Vestnorrænt samstarf og íslensk nærsvæðastefna

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 18:38:30 (5800)

2002-03-07 18:38:30# 127. lþ. 92.11 fundur 49. mál: #A vestnorrænt samstarf og íslensk nærsvæðastefna# þál., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[18:38]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Þannig háttar til með umræðu um þetta þingmál, till. til þál. um eflingu vestnorræns samstarfs og mótun íslenskrar nærsvæðastefnu, að um það varð ágæt umræða fyrir allmörgum vikum ef ekki mánuðum. Þá stóð þannig á að ekki tókst að ljúka þeirri umræðu og voru enn nokkrir menn á mælendaskrá, a.m.k. tveir fyrir utan þann sem hér stendur. Síðan hefur tekist þannig til að nokkrir atburðir hafa breytt aðstæðum. Næstur á mælendaskrá, ef ég man rétt, var hv. þáv. þm. og formaður utanrmn., Tómas Ingi Olrich, 5. þm. Norðurl. e. Hann hefur nú horfið til annarra starfa eins og kunnugt er, er orðinn menntamálaráðherra, og við gratúlerum að sjálfsögðu með það.

Hann hafði samband við mig og hafði ekki tök á að fylgja þessu máli frekar eftir enda aðrir menn komnir til þeirra starfa í utanrmn. sem hv. þm. gegndi áður. Ég ætla ekki að viðhafa getgátur um hvað hv. fyrrv. formaður utanrmn. hefði um málið sagt né leggja honum orð í munn. Ég hefði þó gert mér vonir um að hann talaði á svipuðum nótum og aðrir sem á undan honum höfðu komið og tekið þátt í umræðu um þetta mál og lýsti a.m.k. nokkrum stuðningi við það. Ég hygg að svipað hefði átt við um hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur sem einnig var á mælendaskrá en varð að hverfa héðan af fundi.

Að öðru leyti ætlaði ég fyrst og fremst að þakka þá umræðu sem fram fór um tillöguna og þær jákvæðu undirtektir sem hún fékk hjá þingmönnum flestra ef ekki allra þingflokka. Það vekur mér vonir um ákveðna bjartsýni um að möguleiki sé á að Alþingi mótaði stefnu af því tagi sem tillagan gerir ráð fyrir, þ.e. setti nærsvæðamál og vestnorræna samstarfið sérstaklega í tiltekinn farveg.

Tillagan gerir í raun og veru, samkvæmt orðanna hljóðan, ráð fyrir tvenns konar aðgerðum, annars vegar eflingu vestnorræns samstarfs sérstaklega og hins vegar að mótaðar verði áherslur og stefna, íslensk nærsvæðastefna, sem taki þá ekki aðeins til samskipta við hin vestnorrænu löndin heldur svæðisins í okkar heimshluta við norðanvert Atlantshafið getum við sagt, bæði eyþjóðir og strandríki. Ísland gerði þannig eins og margar þjóðir í kringum okkur, legði niður fyrir sér með skipulögðum hætti hvernig menn hyggjast byggja upp og efla samskipti og samstarf við nágranna sína í allar áttir. Þetta hafa mörg ríki í kringum okkur, bæði smærri og stærri, gert. Þetta gera sum hinna Norðurlandanna. Þetta gera Kanadamenn, Bandaríkjamenn, Evrópusambandið og fleiri aðilar. Þeir móta svæðisbundnar áherslur eða stefnu sem tekur til þeirrar pólitíkur, samvinnu og stjórnsýslu gagnvart aðilum á tilteknum nálægum svæðum.

Norðurlandaráð hefur t.d. um langt árabil, að hluta til byggt á svokallaðri nærsvæðastefnu, sem er samheiti, heiti á þeirri pólitík sem Norðurlandaþjóðirnar, sameiginlega á vettvangi Norðurlandaráðs og í gegnum Norðurlandaráð og norrænu ráðherranefndina, reka gagnvart Eystrasaltsríkjunum.

Í gær bar hér á góma í fyrirspurnartíma, herra forseti, fyrirspurn frá mér til hæstv. samgrh. um samskipti Íslendinga og Grænlendinga á sviði flugmála eða flugsamgangna. Þar kom fram að þar eru viðræður í gangi um mögulegt samstarf sem byggi á að Grænlendingar nýti sér íslenska flugvelli, þá fyrst og fremst Keflavíkurflugvöll, sem tengistöð í millilandaflugi. Þetta gæti jafnvel teygt anga sína víðar á Vestur-Norðurlöndum. Þetta er lítið dæmi um hluti af því tagi sem íslensk nærsvæðastefna gæti tekið til ef við hefðum mótað hana og sett í framkvæmd og beittum okkur meðvitað til að efla samskiptin við nágranna okkar öllum aðilum til hagsbóta og okkur sjálfum auðvitað ekki síst. Þannig mundum við horfa á hlutina út frá stöðu okkar hér í miðju Norðvestur-Atlantshafinu, sem samstarfstengipunkts fjölbreytts samstarfs á sviði stjórnmála, efnahags- og atvinnulífs, menningarmála, samgangna o.s.frv.

Ég ætla ekki að fara aftur í efnisatriði tillögunnar. Ég vil þó nefna eitt atriði sérstaklega til sögunnar sem er áhugavert í þessu sambandi. Ég held að við Íslendingar ættum að gefa aukinn gaum að því. Það er sú þróun, sem aðeins er komin af stað, að strandeyþjóðir og strandríki við norðanvert Atlantshafið byggi upp samstarf sérstaklega á grundvelli einhvers konar svæðishugtaks sem við gætum kallað að væri Norður- eða Norðvestur-Atlantshafssvæðið, eyþjóðir og strandsvæði.

Málið er svo langt gengið að á ráðstefnu númer tvö þar sem þessum aðilum er safnað saman og haldin var í Færeyjum fyrir rúmlega ári var komin einhvers konar nafngift á þessa svæðishugmynd, þetta svæðishugtak. Þar var það kallað NAICA fyrir North-Atlantic Island and Coastal Association á enskri tungu. Þarna mættust á ákaflega áhugaverðum vettvangi, í framhaldi af sambærilegum fyrsta fundi sem haldinn var í Reykjavík fyrir þremur árum, sjálfstæð fullvalda ríki eins og Ísland, heimastjórnarsvæði eins og Færeyjar og Grænland og sjálfstjórnarsvæði eða héruð eins og skosku eyjarnar. Þarna voru t.d. Hjaltlendingar undir eigin nafni og fána. Þarna voru fulltrúar frá skosku strandsvæðunum, frá vesturströnd Noregs, frá strandríkjum Kanada o.s.frv. Ég held að liður í meðvitaðri íslenskri nærsvæðastefnu ætti tvímælalaust að vera að við Íslendingar stuðluðum að því, fyrir okkar leyti, að til yrði skipulögð svæðisbundin samvinna við norðanvert Atlantshaf, samvinna eyþjóða og strandríkja á þessu svæði. Það eru gríðarlega miklir sameiginlegir hagsmunir sem þar eru á ferð sem menn ná ekki almennilega utan um í því hefðbundna mynstri alþjóðasamstarfs sem við búum við í dag.

Þannig er t.d. ekki mikill samgangur eða skipulagt alþjóðlegt samstarf á milli Íslendinga, svo dæmi sé tekið, og skosku eyjanna hins vegar. Í raun er það sorglega og merkilega lítið í ljósi bæði sögulegra tengsla og sameiginlegra hagsmuna á sviði sjávarútvegsmála, ferðaþjónustu, menningarmála og fleiri slíkra hluta.

Í þessu sambandi er líka til að dreifa aðilum sem mun meira jafnræði er með þegar litið er til fólksfjölda og efnahagslegra umsvifa. Þetta eru svæði, héruð eða eyjar sem gjarnan telja nokkra tugi þúsunda eða í mesta lagi hundruð þúsunda íbúa sem gætu með margvíslegum hætti notið góðs af auknu samstarfi og samskiptum ef þau koma til.

Menn kunna að segja að ekki sé á bætandi einu laginu enn í alþjóðlegri samvinnu. Það hefur vissulega mikið bæst við á undanförnum fáeinum árum. Sérstaklega hefur frá því að múrinn féll og klakaböndin losnuðu af Austur-Evrópu og kalda stríðinu lauk margs konar svæðisbundin samvinna verið möguleg sem var óhugsandi áður vegna járntjaldsins og annarra gaddavírsgirðinga sem á kaldastríðstímanum skildu löndin að. Samstarf eins og það sem á sér stað í dag á vettvangi heimskautaráðsins hefði t.d. verið óhugsandi á dögum kalda stríðsins og alls engin samskipti áttu sér stað, t.d. milli strandþjóðanna á norðurströnd Rússlands, fyrrverandi Sovétríkja, sem blómstra í dag, samskipti frumbyggja þessara svæða sem og héraða og fylkja.

Að mínu mati á hiklaust að forgangsraða og við ættum að leggja aukna áherslu ef eitthvað er á að efla samstarfið við okkar næstu nágranna. Það mun gefa okkur mikið og skila okkur miklu. Þó það kosti að við verðum í einhverjum mæli að draga úr útgjöldum til annars alþjóðasamstarfs er þar af ýmsu að taka sem ég held að að ósekju mætti trappa niður heldur en hitt ef menn telja sig ekki hafa efni á því að leggja hreinlega sérstaklega fjármuni og krafta í að byggja upp svæðisbundið samstarf eða að stuðla að uppbyggingu svæðisbundins samstarfs af því tagi sem ég mæli hér fyrir.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð en legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn. Eins og áður sagði bind ég, í ljósi góðra undirtekta sem tillagan hefur fengið, vonir við, hvort sem það næst á þessu þingi eða þó síðar verði, að Alþingi móti áherslur eða taki þá ákvörðun að hrint verði af stað vinnu af því tagi sem tillagan gerir ráð fyrir.