2002-03-08 11:56:33# 127. lþ. 93.6 fundur 406. mál: #A alþjóðasamningar um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar og fjármögnun hryðjuverkastarfsemi# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[11:56]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér fjöllum við um till. til þál. um fullgildingu alþjóðasamninga um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar og fjármögnun hryðjuverkastarfsemi. Um er að ræða samning sem samþykktur var af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York 5. des. árið 1997 og eins og fram kom í máli hv. frsm. rita undir nál. fulltrúar allra stjórnmálaflokka.

Ég vek sérstaklega athygli á niðurlagi nefndarálitsins, sem kom reyndar einnig fram í máli hv. frsm. Það er rétt að staldra þar sérstaklega við. Þar er vakin athygli á að fullgilding samninganna kalli á ýmsar lagabreytingar á Íslandi og að fyrir nefndina hafi verið lagt frv. dómsmrh. um breytingu á almennum hegningarlögum sem ætlað væri að uppfylla skyldur Íslands samkvæmt samningunum. Þar er vísað í þskj. 687.

Nú ætla ég að vitna í niðurlag nefndarálitsins, með leyfi forseta:

,,Nefndin vekur athygli á því að svo virðist sem b-liður 2. gr. frumvarpsins gangi lengra en 2. gr. alþjóðasamnings um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi sem birtur er sem fylgiskjal II með þingsályktunartillögunni. Skv. 2. gr. samningsins er skilyrði refsinæmis að ásetningur þess sem leggur fram fé til samtaka hafi staðið til að styrkja afbrotastarfsemi þeirra. Hins vegar virðist í frumvarpinu gert ráð fyrir að refsivert geti talist að leggja fram fé til samtaka án þess að ásetningur hafi staðið til að styrkja tiltekna brotastarfsemi. Mælist nefndin til að þetta verði skoðað nánar við meðferð málsins í allsherjarnefnd.``

Hvað erum við að tala um hér? Við erum að tala um að einstaklingur gæti gerst brotlegur með því að styrkja samtök sem væru í senn hryðjuverkasamtök en stunduðu jafnframt aðra starfsemi og án þess að menn geri sér grein fyrir þessu láti þeir fé af hendi rakna. Hér er verið að leggja áherslu á að aðeins verði refsinæmt að menn styðji samtök til illra verka af ásetningi.

Ég vek sérstaklega athygli á að við skoðum þetta rækilega þegar málið verður tekið til umfjöllunar og afgreiðslu í allshn. Alþingis.