Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 14:34:44 (5849)

2002-03-08 14:34:44# 127. lþ. 93.13 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[14:34]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Samfylkingin er ekki andvíg því í sjálfu sér að gera Rarik að hlutafélagi. Eins og hæstv. iðnrh. nefndi áðan er verið að búa fyrirtækið undir þá samkeppni sem koma skal á orkumarkaði og úr því að hæstv. ráðherra nefndi það sérstaklega hér, væri fróðlegt að fá að heyra það frá henni, hæstv. ráðherranum, hvernig gangi með raforkulagafrv., hvort til standi að það fari að birtast í einhverju formi þannig að hægt sé að taka það til umræðu í hv. iðnn. Ef ég man rétt var settur í það nokkur kraftur fyrir jólahlé að mæla fyrir frv. En við bíðum enn eftir því að þeim krafti verði fylgt eftir á þinginu og væri fróðlegt að vita hvað veldur að málið skuli ekki hafa komið hingað inn aftur.

Frv. gengur sem sagt út á það og röksemdirnar fyrir því að gera Rarik að hlutafélagi eru vel raktar í greinargerð með frv. Meginröksemdin, eins og ráðherra nefndi, er að þarna sé um að ræða hentugra rekstrarform fyrir rekstur sem þennan. Þetta snýst líka um það að um hlutafélagaformið hefur verið sett vel skilgreind löggjöf þar sem fram kemur skýr verkaskipting milli hluthafa- og aðalfunda, stjórnar og framkvæmdastjórnar. Ábyrgð ríkissjóðs á rekstri fyrirtækisins takmarkast við hlutafjáreign og ábyrgð stjórnenda eykst o.s.frv.

Í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur síðustu vikurnar um málefni Landssímans held ég að nauðsynlegt sé að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sjái ekki ástæðu til þess að sett verði sérstök löggjöf um hlutafélög í meirihlutaeigu ríkisins, kannski í anda þess sem gert hefur verið í Danmörku þar sem Danir stóðu frammi fyrir sama vanda og við þegar þeir voru að hlutafélagavæða sín stóru ríkisfyrirtæki, að það gekk ekki, skulum við segja, á einum degi upp að skilja á milli þessara tveggja forma. Hin pólitísku afskipti sem í raun er verið að reyna að forðast með hlutafélagaforminu eru til staðar áfram. Það virðist a.m.k. gerast og kannski er það ekkert óeðlilegt vegna þess að ríkissjóður er handhafi hlutabréfanna eða meiri hluta hlutabréfanna og það er ráðherra sem fer með þá handhöfn. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sjái ekki ástæðu til þess að skoða þetta, þ.e. að þetta verði skoðað í hæstv. ríkisstjórn því að miðað við röksemdirnar fyrir því að stofna hlutafélög, hvort sem það er um Rafmagnsveitur ríkisins eða önnur fyrirtæki, þá virðist sem ekki gangi að ná fram tilganginum með því einu að gera fyrirtækið að hlutafélagi. Áfram eru þessi pólitísku afskipti við lýði. Hlutafélagaformið virkar ekki í reynd eins og það á að gera. Ábyrgðin er ekki skýr og ekki nógu vel skilgreind á milli stjórnar og framkvæmdastjórnar, milli hluthafa- og aðalfunda o.s.frv. Því vil ég inna hæstv. ráðherra eftir því hvort það hafi kannski verið skoðað í ljósi umræðunnar um Landssímann að gera eitthvað slíkt. Mér er ekki nákvæmlega kunnugt hvernig Danir gerðu þetta en mér skilst að það hafi verið sett um þetta alveg sérstök lög, sérlög sem gilda almennt um hlutafélög að meiri hluta í eigu ríkisins.

Að öðru leyti ætla ég ekki að hafa mörg orð um þetta frv. að sinni nema ég tel mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra geri okkur grein fyrir því, og væntanlega munum við líka skoða það ítarlega í hv. iðnn., hvernig hagur starfsmanna þessa fyrirtækis verður tryggður. Hefur hæstv. ráðherra hafið einhverja undirbúningsvinnu að því hvernig best sé að tryggja réttindi starfsmanna við þessa yfirfærslu? Við skulum orða það þannig. Er verið að ræða við fulltrúa starfsmanna eða stendur til að ræða við fulltrúa starfsmanna um það hvernig þessi breyting mun koma niður á starfsmönnum og hvar þeirra réttur verður tryggður í því ferli? Þetta held ég að sé mjög mikilvægt, herra forseti, að sé gert því eins og við þekkjum gilda ólíkar reglur um réttindi starfsmanna annars vegar á almennum markaði og hins vegar á opinberum markaði og mjög mikilvægt er að ríkisvaldið standi ekki þannig fyrir skertum og hugsanlega lítt eða óbættum réttindum starfsmanna við slíka yfirfærslu. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig hún hafi séð það fyrir sér.

Að öðru leyti ætla ég ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. að sinni og geri ráð fyrir því að fá einnig frekari svör við ýmsum spurningum í hv. iðnn.