Útboð í heilbrigðisþjónustu

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 14:04:39 (5843)

2002-03-08 14:04:39# 127. lþ. 93.94 fundur 388#B útboð í heilbrigðisþjónustu# (umræður utan dagskrár), Flm. RG
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[14:04]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þær upplýsingar sem komu fram hjá hæstv. heilbrrh. Hann segir að þjónusta verði ekki verri, gæði ekki minni. Hann talar líka um Læknalind og Læknavaktina sem aðra kosti sem hafa komið inn í heilbrigðisþjónustuna. Það er grundvallarmunur á þessu. Við erum að tala um hverfisstöð fyrir stórt hverfi. Við erum að tala um þriðju heilsugæsluna í Kópavogi sem tengist starfsemi hinna stöðvanna, hvort heldur er heimaþjónusta, að hægt sé að tengja saman upplýsingar, ungbarnaeftirlit og hvaðeina. Það er bara einn staður sem kemur til greina fyrir heilsugæslustöðina og Kópavogur er að reyna að fá leigusamning um þennan stað. Bíðum við, hvað á að bjóða út? Það er bara einn staður sem hægt er að fara á. Hvað er það þá? Af hverju er verið að skoða útboð þar sem níu mánaða samningaumleitanir við heilbrrn. liggja að baki og hægt er að fara á staðinn og ráða lækna?

Kjarni óánægju heilsugæslulækna, segir ráðherrann sem vill skoða allar hugmyndir, er að þeir vilja fá eitthvað fyrir sinn snúð og hann vill aðstoða þá við að komast undan kjaranefnd. Er þetta leiðin til þess? Við verðum líka að vita hvert við ætlum að stefna. Í upphafi skyldi endinn skoða. Hver er langtímastefnan? Ætlum við að enda þannig að öll heilsugæsla verði einkarekin með þeim hætti sem hér er talað um? Þá tel ég mikla hættu á því að byrðin af rekstrinum verði smám saman færð af ríkissjóði í vasa sjúklinga á svipaðan hátt og gerst hefur þegar sjálfstætt starfandi læknar komu til sögunnar. Við verðum að skoða þessi mál. Við verðum að ræða þau og við verðum að vita hvar við ætlum að enda, ekki bara gera tilraun af því læknana langar að ráða.