Landgræðsluáætlun 2003 -- 2014

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 18:33:43 (5796)

2002-03-07 18:33:43# 127. lþ. 92.7 fundur 555. mál: #A landgræðsluáætlun 2003 -- 2014# þál., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[18:33]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Í síðara andsvari mínu vil ég aftur fara út í að tala um það sem er smart og ekki smart. Það er alveg rétt sem hæstv. landbrh. segir, að menn eru misjafnir að gerð og hafa misjafnan smekk en það módel sem ég var að rétta honum upp í hendurnar, frá Stefáni Gíslasyni, verkefnisstjóra Staðardagskrár 21, er afskaplega gagnlegt verkfæri.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða það nánar og líka landbn., og mögulega þá umhvn. sem kannski fær einhvern þátt þessara mála til umfjöllunar, að skoða það að markmiðin verði sértæk, mælanleg, aðgengileg, raunhæf og tímasett --- sem sagt SMART.

Af því að við höfum talað um gagnsæi hugtakanotkunar og nauðsyn þess að hugtakanotkun sé skýr vil ég benda á og spyrja hæstv. ráðherra út í orðalag á bls. 4 í þingmálinu þar sem fjallað er um forgangsröðun landgræðsluverkefna sem byggist m.a. á úttekt og kortlagningu á jarðvegsrofi á öllu landinu og markmiðum um --- nú spyr ég hann um þýðingu á því sem á eftir kemur --- vistfræðilega sjálfbæra nýtingu. Hvað er, í huga hæstv. landbrh., vistfræðileg sjálfbær nýting? Ég vona sannarlega að hæstv. landbrh. lendi ekki í sama öngstræti og hæstv. utanrrh. lenti í fyrr í vetur þegar hann var að fjalla um utanríkismál og fjallaði í ræðu sinni um margvíslegar auðlindir sem Íslendingar ættu sem allar ættu það sameiginlegt að vera sjálfbærar.