Útboð í heilbrigðisþjónustu

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 14:02:22 (5842)

2002-03-08 14:02:22# 127. lþ. 93.94 fundur 388#B útboð í heilbrigðisþjónustu# (umræður utan dagskrár), BH
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[14:02]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Umræðan um rekstrarform í heilbrigðisþjónustu snýst um leiðir að tilteknum markmiðum. Eitt af þeim er aukin hagkvæmni. Það er eðlilegt að leitað sé leiða til að ná fram sem mestri hagkvæmni í rekstri heilbrigðisþjónustu og hafa nú þegar verið stigin mörg skref til þess. Samfylkingin hefur ekki lagst gegn því að slíkra leiða sé leitað, eins og útboða á ýmiss konar stoðþjónustu við sjúkrahúsin eða aðrar heilbrigðisstofnanir, en við leggjum á það höfuðáherslu að við slíkar ákvarðanir missi stjórnvöld ekki sjónar á þeim grundvallareinkennum sem prýða góða heilbrigðisþjónustu. Hún þarf að nýtast öllum án tillits til efnahags- eða félagslegrar stöðu að öðru leyti. Hún þarf að taka mið af þörfum neytandanna. Hana þarf líka að reka þannig að sem best þjónusta fáist fyrir sem minnst fé og að þeir sem um buddurnar halda hafi yfirsýn yfir útgjöldin.

Maður veltir því fyrir sér, herra forseti, hvort hæstv. heilbrrh. treystir sér til þess að tryggja slík markmið í því hvert svo sem rekstrarformið er. Góð heilbrigðisþjónusta á umfram allt að byggjast á samfélagslegum grunni.

Samfylkingin hafnar tvískiptu heilbrigðiskerfi sem býður þeim sem fjáðir eru betri þjónustu en hinum sem minna hafa. Slíkt kerfi er ekki í anda jafnaðarstefnunnar.

Þegar við leggjum mat á kostnað og sparnað í heilbrigðisþjónustunni verðum við alltaf hafa það í huga að grunnheilbrigðisþjónusta lýtur ekki lögmálum markaðarins. Hún snýst um heilsu fólks, um líf og dauða, siðferði og mannlega reisn. Sá sem sækir heilbrigðisþjónustuna gerir það ekki af fúsum og frjálsum vilja, hann er neyddur til þess. Hann á oftar en ekki ekkert val og getur ekki leitað eitthvert annað eftir þjónustu.

Munum því, herra forseti, eftir þessum sérkennum heilbrigðisþjónustunnar þegar við veljum rekstrarformin. Samfylkingin hafnar þeim rekstrarformum sem hafa í för með sér mismunun í heilbrigðisþjónustu eða stjórnlaus útgjöld sem ríkisvaldið hefur enga yfirsýn yfir.