Staða jafnréttismála, munnleg skýrsla félagsmálaráðherra

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 11:08:48 (5807)

2002-03-08 11:08:48# 127. lþ. 93.5 fundur 383#B staða jafnréttismála, munnleg skýrsla félagsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), GAK
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[11:08]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls óska okkur til hamingju með þennan dag, og sérstaklega íslenskum konum. Það er vel við hæfi að félmrh. skuli í dag, á alþjóðabaráttudegi kvenna, leggja fram skýrslu um jafnréttismál. Atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi er yfir 80% á vinnumarkaðnum. Efnahagur landsins væri allur annar og verri ef konur væru ekki svo virkar á vinnumarkaði sem raun ber vitni.

Ég vil nota þetta tækifæri og gera nokkra grein fyrir stefnu og störfum Frjálslynda flokksins í jafnréttismálum. Á landsþingi Frjálslynda flokksins árið 2000 var skipuð sérstök jafnréttisnefnd flokksins og á næsta þingi þar á eftir lagði sú nefnd fram tillögu að jafnréttisáætlun flokksins. Í slíkri áætlun felst viðurkennig á því að nauðsynlegt sé að grípa til sérstakra tímabundinna aðgerða til að raunverulegt jafnrétti og jöfn staða kvenna og karla náist. Auk þess sem hlutverk jafnréttisnefndar flokksins er skilgreint er enn fremur í jafnréttisáætluninni, með leyfi forseta, svohljóðandi:

,,Áætlun og markmið jafnréttisáætlunar fyrir stjórnmálaflokk þarf að vera samin með hliðsjón af aðstæðum innan flokksins og er ætlað að bæta hag flokksins og flokksfélaga. Jafnréttisáætlunin skal styðja jafnrétti innan flokksins.``

Síðan eru talin upp fimm markmið, svohljóðandi:

,,Vinna að jafnrétti kvenna og karla verði skipulögð og markviss. Markmiðin séu skýr þáttur í heildarstefnu flokksins. Unnt verði að meta árangur. Unnt verði að koma með úrbætur ef fyrirhugaðar aðgerðir skila ekki árangri. Jafnrétti og jöfn staða kynjanna stuðli að réttlátri skiptingu valda og áhrifa.

Landsþing Frjálslynda flokksins, sem haldið var í Reykjavík 19. og 20. jan. árið 2001, lýsir þeim vilja sínum að jafna stöðu karla og kvenna á vettvangi stjórnmálanna með sérstökum aðgerðum. Í því skyni þarf að auka hlut kvenna. Áætlunin kveður á um það hvernig Frjálslyndi flokkurinn getur unnið að jafnrétti kvenna og karla í stjórnmálum. Markmiðið er að ná jafnri þátttöku kvenna og karla í starfi á vegum flokksins í ákvarðanatöku og í ábyrgð.``

Síðan segir á öðrum stað, með leyfi forseta:

,,Við skipan í nefndir og starfshópa og stjórnir á vegum flokksins skal leitast við að hlutföll kynja séu sem jöfnust. Við röðun á framboðslista skal reynt að tryggja að hlutur kynjanna verði sem jafnastur í fulltrúatölu á Alþingi og í sveitarstjórnum. Þessi tillaga að jafnréttisáætlun var samþykkt einróma. Frjálslyndi flokkurinn telur mikilvægt að auka hlut kvenna innan flokksins vegna þess að jafn hlutur kynja við ákvarðanatöku í þjóðfélaginu er eitt af grundvallaratriðum lýðræðisins. Mikilvægar ákvarðanir í þjóðfélaginu skulu teknar af konum jafnt sem körlum. Það er því brýnt að konur hasli sér völl til jafns við karla í stjórnmálum, bæði hvað varðar sæti á framboðslistum sem og önnur ábyrgðarstörf.``

Í stefnuskrá Frjálslynda flokksins segir enn fremur að flokkurinn vilji jafna laun karla og kvenna og gera jafnréttisfræðslu að skyldunámsgrein í skólum.

Herra forseti. Enn þá er mikill kynbundinn launamunur til staðar því að í upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun í nóvember 2001 voru meðaltekjur kvenna aðeins 55,3% af tekjum karla. Baráttan fyrir auknu launajafnrétti er því afar mikilvæg.

Í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna í dag hafa ASÍ, BSRB og SÍB ásamt Jafnréttisstofu, Kvenréttindafélagi Íslands og Reykjavíkurborg sameinast um sérstakt ávarp með yfirskriftinni ,,Framlag kvenna gerir gæfumuninn``. Í ávarpinu er vakin athygli á mikilvægu framlagi kvenna á vinnumarkaði til hagsældar hér á landi. Í aðalávarpinu segir enn fremur, með leyfi forseta:

,,Bent er á þann kynbundna launamun sem er til staðar og áréttað mikilvægi baráttunnar fyrir launajafnrétti. Þess er krafist að vinnutími sé hóflegur og starfsskilyrði og vinnuskipulag taki tillit til hagsmuna kvenna á vinnumarkaði. Þá er þess krafist að samfélagið virði og meti mikilvægi framlags kvenna á vinnumarkaði og mæti þeim þörfum sem almenn atvinnuþátttaka kvenna skapar.``

Fulltrúi Frjálslynda flokksins, Margrét Sverrisdóttir, á sæti í nefnd þeirri sem félmrh. skipaði árið 1998 um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum. Nefndin hefur eins og félmrh. gat um í skýrslu sinni staðið fyrir ýmsum aðgerðum til að auka hlut kvenna í stjórnmálum, t.d. með því að halda námskeið og fræðslufundi víða um land og standa að auglýsingaherferðum fyrir alþingis- og sveitarstjórnarkosningar og gefa út fræðsluefni auk þess að eiga samstarf við aðra aðila sem vinna að sama markmiði.

En hver er staða kvenna í stjórnmálum á Íslandi? Hlutur kvenna á Alþingi var 25% eftir kosningarnar 1995, varð 35% eftir kosningar til Alþingis 1999 og er núna 36,5%. Eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar var hlutur kvenna í sveitarstjórnum aðeins 29%. Af 124 sveitarfélögum var hlutfallið þannig að 16 sveitarstjórnir voru eingöngu skipaðar körlum og í 56 sveitarstjórnum átti aðeins ein kona sæti. Af þessu má ráða að enn frekar þarf að vinna að jafnri þátttöku kynjanna í stjórnmálum.

Frjálslyndi flokkurinn árnar kvenþjóðinni heilla á þessum baráttudegi.