Fullgilding samnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Króatíu

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 12:45:22 (5829)

2002-03-08 12:45:22# 127. lþ. 93.8 fundur 565. mál: #A fullgilding samnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Króatíu# þál., 566. mál: #A fullgilding samnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Makedóníu# þál., 567. mál: #A fullgilding samnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Jórdaníu# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[12:45]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þremur tillögum til þál. um heimild til handa ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamninga milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og ríkjanna Jórdaníu, Makedóníu og Króatíu. Þeir samningar sem hér um ræðir eru hliðstæðir samningum sem gerðir hafa verið á undanförnum árum á vegum EFTA og komið hafa til umfjöllunar á hinu háttvirta Alþingi. Þannig ná samningarnir til fríverslunar með iðnaðarvörur, fisk og unnar landbúnaðarvörur. Jafnframt voru gerðir tvíhliða samningar um tollalækkanir fyrir ýmsar óunnar landbúnaðarvörur. Auk þess ná samningarnir til ýmissa annarra þátta sem nánar er getið í tillögunum. Þær tollalækkanir sem hér um ræðir taka gildi í áföngum svo sem nánar er gerð grein fyrir.

Við gerð samninga af þessu tagi er ekki einvörðungu verið að skapa forsendur til aukinna og greiðari viðskipta milli aðildarríkjasamninganna heldur eru þeir ekki síður af pólitísku tagi. Þannig eru samningarnir við Makdeóníu og Króatíu liður í viðleitninni til að styðja við lýðræðislega þróun og efnahagslegar framfarir í þessum löndum og á viðkomandi svæði. Samningurinn við Jórdaníu er í samræmi við þá stefnumörkun EFTA, og reyndar Evrópusambandsins líka, að stuðla að viðskiptalegri tengingu landa norðausturstrandar Miðjarðarhafs og Miðausturlanda við Evrópu og þróun í átt til fríverslunar við þetta svæði allt þannig að það geti þróast með eðlilegum hætti og vonandi stuðlað að betri samskiptum og friði á þessu svæði.

Að fullgiltum þessum samningum eru gildandi fríverslunarsamningar EFTA orðnir 18 að tölu. Samningur við Singapúr bíður undirritunar. Samningaviðræður við Chile og Kanada eru langt komnar og þær eru hafnar við Túnis og Egyptaland. Vonir standa til að viðræður hefjist innan tíðar við Suður-Afríku sem er vaxandi markaður, og mikilvægt að Evrópuríkin hafi eðlilegan aðgang að þeim markaði enda á margan hátt lykill að sunnanverðri Afríku.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.