Fullgilding stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 12:22:25 (5823)

2002-03-08 12:22:25# 127. lþ. 93.7 fundur 551. mál: #A fullgilding stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[12:22]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson orðaði það svo að menn ættu ekki að nálgast hlutina með bundið fyrir augun. Mér finnst þess vegna hv. þm. eigi að svipta hulunni frá augum sínum þegar hann les forsendur þessa samnings. Að verulegu leyti byggir þessi samningur á þeim breytingum sem hafa orðið á stöðu Sviss. Sviss, eins og kunnugt er, ákvað að gerast ekki aðili að Evrópska efnahagssvæðinu, hefur síðan árum saman reynt að ná svipuðum fríðindum og í þeim samningi er að finna með gerð tvíhliða samninga. Sviss hefur gert sjö tvíhliða við ESB. Þó það hafi lagt í það mikið atgervi og mikla fjármuni til að gera vissar breytingar á innviðum sínum til þess að ná fram þessum samningum, kostað til miklum fjármunum, er eigi að síður staðreyndin sú að niðurstaðan er þannig að það sem Sviss nær fram er í raun ekki alveg jafngott og það sem við Íslendingar og aðrar EFTA-þjóðir náðum fram í samningum um Evrópska efnahagssvæðið. Þetta geri ég ekki að umræðuefni hér, herra forseti, til þess að rifja upp fortíð hv. þm. og skoðanastraums hans varðandi Evrópska efnahagssvæðið heldur til þess að vekja eftirtekt á því að hv. þm. tilheyrir stjórnmálahreyfingu sem vill í framtíðinni að Ísland taki upp sérstaka stöðu gagnvart Evópusambandinu sem á að byggjast á tvíhliða samningum. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að það sé ákaflega óhagkvæmt Íslendingum. Ég er þeirrar skoðunar að ef hv. þm. tæki huluna frá augum sínum og skoðaði þá samninga sem Sviss hefur gert við Evrópusambandið, kæmist hann líka að því --- hér er um greindan þingmann að ræða, svo ég grípi nú til þess sem hæstv. forsrh. hefur stundum beitt á þingmenn --- þá kæmist hann að því (Gripið fram í.) að aðferðin og nálgunin sem felst í tvíhliða samningnum yrði ekki hagkvæm fyrir Ísland ef maður dregur einhvern lærdóm af þeim árangri sem Sviss náði.

Herra forseti. Ég vil að öðru leyti fyrir hönd Samfylkingarinnar, eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur gert, lýsa stuðningi við fullgildingu þess stofnsamnings sem hér liggur fyrir. Mér finnst talsvert mikill áfangi liggja fyrir í þeim miklu textum sem eru til umræðu. Starfsmenn utanrrn., sem hafa líka komið að starfi EFTA, eiga hrós skilið fyrir þá vinnu sem í þessu felst. Við sem eigum sæti í EFTA/EES-nefndinni höfum notið þeirra forréttinda að fá að fylgjast örlítið með framvindu þessarar samningsgerðar og höfum þar af leiðandi kynnt okkur þetta örlítið. Sú nefnd var einmitt stödd í Vaduz þegar þessi samningur var fullgiltur á síðasta ári.

Mér sýnist sem hér séu stigin ákaflega heilladrjúg skref. Það sem mér finnst skipta verulegu máli varðandi innihald þessa samnings er m.a. að stofnanaþátturinn er svolítið breyttur. EFTA-ráðið fær nú aukin völd og svigrúm til þess að staðfesta og breyta viðaukum þannig að samningaferli EFTA gagnvart öðrum ríkjum hvað varðar fríverslunarsamninga og ýmislegt fleira verður miklu sveigjanlegra og það verður auðveldara að vinna samningana.

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að EFTA hafi ekki sungið sitt síðasta. EFTA hefur reynst okkur ákaflega vel. Það hefur orðið okkur stökkpallur til áhrifamesta samnings og besta samnings sem hefur verið gerður af Íslands hálfu um áratuga skeið. Enn þá er alveg ljóst að EFTA hefur hlutverki að gegna. Við sjáum að þeir fríverslunarsamningar sem EFTA er að gera hefðu aldrei náðst ef við Íslendingar hefðum einir farið í þá samninga. Það er hinn samanlagði kraftur EFTA-þjóðanna í gegnum samtökin sem gerir það að verkum að slagkraftur okkar í samningum er miklu meiri en ef ríkin væru hvert fyrir sig að reyna að ná þessum samningum.

Ástæðan fyrir því að þessi samningur er nú gerður í þessu breytta formi er þríþætt eins og hæstv. utanrrh. nefndi hérna áðan. Það er í fyrsta lagi sú staðreynd að gildissvið fríverslunarsamninganna, sem við erum stöðugt að gera fyrir atbeina EFTA, er miklu yfirgripsmeira en áður. Það nær ekki bara til hinna hefðbundnu fríverslunar. Þar af leiðir, má segja, að stofnsamningurinn endurspegli ekki að öllu leyti þetta víðtækara og breytta gildissvið samninganna. Það er ein ástæðan fyrir þessum breytingum.

Í öðru lagi höfum við gert marga fjölþjóðasamninga vegna aðildar okkar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni og það er ein ástæða. En meginástæða þessa samnings er auðvitað sú, að því er mér finnst, að með þeirri aðferð sem Sviss kaus að taka upp í samskiptum sínum við Evrópusambandið voru gerðir tvíhliða samningar, sjö talsins ef ég man rétt, og þegar upp var staðið var sú sérkennilega staða komin upp að réttindi milli EFTA-ríkjanna voru minni en milli einstakra ríkja og Evrópusambandsins. Þetta er auðvitað hrópandi misræmi sem nauðsynlegt er að leiðrétta.

Herra forseti. Eins og ég sagði skiptir miklu máli að EFTA-ráðið hefur þetta aukna svigrúm og þar af leiðir þýðir það einnig að stofnsamningurinn, eins og ég skil þetta, er í reynd stöðugt í endurskoðun og verður endurskoðaður nokkrum mánuðum hið fyrsta sinnið eftir fullgildingu hans.

Mig langar til að spyrja hæstv. utanrrh. að einu örsmáu atriði. Einn af þeim samningum sem Sviss gerði við Evrópusambandið, og við erum líka að breyta réttindum okkar gagnvart Sviss að því leytinu til, varðaði samgöngur. Það var þríþættur samningur, þ.e. varðandi samgöngur með járnbrautum og á vegum, sem varðar nú ekki Ísland mjög miklu, en jafnframt í lofti. Þetta þýðir í reynd að frelsi okkar til flugsamgangna gagnvart Sviss er talsvert annað en áður, þ.e. flugfélög frá EFTA-ríkjunum eiga samkvæmt þessu að fá fullan aðgang að mörkuðum hvers annars. Við höfðum þetta frelsi gagnvart öðrum Evrópuríkjum þannig að þetta ákvæði að því er Ísland varðar snertir eingöngu Sviss, flugrekstur milli Sviss og Íslands. Hvað þýðir þetta, herra forseti? Hefur þetta einhver afgerandi áhrif á rekstur Flugleiða eða annarra íslenskra flugfélaga og þá eftir atvikum svissneskra milli þessara tveggja landa?

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar, herra forseti. Ég tel að hérna sé vel að verki staðið. Þessi drög eða þetta frv. að stofnsamningi sem hér liggur fyrir þjónar breyttum þörfum EFTA-ríkjanna og það svarar líka breyttum þörfum sem stafa af því að samningatækni er öðruvísi og við höfum tekið upp önnur vinnubrögð. Ég held þess vegna að hér sé um ákaflega þarft og gott mál að ræða.