manna breyttust. Mér finnst að hugsunin hafi kannski eftir breytingu þinghaldsins, þegar farið var að leggja upp úr þessu, töluvert breyst og sambandið sé víða betra af hálfu þingsins til þess að kynna sér mál eins og hv. þm. rakti í andsvari sínu.