Landgræðsluáætlun 2003 -- 2014

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 18:31:37 (5795)

2002-03-07 18:31:37# 127. lþ. 92.7 fundur 555. mál: #A landgræðsluáætlun 2003 -- 2014# þál., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[18:31]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Herra forseti. Þessi orð voru auðvitað stórum ýkt, þ.e. að Kárahnjúkavirkjun muni valda því að stórum hlutum gróðursvæða hálendisins verði eytt. Hitt er annað mál að við höfum búið við að þurfa að velja og meta. Við verðum að halda uppi atvinnu og þrótti í þessu þjóðfélagi til að fólk vilji búa hér. Um það snýst glíman en ég er sammála hv. þm. um að auðvitað þarf að fara í það verkefni af hálfu Alþingis að marka skýra stefnu, ekki síst um hvaða paradísum skuli þyrma og aldrei taka til umræðu að fórna fyrir virkjun eða sökkva. Það eru þau verkefni sem ég tel að Alþingi þurfi að fara í.

Hv. þm. tók undir að bændur væru vörslumenn þessa lands. Ég vakti athygli á þessari umræðu af því mér finnst að bændur hafi stundum viljað hlaupa upp þegar hefur átt að taka á mönnum sem fara illa með land. Þess vegna vakti ég athygli á þessu með Þjórsárverin og Svein heitinn í Steinsholti. Það þurfa fleiri að hugsa þannig.

Mér hefur stundum gramist að þegar á að beita sér gagnvart einhverjum sem er að misfara með land eða dýr eru næstu menn að búa sig til að berjast með þeim manni í staðinn fyrir að reyna að koma fyrir hann vitinu. Í bændastétt er einnig til fólk sem ekki skilur þessar miklu kröfur nútímans.

Ég vek hins vegar athygli á því að sem betur fer eru bændur að átta sig á þessu og Landgræðslan skynjar vel að hún á að rétta bændum framrétta hönd og getur orðið mikill leiðtogi og hjálpað í því starfi.