Landgræðsluáætlun 2003 -- 2014

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 17:54:19 (5789)

2002-03-07 17:54:19# 127. lþ. 92.7 fundur 555. mál: #A landgræðsluáætlun 2003 -- 2014# þál., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[17:54]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þm. að gríðarlegur árangur er af samstarfi Landgræðslunnar og Bændur græða landið og því kann að vera rétt, sem hv. þm. segir, að hér sé of naumt skammtað eða þeir peningar sem hér eru markaðir valdi vonbrigðum, 560 millj. á tímabilinu. Alþingi setur fjárlög ár hvert og hefur frelsi til að auka fjármagn til þessa þáttar.

Við munum fara yfir það hér hvort þessi skipting sé rétt og hvort menn eigi að gefa meira í þarna. Ég tek undir með hv. þm. að ég held að þessir peningar, þar sem ég þekki til, hafi skilað sér mjög vel í landgræðslustarfinu. Eins og hv. þm. sagði koma bændurnir með þekkingu sína, vélar og tækni og fólk sitt oft og tíðum í stórum stíl, þess vegna frændfólk og vini og börn úr þéttbýlinu. Þetta er skemmtilegt verkefni sem við eigum að gefa enn þá meiri gaum en gert hefur verið. Ég er tilbúinn að skoða hvort of naumt sé skammtað í þessari áætlun.