Fullgilding samnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Króatíu

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 12:51:38 (5831)

2002-03-08 12:51:38# 127. lþ. 93.8 fundur 565. mál: #A fullgilding samnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Króatíu# þál., 566. mál: #A fullgilding samnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Makedóníu# þál., 567. mál: #A fullgilding samnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Jórdaníu# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[12:51]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég styð að sjálfsögðu fullgildingu þessara þriggja samninga. EFTA hefur staðið sig ákaflega vel við að gera fríverslunarsamninga á síðustu árum, og má segja að þeir samningar sem við erum að fullgilda hér hafi auðvitað verið gerðir eða unnið að gerð þeirra í tíð Kjartans Jóhannssonar meðan hann var yfir þeirri ágætu stofnun.

Ég kem hingað til að spyrja hæstv. utanrrh. um þá samninga sem nú eru í farvatninu. Ég tek eftir því, herra forseti, að í grg. með öllum þessum þremur þáltill. er vísað til þess að á lokastigi séu samningar við Singapúr. Síðan er tekið svo til orða að viðræður hafi staðið yfir við Kanada, Túnis og Chile. Ég stóð í þeirri trú, herra forseti, að við værum u.þ.b. að ljúka gerð samninga við Kanada. Þeir samningar hafa áður verið ræddir á hinu háa Alþingi að frumkvæði hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur. Ég minnist þess að ég stýrði sjálfur sem varaformaður utanrmn. fyrsta fundinum sem við, fulltrúar þingsins, áttum við Kanadamenn. Þá lýstu frændur okkar frá Kanada því yfir með miklum fögnuði að þeir legðu mikla áherslu á að ljúka þessum samningi. Ég held að fimm, sex, jafnvel sjö ár séu liðin síðan þetta var, ég man ekki hvenær það var.

Í framhaldi af umræðum sem ég hef átt við aðra þingmenn og ráðherra EFTA-ríkjanna á vettvangi EFTA-/EES-nefndarinnar og í framhaldi af þeim umræðum sem hér urðu fyrir nokkrum vikum um Kanada langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé misskilningur minn að samningurinn við Kanada sé á lokastigi. Ef það er misskilningur minn, hvað er það þá sem stendur í vegi fyrir því að ljúka þeim mikilvæga samningi? Sá samningur er ákaflega mikilvægur vegna þess að hann er eini samningurinn sem er ekki bókstaflega hliðstæður samningum ESB, held ég. Ég held að ESB sé ekki búið að ljúka samningum við Kanada og það skiptir máli fyrir okkur að stíga þar skrefi framar en þeir.

Ég lýsi líka ánægju minni með að í bígerð skuli vera að hefja viðræður um gerð samnings við Suður-Afríku. Mig langar þá jafnframt að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki skoðun hans að við ættum líka að leggja net okkar á þessu sviði fyrir Japan. Ég ímynda mér að í því gæti verið slægur.