Staða jafnréttismála, munnleg skýrsla félagsmálaráðherra

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 10:54:13 (5805)

2002-03-08 10:54:13# 127. lþ. 93.5 fundur 383#B staða jafnréttismála, munnleg skýrsla félagsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), DrH
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[10:54]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Í dag höldum við hátíðlegan alþjóðlegan baráttudag kvenna sem var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1911. Þegar við stöndum hér í dag, árið 2002, ber okkur að horfa aðeins til baka og líta á það sem hefur gerst um leið og við horfum til framtíðar.

Því hefur oft verið haldið fram að íslenskar konur hafi verið seinar til að krefjast aukinna réttinda sér til handa. En þessu er ekki alveg þannig farið og má geta þess að fyrstu félög kvenna á Íslandi voru stofnuð á Norðurlandi. Það fyrsta var stofnað í Rípurhreppi árið 1869 og er það elsta starfandi félag kvenna í heiminum í dag. Þessi félög stofnuðu konur um hagsmunamál sín og fyrir atbeina þeirra var farið að kenna stúlkum skrift og reikning áratug áður en hið opinbera fór að hafa afskipti af þeim málum. Konur hér á landi voru því óneitanlega snemma á ferðinni og leikur enginn vafi á því að konur höfðu mikil áhrif með ýmsum hætti áður en þær hlutu pólitísk réttindi. Konur sendu Alþingi áskoranir sem fjölluðu einkum um bindindismál, launamál yfirsetukvenna og kvenréttindamál. Í bókinni Veröld sem ég vil eftir Sigríði Th. Erlendsdóttur kemur m.a. fram að Bríet Bjarnhéðinsdóttir varð fyrst kvenna til að skrifa ritgerð sem birtist í blaðinu Fjallkonunni. Bar ritgerðin nafnið: Nokkur orð um menntun og réttindi kvenna (eftir unga stúlku í Reykjavík). Þetta var í júní 1885. Ekki var nafn Bríetar undir greininni heldur dulnefnið Æsa. Þessi grein er sú fyrsta sem birtist á prenti eftir íslenska konu svo að vitað sé. Í greininni furðar Bríet sig á áhugaleysi kvenna um réttindamál sín og hvetur konur til að afla sér menntunar. Bríet segir:

,,Það er vonandi, að konur sjái nú sjálfar, að hér er um heill og réttindi þeirra að tefla, og að þær sitji ekki lengur aðgerðarlausar og horfi þegjandi á, ef einhver ber fram merki þeirra, heldur gangi örugglega fram og berjist við deyfð og doða, ófrelsi og hleypidóma, sem hingað til hafa staðið í vegi fyrir öllum andlegum og verklegum framförum þeirra.``

19. júní 1915 staðfesti kongungur stjórnarskrána og þar með grundvallarlög um kosningarrétt kvenna, en áður höfðu konur fengið kosningarrétt og kjörgengi til sveitarstjórna.

En karlar hafa lagt konum lið í kvennabaráttunni. Í bókinni Um konur og kosningarrétt eftir Gísla Jónsson menntaskólakennara segir frá því að norður á Akureyri sest Matthías Jochumsson upp áttræður og yrkir kvæði er hann nefnir Fullrétti kvenna, en áður hafði Matthías ort ljóð sem heitir Ég veit eina ambátt. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

  • Í sálarþroska svanna
  • býr sigur kynslóðanna,
  • því hver er menning manna,
  • ef menntun vantar snót?
  • Menntunin var það fyrsta sem gerðist í réttindabaráttu kvenna og svo sannarlega hafa konur tekið þessari áskorun. Þær hafa menntað sig og meiri hluti stúdenta í háskólanum er konur.

    Herra forseti. Á síðustu árum hefur mikill árangur náðst í jafnréttismálum. Við búum að mínu mati við mjög góð jafnréttislög og nú eru bundnar miklar vonir við fæðingar- og foreldraorlofslögin, þ.e. að þau dragi úr kynbundnum launamun, en þau munu að fullu koma til framkvæmda um næstu áramót. Þeim er ætlað að jafna foreldraábyrgð og þá um leið að jafna stöðu foreldra á vinnumarkaði.

    Hlutur kvenna hefur aukist á flestum sviðum þjóðfélagsins. Hlutur kvenna á þingi er nú 36,5% en var 25% á síðasta kjörtímabili. Nefnd kvenna um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum hefur staðið fyrir auglýsingaherferð sem ætluð er til þess að hvetja konur til að gefa kost á sér í komandi sveitarstjórnarkosningum. Hlutur kvenna í sveitarstjórnum hér á landi er 28,2%. Staðan hefur batnað til muna á síðustu áratugum, en hlutfall kvenna í sveitarstjórnum var 12,4% árið 1982 og er núna 28,2%. Hlutfall kvenna í sveitarstjórnum á Norðurlöndum er mjög svipað og hér á landi. Hlutfall kvenna í Svíþjóð er þó meira. Það er 41,6%. En í Suður-Evrópu er það í kringum 5--7%.

    Í 15 sveitarfélögum á landinu er engin kona í sveitarstjórn. Nú er tækifæri þegar verið er að stilla upp á lista eða kjósa til sveitarstjórna í vor til að bæta þar verulega úr. Enginn listi ætti að koma fram til sveitarstjórnar án þess að þar sé kona nema að engin kona sé í sveitarfélaginu. Því miður er orðið æ erfiðara að fá fólk til þess að sinna þessum störfum, bæði konur og karla, ekki síst í smærri sveitarfélögum því að verkefnin eru orðin viðameiri og launin eru ekki há fyrir þá vinnu.

    Í upphafi aldarinnar börðust konur fyrir æ hærri launum, bættum aðbúnaði á vinnustöðum og kosningarrétti. Kjör kvenna á Vesturlöndum hafa mikið breyst síðan þá, en samt sem áður hafa konur ekki náð sömu launum og karlar.

    Í svari fjmrh. til hv. varaþm. Stefáníu Óskarsdóttur kemur fram að meðaltekjur framteljanda voru um 173 þús. kr. á mánuði. Meðaltekjur karla voru 217 þús. kr. og meðaltekjur kvenna 130 þús. kr.

    Jafnrétti kvenna og karla á vinnumarkaði er hagsmunamál samfélagsins alls. Þjóðfélagið er í örri þróun og þarf á öllum vinnandi höndum að halda til að halda við þeirri velmegun sem við viljum búa við. Þjóðfélagið kallar eftir nýjum þegnum og atvinnulífið eftir hugviti og sérhæfðara vinnuframlagi. Á Íslandi eru rúm 80% kvenna í vinnu og er það meira en víðast annars staðar í hinum vestræna heimi. Mikilvægi fjölskyldulífs og samspil þess við atvinnulífið gerir kröfu til þess að bæði konum og körlum séu sköpuð sömu skilyrði. Við verðum að uppræta launamun karla og kvenna.

    Ég óska okkur öllum til hamingju með daginn.