Hlutafélög

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 14:18:29 (5846)

2002-03-08 14:18:29# 127. lþ. 93.12 fundur 547. mál: #A hlutafélög# (hlutafé í erlendum gjaldmiðli) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[14:18]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli sem viðskrh. fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum.

Frumvarp þetta er samið í viðskiptaráðuneytinu í kjölfar þess að ábendingar bárust úr atvinnulífinu um að æskilegt væri að unnt yrði að skrá hlutafé í íslenskum hlutafélögum og einkahlutafélögum í erlendum gjaldmiðli. Í því sambandi má benda á að í fjármálaráðuneytinu hefur verið unnið að því að fá löggjöf breytt þannig að færa megi bókhald og semja ársreikninga félaga í erlendum gjaldmiðli og liggur frumvarp þar að lútandi fyrir Alþingi.

Í Danmörku var þessi leið farin 1998, þ.e. ýmsum lögum var breytt, m.a. lögum um ársreikninga og ýmis gjöld, svo og lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög.

Hreyfing komst á þessi mál í Danmörku og víðar í Evrópusambandinu vegna upptöku sameiginlegs nýs gjaldmiðils, evrunnar, í flestum ESB-ríkjanna 1. janúar 1999 en evran kemur í staðinn fyrir gjaldmiðla viðkomandi Evrópusambandslanda og í stað evrópskra mynteininga, Evrópumyntar. Um áramótin 2001--2002 standa aðeins þrjú Evrópusambandslönd utan við evruna, þ.e. Bretland, Danmörk og Svíþjóð, og halda þau gjaldmiðlum sínum. Danska krónan er þó tengd evrunni. Töldu Danir að athuguðu máli að rétt væri að gera ýmsar nauðsynlegar breytingar á löggjöf sinni en aðalbreytingarnar voru fólgnar í því að félög fengu heimild til að færa ársreikninga í evrum og tilgreina hlutafé í þeirri mynt. Færi var gefið á tilgreiningu í öðrum gjaldmiðlum samkvæmt nánari reglum þar að lútandi Ekki hefur enn reynt á það í Danmörku.

Við samningu frumvarps þessa var í upphafi gert ráð fyrir að hafa ætti íslensk lagaákvæði um hlutafé í erlendum gjaldmiðli svipuð og í Danmörku, þ.e. að heimild til ákvörðunar þar um væri alfarið á valdi félaganna. Að fengnum athugasemdum var þó talið rétt við samningu frumvarps þessa að hafa heimildirnar misvíðtækar. Reynslan kann að leiða í ljós að ganga þurfi lengra síðar. Um hlutafélög munu gilda mismunandi reglur. Frjálslegri reglur skulu gilda um skráð hlutafélög, sem eru um tíundi hluti hlutafélaga, á skipulegum verðbréfamarkaði, þ.e. annars vegar í kauphöll og hins vegar á skipulegum tilboðsmarkaði. Um önnur hlutafélög, sem voru innan við 1.000 á sama tíma, er gert ráð fyrir strangari reglum til að geta ákveðið hlutafé í erlendum gjaldmiðli. Þessi félög þurfa með öðrum orðum að hafa fengið heimild ársreikningaskrár sem vistuð er hjá ríkisskattstjóra til að færa bókhald og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðlum og fullnægja ýmsum skilyrðum í því sambandi. Meðal skilyrða sem nægja er að félög séu með meginstarfsemi sína erlendis eða hafi meginstarfsemi sína hér á landi en séu með verulegan hluta viðskipta í öðrum gjaldmiðli en í íslenskum krónum. Bæði skráð hlutafélög og önnur hlutafélög þurfa að halda nýja gjaldmiðlinum óbreyttum í a.m.k. fimm ár nema ráðherra veiti undanþágu frá þeim tímamörkum. Þar eð grundvallarskilyrði fyrir erlendum gjaldmiðli er samþykki fyrir skráningu á skipulegum verðbréfamarkaði eða heimild ársreikningaskrár fela ákvæði frumvarpsins í sér að íslensk hlutafélög þurfa að byrja með hlutafé í íslenskum krónum. Hér má nefna að hlutafélög fá ekki skráningu á skipulegum verðbréfamarkaði fyrr en eftir nánar tiltekinn starfstíma.

Auk íslensku krónunnar má samkvæmt frumvarpinu ákveða hlutafé í átta erlendum gjaldmiðlum, þ.e. evru, bresku pundi, dönskum, norskum og sænskum krónum, bandaríkjadal, japönskum jenum og svissneskum frönkum. Kveðið er á um að í ákvörðun hluthafafundar skuli greina frá nafnvirði í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðli og jafnframt er kveðið á um umreikning milli gjaldmiðla.

Gert er ráð fyrir að ráðherra geti sett reglur um að miða megi við aðra gjaldmiðla, svo og kveðið nánar á um skilyrði fyrir því að hlutafé sé ákveðið í öðrum gjaldmiðli en íslensku krónunni og hvenær sú breyting megi fara fram. Þá er kveðið á um að innkalla skuli útgefin hlutabréf og gefa önnur út í stað þeirra í nýja gjaldmiðlinum. Sambærilegar breytingar skal gera sé um rafræna skráningu að ræða. Þá er kveðið á um refsingu við broti á reglum. Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. júní 2002.

Breytingum þessum á löggjöf um hlutafélög og einkahlutafélög, geta fylgt ýmsir kostir. Breytingarnar eru taldar geta aukið samkeppnishæfni íslenskra félaga gagnvart fyrirtækjum í evrulöndunum og öðrum ESB-löndum en búast má við að í þeim ESB-löndum sem eru utan evrusvæðisins verði unnt að færa ársreikninga í evrum og jafnframt tilgreina hlutafé í þeirri mynt. Jafnframt eru breytingarnar taldar geta komið í veg fyrir vissar hindranir á starfsemi fyrirtækja hér á landi og þar með laðað að fjárfestingu erlendra aðila. Auðveldara getur verið fyrir erlenda fjárfesta að meta félög á Íslandi vegna fyrirhugaðra fjárfestinga í þeim. Þá geta líkurnar á því aukist að alþjóðafyrirtæki, sem vinna á grundvelli evrunnar, fjárfesti hér á landi með því að stofna dótturfyrirtæki á Íslandi án þess að breyta um gjaldmiðil. Auðveldara getur orðið fyrir íslensk félög að afla fjár á hinu stóra evrusvæði eða frá öðrum ESB-löndum. Félögin geta jafnvel fengið ódýrara fjármagn. Ná má í fjármagn m.a. með útgáfu verðbréfa á þeim markaði og lán frá erlendum aðilum sem geta á einfaldari hátt metið stöðu félaganna. Loks gætu breytingarnar jafnvel greitt fyrir fjárfestingu íslenskra félaga í útlöndum.

Félögin verða ekki skylduð til að færa ársreikninga í erlendum gjaldmiðli eða hafa hlutafé í erlendum gjaldmiðli heldur geta þau valið um það. Ekki er því verið að leggja sérstakar byrðar á þau með löggjöf. Í umræðum í danska þjóðþinginu töldu fulltrúar þingflokka mikilvægt að um val væri að ræða

Ekki er víst að mörg félög muni notfæra sér þetta valfrelsi en sum geta verið í slíkri starfsemi að mikilvægt teljist að þessi möguleiki sé fyrir hendi. Þótt einhver kostnaður geti hlotist af hjá félögum kemur hagræði á móti svo sem áður segir.

Mér þykir ekki ástæða til þess að fara nánar út í minni háttar breytingar sem snerta þetta mál, t.d. er hugtakið ,,evrópskar mynteiningar`` fellt úr lögunum, en evra sett í staðinn, enda tekur lágmarkshlutafé visst mið af EES-samningnum.

Taka má fram að gert er ráð fyrir stuttum aðlögunartíma vegna breytinga á tölvukerfi hlutafélagaskrár. Frv. er ekki talið hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Samfara þessu frv. er lagt fram annað frv. um breytingu á lögum um einkahlutafélög.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að þessu frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.