Útboð í heilbrigðisþjónustu

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 13:43:23 (5835)

2002-03-08 13:43:23# 127. lþ. 93.94 fundur 388#B útboð í heilbrigðisþjónustu# (umræður utan dagskrár), heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[13:43]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Það hefur komið í ljós að nokkurs misskilnings gætir vegna orða sem ég lét falla um heilsugæsluna og rekstrarform á því sviði og því fagna ég sérstaklega að hv. 4. þm. Reykn. skuli taka málið upp hér á Alþingi. Hún beindi til mín nokkrum spurningum sem ég kýs að svara, en ræði síðan nokkur almenn atriði varðandi heilsugæsluna.

Verði heilsugæslustöð boðin út í einu lagi, t.d. í Salahverfinu, þá mun heilbrrh. í þessu tilfelli með samningi tryggja í fyrsta lagi að þjónustan gagnvart almenningi verði ekki síðri, í öðru lagi að gjöldin fyrir þjónustuna verði ekki meiri og að útgjöldin fyrir okkur sem skattgreiðendur verði ekki hærri en á heilsugæslustöðum sem reknar eru með hefðbundnum hætti á vegum heilsugæslunnar í Reykjavík. Verði útboðsleiðin farin er bæði sjálfsagt og fullkomlega eðlilegt að heilsugæslunni í Reykjavík yrði falin framkvæmdin, enda stefna, áherslur í rekstri og kröfur í samræmi við þá stefnu ráðuneytisins sem mörkuð hefur verið með uppbyggingu glæsilegra stöðva á höfuðborgarsvæðinu og utan þess.

Þá er spurt um Salahverfið sérstaklega. Þar eins og víðar hefur vaxið hratt upp blómlegt hverfi sem þarfnast ekki bara heilsugæslu í hverfinu heldur á rétt á henni. Uppbyggingin þar snertir á engan hátt fyrirtækið Læknalind. Það er algjörlega óháð fyrri áformum um hina almennu uppbyggingu í Salahverfinu, alveg á sama hátt og ágæt þjónusta Læknavaktarinnar handan Reykjanesbrautar er óháð uppbyggingunni í nýja hverfinu. Þar er sjaldnast löng bið eftir fimm á daginn og yfirleitt komast menn að innan klukkutíma eftir að þeir mæta á staðinn. Verði heilsugæslustöðin í Salahverfinu boðin út gerum við sömu kröfu til heimaþjónustunnar þar og gerðar eru annars staðar og allar upplýsingar verða vistaðar með sama hætti og annars staðar er gert.

[13:45]

Með þessum yfirlýsingum tel ég mig hafa svarað beinum fyrirspurnum hv. 4. þm. Reykn. en vegna umræðna um heilsugæsluna almennt tel ég rétt að koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri svo við getum rætt þessi mál á faglegum grundvelli áfram.

Á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 178.000 manns í desember síðastliðnum. Á svæðinu öllu eru starfandi 103 heilsugæslu- og heimilislæknar, sem þýðir að hér eru rúmlega 1.700 manns á hvern starfandi heilsugæslu- og heimilislækni. Ég nefni þessa tölu til að menn átti sig á grunni þess sem við erum að tala um.

Menn hafa langa reynslu fyrir því að Íslendingar vilja ekki bíða lengi eftir að ná fundi læknis þegar þeir telja sig þurfa þess með. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að menn hafa kvartað undan þjónustu heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Sagt er að leiðin til læknis sé ekki nægilega greið. Sumir hafa bundið saman biðlistana og rekstrarformið og fengið út úr því að einkareksturinn eða einkavæðingin væri lausnarorðið, með slíkri breytingu hyrfu biðlistarnir. Ég set mikinn fyrirvara við þetta. Þeir sem hafa talað hæst um þetta tala aldrei um langa biðlista hjá einkastofum. Ég hafna því að rekstrarformið skipti hér máli. Læknum fjölgar ekki með því að breyta rekstrarforminu og sömu menn vinna ekki fleiri læknisverk nema þá að þeir sem vinna verkið fái meira fyrir sinn snúð.

Hér erum við kannski komin að kjarna óánægju heilsugæslulæknanna, a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu. Kjör þeirra ákvarðast nú af kjaranefnd í samræmi við eindregnar óskir þeirra frá því fyrir fimm árum. Ég hef lýst því yfir að það sé og hafi ekki verið fyrirstaða hjá mér, hjá forvera mínum eða hjá heilbr.- og trn. að endurskoða þessa skipan mála, ef það mætti verða til þess að lægja óánægjuraddir í heilsugæslulæknahópnum. Ég hef því miður ekki fengið viðbrögð enn við þessum yfirlýsingum mínum frá samtökum lækna, en ítreka hér það sem ég hef áður sagt um það, að ég er reiðubúinn að skoða allar þær hugmyndir sem mega verða til að slá á ónægju manna með breyttu launafyrirkomulagi þar sem hagsmunum beggja er til skila haldið, sem þýðir að fyrir aukin afköst í heilsugæslunni fá menn eitthvað fyrir snúð sinn.

Ég kem frekar inn á rekstrarformið almennt hér á eftir. En það sem ég hef sagt í þeim efnum er engin breyting frá þeirri stefnu sem sátt hefur verið um. Eina breytingin er að bjóða læknum upp á aðstoð við að losna undan kjaranefnd ef þeir vilja.

Við erum þegar með mismunandi rekstrarform í heilsugæslunni. Útboð eins og ég hef sagt að kæmi til greina er því engin nýlunda. Við erum þegar með hinar hefðbundnu stöðvar. Við erum með sjálfstætt starfandi heilsugæslulækna. Við höfum gert eins konar þjónustusamning um rekstur heillar stöðvar og við höfum þar fyrir utan gert eins konar þjónustusamning um rekstur Læknavaktarinnar. Gagnvart einstaklingum er kostnaðurinn alls staðar sá sami og leiðin að læknum á að vera jafngreið fyrir alla. Fyrir heilbrigðisyfirvöld, lækna og skattgreiðendur er hins vegar hollt að geta borið saman hin mismunandi form á rekstri, meta þannig kosti og galla og það hyggjumst við gera án þess að hverfa frá neinum grundvallaratriðum sem ég hef ætíð hamrað á varðandi þessi mál.