Hlutafélög

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 14:25:47 (5847)

2002-03-08 14:25:47# 127. lþ. 93.12 fundur 547. mál: #A hlutafélög# (hlutafé í erlendum gjaldmiðli) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[14:25]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Að meginefni er Samfylkingin hlynnt þeim tveimur frv. sem hæstv. ráðherra hefur hér mælt fyrir. Um síðustu áramót var staðan þannig að aðeins þrjú lönd Evrópusambandsins stóðu utan við evruna, þ.e. Bretland, Svíþjóð og Danmörk. Eitt þessara landa, Danmörk, hefur þegar breytt löggjöf sinni þannig að mögulegt er að færa ársreikninga í evrum og jafnframt tilgreina hlutafé í þeirri mynt.

Fyrir þessu þingi liggur nú þegar frv. um að íslenskum fyrirtækjum verði gert kleift að færa bókhald og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðli. Þetta frv. hefur legið fyrir hv. efh.- og viðskn. og nefndin hefur farið í þaula ofan í það frv. og kallað til fjölmarga menn. Ég held að ég fari ekki með rangt mál þegar ég segi að nefndin hefur öll orðið ásátt um tilteknar breytingar á því frv. Að öðru leyti mun nefndin leggja til við þingið að frv. verði samþykkt með þeim breytingum. Þetta er nauðsynlegt til að viðhalda samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja gagnvart fyrirtækjum bæði á evrusvæðinu og í löndum innan Evrópusambandsins og utan evrusvæðisins þar sem gert er ráð fyrir, utan Danmerkur sem ég hef þegar nefnt, að einnig verði teknar upp svipaðar breytingar, þ.e. í Bretlandi og Svíþjóð. Til þess að íslensk fyrirtæki geti haldið samkeppnishæfni sinni þarf þess vegna að gera þessar breytingar.

Eins og ég gat um áðan, herra forseti, liggur þetta frv. fyrir sem tekur til heimildar um að íslensk fyrirtæki megi færa bókhald og ársreikninga í erlendum gjaldmiðli. Með þessum tveimur frv., um einkahlutafélög og hlutafélög, er óskað eftir heimild handa íslenskum fyrirtækjum til þess að skrá jafnframt hlutafé sitt í evrum og tilteknum erlendum myntum.

Ég held, herra forseti, að það sé einboðið að það sé farsælt fyrir íslenskt viðskiptalíf. Ég held að það geri það mögulegt fyrir íslensk fyrirtæki að verða sér út um fjármagn á alþjóðlegum mörkuðum en jafnframt ættu að aukast möguleikar á að laða hingað til lands erlend fyrirtæki. Þess vegna held ég, herra forseti, að þetta mál horfi mjög til bóta og eins og ég sagði styður Samfylkingin það í meginatriðum, en áskilur sér að sjálfsögðu rétt til að leggja fram og fylgja breytingum á því.