Útboð í heilbrigðisþjónustu

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 14:06:49 (5844)

2002-03-08 14:06:49# 127. lþ. 93.94 fundur 388#B útboð í heilbrigðisþjónustu# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[14:06]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ummæli mín á fundi heilsugæslulækna um útboðið hafa vakið athygli. En hins vegar var það fleira sem ég sagði á þeim fundi og ég held að sé rétt í ljósi umræðna hér, sem ég þakka fyrir og voru málefnalegar, að nefna að á þeim fundi sagði ég eftirfarandi: ,,Ég er ekki til viðtals um að gera neinar þær breytingar á grunnþjónustu heilbrigðisþjónustunnar sem fela í sér að horfið verði frá því að þjónustan sé almenn, aðgangur greiður, óháður tekjum, eignum eða félagslegri stöðu manna. Ég hafna hugmyndum þeirra stjórnmálamanna og lækna sem með tillögum sínum eru í rauninni að leggja grunninn að tvöföldu heilbrigðiskerfi fyrir tvær þjóðir í sama landinu. Það gengur ekki þar sem það er praktíserað og það gengur enn síður hér á Íslandi.`` Og ég sagði enn fremur, með leyfi forseta: ,,Þetta segi ég ekki vegna þess að ég sé á móti einkarekstri, síður en svo. Ég segi þetta vegna þess að fagleg lýðheilsurök mæla gegn fyrirkomulagi af þessu tagi, almenn fjárhagsleg rök mæla gegn því og einu rökin sem mögulega mætti tína til með svona kerfi eru þröngir sérhagsmunir.``

Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég vil taka fram að sé það mat hv. þingmanna og hv. 3. þm. Norðurl. e. að ég hafi talað skynsamlega í málinu (SJS: Fram að þessu.) fram að þessu, þá hefur engin breyting orðið á málflutningi mínum, nákvæmlega engin. Því ég hef ætíð haldið því fram að einkarekstur og einkavæðing í heilbrigðisþjónustu væri sitt hvað. Það er ekkert nýtt að ég segi það úr þessum ræðustól. (SJS: Þú ert að byrja að vænkast.) Og þetta útboð, ef af því verður, verður það á forsendum heilsugæslunnar. Það er lykilatriðið í málinu. Ég er mikill fylgismaður þess að efla þá grunnþjónustu og m.a. hv. 3. þm. Norðurl. e. talaði skynsamlega um verkefnin, hvernig þau ættu að vera. En ég hef talað í þessu máli nákvæmlega á sama hátt og ég hef áður gert.