Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 14:40:46 (5850)

2002-03-08 14:40:46# 127. lþ. 93.13 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[14:40]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það vekur nokkra athygli og er umhugsunarefni að hæstv. iðnrh. leggur nú fram, þegar komið er alllangt fram í marsmánuð, frv. til laga um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins. Það bólar hins vegar ekkert á löggjöf, frv. um breytingar á skipulagi orkumála. Þó mun standa þannig á að 1. júlí nk. eiga Íslendingar að fullgilda hér að lögum og hér á að ganga í gildi orkutilskipun Evrópusambandsins, sú sem menn illu heilli kusu að undirgangast, en till. til þál. var tekin í gegnum þingið fyrir um ári til þess að heimila að falla frá svonefndum stjórnskipulegum fyrirvara á þessari ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þar með féllu niður möguleikar Íslands til þess endanlega eða síðustu möguleikar Íslands til þess að taka ekki upp þessa orkutilskipun.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að þar með undirgöngumst við, jafnfáránlegt og það nú er að ýmsu leyti vegna þess að Ísland er einangraður orkumarkaður og selur ekki orku til annarra landa, margs konar samkeppnisreglur sem innleiða á á orkusviðinu vegna einkavæðingar og samkeppni í orkumálum sem er auðvitað trúboðið í Evrópu eins og víðar, t.d. vestan hafs með alkunnum og glæsilegum árangri. Þetta þýðir að hér þarf að gera grundvallarbreytingar bæði á skipulagi orkumála, lagaumgjörð orkumála og fyrirtækjum sem starfa á þessum markaði.

Herra forseti. Umsvifalaust vaknar auðvitað sú spurning af hverju hæstv. ráðherra taki þetta í öfugri röð. Af hverju er verið að krukka í skipulag Rafmagnsveitna ríkisins áður en hér bólar á frv. um nýskipan orkumála? Í hvaða samhengi koma Rafmagnsveitur ríkisins til með að starfa eftir eitt ár, hálft ár, tvö ár eða hvenær það nú verður? Væri ekki nær að byrja á því að setja lögin, framtíðarlögin, leggja starfsgrundvöll og starfsumhverfi orkufyrirtækjanna niður með þeirri framtíðarlöggjöf sem uppfyllir þá skilmála orkutilskipunar Evrópusambandsins? Og svo geta menn snúið sér að því að skoða rekstrarform og skipulag einstakra fyrirtækja? Hér er augljóslega verið að fara aftan að hlutunum og taka þetta í vitlausri röð, herra forseti.

Það hljóta náttúrlega að vakna spurningar. Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin kemur ekki með þetta frv.? Hvar er það? Hvað veldur? Hvað dvelur orminn langa? Skyldi það vera svo að ríkisstjórnin ráði ekki við það, annaðhvort vegna pólitískra deilna innbyrðis eða vegna þess að stóriðjuáform ríkisstjórnarinnar ganga engan veginn upp ef fyrst á að vera búið að gera þær breytingar á skipulagi orkumála sem orkutilskipunin felur í sér, þar með talið og ekki síst að skipta upp Landsvirkjun í framleiðendaþátt og orkudreifingarþátt og innleiða samkeppnisreglurnar, opna samkeppni á notendamarkaði þannig að önnur orkufyrirtæki geti farið að keppa við Landsvirkjun um heildsölu á raforku til almenningsveitna, til Rafmagnsveitna ríkisins þar með talið og til almenningsveitna? Það skyldi ekki vera að þar væru óleyst, herra forseti, vandamál, svo stór í sniðum og erfið úrlausnar í ljósi þeirra gríðarlegu skuldbindinga sem fyrirtækin og sérstaklega Landsvirkjun hafa á herðunum vegna orkusölusamninga, núverandi og ég tala ekki um tilvonandi, til stóriðju, að það dæmi gangi ekki upp. Ætlar hæstv. ráðherra þá að reyna að lauma þessu frv. í gegnum þingið í fullkominni þögn um hvað bíði okkar að öðru leyti í þessum efnum? Það gengur auðvitað ekki. Það er algerlega fráleitt því að Rafmagnsveitur ríkisins og það hlutverk sem það fyrirtæki hefur með höndum í raforkudreifingu í landinu skiptir miklu máli og er mjög viðkvæmt vegna þess að það er dreifing orkunnar út á strjálbýlustu svæði landsins. Það skiptir aldeilis máli fyrir búsetuskilyrði á þeim svæðum hvernig það verk er af hendi leyst. Hvað verður um hluti eins og verðjöfnun á raforku og annað því um líkt í þessu nýja umhverfi?

[14:45]

Herra forseti. Ég tel í fyrsta lagi algerlega ótímabært að henda þessu frv. inn við þessar aðstæður og ráðherra á auðvitað ekkert annað að gera en að leggja það á ís þangað til spilin hafa verið lögð á borðið og hér er a.m.k. komið fram frv. sem sýnir þetta framtíðarstarfsumhverfi í orkugeiranum. Þá er hægt að fara að ræða þetta af einhverju viti og í einhverju samhengi en ekki fyrr.

Auðvitað er það allt saman algerlega fráleitt, herra forseti, að það frv. og sú lagasetning skuli ekki koma fyrst, áður en hvort heldur verður að Alþingi á að veita heimildir til virkjunar við Kárahnjúka eða til þess að breyta Rafmagnsveitum ríkisins í hlutafélag eða hvaðeina annað sem það væri sem lýtur að einstökum ákvörðunum á sviði orkumála við þessar aðstæður. Ætlar ríkisstjórnin að vanefna --- að trassa það að gera nauðsynlegar lagaráðstafanir til að uppfylla ákvæði orkutilskipunar Evrópusambandsins? Hvaða réttarfarslegar afleiðingar hefur það? Hvaða réttaráhrif hefur það í ljósi þess að búið er að falla frá stjórnskipulegum fyrirvara í kjölfar sérstakrar ályktunar Alþingis? Þessum spurningum, herra forseti, verður hæstv. ráðherra auðvitað að svara.

Síðan aðeins um það að breyta Rafmagnsveitum ríkisins í hlutafélag. Það setti næstum að mér hlátur, herra forseti, þegar ég heyrði í útvarpinu á dögunum haft einmitt eftir hæstv. iðnrh. í miðju Landssímamálinu tuggin upp helstu rökin fyrir því að breyta Rafmagnsveitum ríkisins í hlutafélag. Gamla ryðgaða einkavæðingarplatan glóðvolg úr smiðju frjálshyggjunnar var sett á fóninn og hæstv. iðnrh. varð ekki flökurt að fara með tugguna um það hvað þetta allt saman yrði miklu þægilegra, ábyrgara, skilvirkara, hagkvæmara, betra, óspilltara í hlutafélagaforminu. Og fengnir hafa verið lánaðir gömlu frasarnir frá einkavæðingarnefnd, frá Hreini Loftssyni & Co. og þeim smellt inn í greinargerðina á bls. 5 og þar eru tuggnar upp röksemdirnar fyrir því að breyta Rafmagnsveitum ríkisins í hlutafélag og segir þar, með leyfi forseta:

,,Meginröksemdin er sú að hlutafélagsformið er mun hentugra rekstrarform fyrir rekstur sem þennan en það rekstrarform sem nú er notast við, jafnvel þó að ríkissjóður sé einn eigandi að hlutafélaginu.``

Hvar er röksemdafærslan? Þetta er auðvitað þessi gamla fullyrðing út í loftið. Hvað er það sem er svona sérstaklega erfitt við rekstrarfyrirkomulag Rafmagnsveitna ríkisins í dag miðað við það hlutverk sem það fyrirtæki hefur og á að sinna? Er það að geta ekki stundað hlutabréfabrask eða borgað forstjóranum hærra kaup eða keypt undir hann dýrari jeppa eða keypt vandaðri ráðgjöf? Hvað er það sem sérstaklega háir Rafmagnsveitum ríkisins í dag? Vill hæstv. iðnrh. rökstyðja það?

Síðan segir: ,,Verður í þessu sambandi að hafa í huga að hlutafélagsformið er mjög fastmótað og þrautreynt.`` Það er nefnilega það, já. Þetta eru svo sem ekki nýjar fréttir kannski. En er ekki ríkisfyrirtækjaformið það líka? Er það ekki fastmótað og þrautreynt að reka ríkisfyrirtæki með skyldur og hlutverk eins og það getur verið að sjá þeim svæðum landsins sem ekki hafa eigin veitur eða virkjanir fyrir rafmagni? Er það ekki afmarkað og skilgreint hlutverk? Hafa engar efasemdir læðst að hæstv. iðnrh. Íslands eftir að hafa fylgst með því hvernig einkavæðing orkugeirans hefur leikið raforkumarkaðinn t.d. í Vesturheimi? Hæstv. ráðherra hefur sennilega ekki verið upptekin af því t.d. að lesa um Enron-hneykslið, lesa um orkumálin í Kaliforníu, lesa um orkumálin í New York fylki og annars staðar þar sem menn hafa lent í þvílíkum hremmingum og ógöngum þegar starfsemi af þessu tagi, sem í reynd býr eðli sínu samkvæmt við ákveðna landfræðilega eða ,,físíska`` einokun, hefur verið einkavædd þannig að menn hafa neyðst til þess að almannavæða aftur orkuveitur í hverju tilvikinu á fætur öðru, dæla í þær peningum til þess að tryggja að menn hefðu rafmagn. Hvað hafa menn orðið að gera í Kaliforníu? Og hvernig fór með Enron? Það var aldeilis að Enron ætti ekki að vera fáninn í einkavæðingu orkugeirans vestan hafs og Enron-menn voru svo seint sem á síðasta ári ráðgjafar Bandaríkjastjórnar í því hvernig ætti að móta hinn einkavædda orkugeira. Og hvernig tókst til?

Hver er reynslan af einkavæðingu veitnanna og orkuveitnanna í Bretlandi? Hún er herfileg. Hefur hæstv. ráðherra kynnt sér árangurinn af einkavæðingu og einkareknum orkufyrirtækjum á Nýja-Sjálandi? Veit hæstv. ráðherra hvernig menn hafa t.d. orðið að hlaupa þar undir bagga vegna þess að þar hafði verið byggður upp einn sameiginlegur orkumarkaður þar sem framleiðslan var að miklu leyti á suðureyjunni en stærstu markaðarnir á norðureyjunni? Þegar þetta var einkavætt og brotið upp þá skutu upp kollinum alls konar vandamál sem enginn hafði áttað sig á áður vegna þess að þau voru leyst í hinu samtengda og sameiginlega orkukerfi landsins. Svo brotnar það sundur með einkavæðingu. Allt í einu situr framleiðslan á einum stað en markaðurinn á öðrum og það er allt í hafaríi, þriðji aðili kominn með rekstur dreifikerfisins o.s.frv. Verst fóru sveitirnar og strjálbýlið að sjálfsögðu út úr einkavæðingunni í því tilviki eins og öðru.

Síðan koma alveg dásamlegar þenkingar, herra forseti, í þessari klisjuupptalningu í greinargerðinni þegar þær eru lesnar saman við afrekin í hinum ,,háeffuðu`` fyrirtækjum ríkisins á undanförnum árum. Ég man hvað stóð í greinargerðinni um einkavæðingu Landssímans og ég man hvað stóð í skýrslum einkavæðingarnefndar um það, hvað þetta yrði allt saman sveigjanlegt og þægilegt. (Gripið fram í.) Og það var svo þungt í vöfum, ákvarðanatakan svo seinvirk. Já, menn þurftu að geta verið fljótir að ákveða svona hluti eins og að fjárfesta í IP Bell o.s.frv. Það vantaði ekki. Það þurfti ekki stóran fund með fjölmiðlum og hann þurfti ekki að standa lengi þegar strákarnir fóru að leika sér með peningana okkar og tapa þeim. Hér stendur að í löggjöf, hinu þrautreynda og fastmótaða hlutafélagsformi sem ráðherra talar um, sem um það hefur verið sett, þ.e. hlutafélagsformið, er vel skilgreind verkaskipting milli hluthafa- og aðalfunda, þ.e. eigandans, ráðherrans. Hvar var verkaskiptingin þegar verið var að gera starfslokasamningana? Síðan kemur: ... stjórnar og framkvæmdastjórnar. Ja, heyr á endemi. Það er ekki eins og ríkisstjórn Íslands hafi mikið skammast sín og séð að sér eftir einkavæðingarklúðrið. Menn trúa klisjunum eða setja þær a.m.k. niður á blað gagnrýnislaust og fyrirvaralaust með allt á hælunum og ekki vantar að það voru hlutafélagalög og verkaskipting milli aðalfundar og stjórnar, framkvæmdastjóra. En hvernig gekk það í reynd? Ráðherrann var með puttana í því sem honum sýndist, svarar því þegar honum hentar að öll stjórnsýslutengsl milli ríkisins og fyrirtækisins hafi verið rofin en kássast svo í því sem honum sýnist. Það er niðurstaðan. Svo koma menn hér, herra forseti, og setja svona blaður á prent, hæstv. iðnrh.

Áfram mætti halda. Í 3. tölul. er það sérstaklega talið til ágætis þessu að með því að reka Rafmagnsveiturnar í hlutafélagsformi verði reksturinn sveigjanlegri. Reksturinn sveigjanlegri. Ja, það verður sennilega fljótlegra að henda út peningum, sveigjanlegra þetta með starfskjörin og fríðindin, jeppann og fjárfestingar í öðrum hlutafélögum. Og minna aðhald. Lok, lok og læs og allt í stáli ef mönnum skyldi detta í hug hér á Alþingi á komandi tíma að biðja um upplýsingar um hlutafélagið Rafmagnsveitur ríkisins, þá hleypur allt í vörn, allt í leynd, allt leyndó. Og þá verður að treysta á að það verði einhver lítill maður í Rafmagnsveitunum til að upplýsa um hluti ef á þarf að halda.

Það vantar náttúrlega ekki að þetta stuðli að nýjungum í rekstri. Nýjungar í rekstri verða auðveldari í framkvæmd. Nýjungar í rekstri reyndust heldur betur auðveldari í framkvæmd í Landssímanum. Og ,,fjárhagsleg uppbygging fyrirtækisins sem hlutafélags stuðlar að aukinni hagræðingu og hagkvæmni í rekstri``. Já. Við höfum heldur betur séð það hvernig ,,háeffunin`` stuðlar að aukinni hagræðingu og hagkvæmni í rekstri. Það blasir aldeilis við okkur, er það ekki? Nú er ég ekki að segja að þetta geti ekki gerst en ég segi: Það er algerlega barnalegt að setja þessa texta svona frá sér í ljósi þess sem gerst hefur fyrirvaralaust eins og um náttúrulögmál sé að ræða. Það er eins og sanntrúaðir menn telji sig hafa frá guði almáttugum óskeikul lögmál sem ekki þurfi að rökstyðja, ekki þurfi að rökræða. Þegar reynslan segir hið gagnstæða, a.m.k. í ákveðnum tilvikum, er það þá trúverðugt að menn gangi svona fram? Væri ekki betra að hæstv. ráðherra rökstyddi þetta með einhverjum öðrum og hógværari hætti ef menn telja þessa kerfisbreytingu nauðsynlega af einhverjum ástæðum?

Síðan kemur í 4. tölulið og það er kannski rúsínan í pylsuendanum, það gæti verið að eitthvert hik hafi runnið á menn með að boða grímulausa einkavæðingu Rafmagnsveitna ríkisins. Það er ekki gert með beinum hætti. Það er ekki sagt að til greina komi að selja á næstu árum. Því er heldur reyndar ekki lofað að gera það ekki. Það er framför því að venjan hefur verið að lofa að gera það ekki og svíkja það svo. Það hefur nánast verið reglan þegar einkavæðingin hefur verið undirbúin á undanförnum árum og fyrirtækjum breytt í hlutafélög. Dæmi: Landssíminn. Dæmi: Bankarnir. Það voru gefin loforð á Alþingi um að hrófla ekki við eignarhaldinu. Í Símanum var sagt að það yrði bara gefið út eitt hlutabréf til þess að ekki væri hægt að skipta því upp. Bankarnir, engin sala fyrstu fjögur árin. Þau loforð voru ekki orðin köld þegar þau voru svikin. Hér er að vísu engu slíku lofað en gefið undir fótinn með að hefja einkavæðingu með því að leita eftir nýjum hluthöfum. Það er sagt í 4. tölul. röksemdafærslunnar fyrir því að breyta Rafmagnsveitunum í hlutafélag.

Herra forseti. Ég tel hins vegar og vil láta það koma fram að það skipulag sem við höfum búið við að þessu leyti og er fólgið í núverandi verkaskiptingu milli Rafmagnsveitna ríkisins, annarra orkufyrirtækja og veitna og svo Landsvirkjunar, er ekki gott. Rafmagnsveitur ríkisins sitja eftir með erfiðasta hlutskiptið og það er ekki í þágu hagsmuna þeirra sem verða að reiða sig á viðskipti við það fyrirtæki. Rarik situr eftir með nánast enga framleiðslu en það verkefni að kaupa af öðrum orkuna í heildsölu og dreifa henni út á strjálbýlustu og erfiðustu markaðssvæði landsins. Það er auðvitað erfitt hlutskipti. Ég held að annað tveggja hefði verið betra, að Rarik hefði fengið að vera með mun meiri eigin framleiðslu eða við hefðum stokkað þetta kerfi upp og sameinað framleiðendaþáttinn hjá Rafmagnsveitum ríkisins og Landsvirkjun og þá í ljósi þeirra breytinga sem hvort sem er stendur til að gera í orkugeiranum, stofna eitt dreifingarfyrirtæki um orkurekstur línukerfanna. Þá á að sjálfsögðu að taka línukerfi Landsvirkjunar og Rariks þar saman. Það eru engin rök fyrir því að skipta þessu upp eins og gert er í dag og það er ekki hagstætt.

Hinn kosturinn væri að stofna landshlutaveitur, stofna orkubú í landshlutum sem hefðu svipaða stöðu og svipað hlutverk og Orkubú Vestfjarða hefði haft, hefði það nú fengið að vera í friði, og skilað sínu verkefni ágætlega. Það hefði verið og væri líka vissulega freistandi kostur. En ég held að það sé eins og hvert annað spark út í loftið, hvert annað klór og fálm í myrkri meðan lög hafa ekki verið sett og hið nýja skipulag hefur ekki komið til sögunnar að fara út í það eitt og sér að breyta Rarik í hlutafélag sem er auðvitað í raun og veru bara hálfkák út í loftið, ekki í tengslum við neina stefnumótun eða endurskipulagningu þessara mála.

Hæstv. ráðherra kom með þau stórtíðindi fyrir einhverju síðan að flytja ætti Rarik til Akureyrar, höfuðstöðvar Rariks. Það gæti vel verið skynsemi í því að stokka upp t.d. raforkumálin á norðan- og austanverðu landinu þannig að stofnað yrði öflugt landshlutafyrirtæki og Rarik kæmi inn í þá mynd. En það gerist ekki eitt og sér með því að búa til eitthvert hlutafélag út í loftið úr Rarik. Ég held að menn ættu betur að láta það bíða og takast á við stóru drættina í þessum málum, lögfesta skipulagið. Hvernig verður þetta til framtíðar litið þannig að fyrirtækin Rarik, Orkuveita Reykjavíkur, Hitaveita Suðurnesja og aðrir aðilar sem kunna að vilja spreyta sig í þessu nýja umhverfi viti allir að hverju þeir ganga. Þetta er að byrja á öfugum enda og er auðvitað alveg röng nálgun, herra forseti, fyrir utan það að hér skuli enn ganga aftur þessi blinda, hráa trú frjálshyggjunnar á óskeikulleik og guðdómleik þess að ,,háeffa`` fyrirtæki sem er náttúrlega eins og argasti brandari að lesa ofan í það sem á undan er gengið síðustu vikur og mánuði, herra forseti. Þeim er ekki klígjugjarnt sem setja slíka texta á blað fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, verð ég að segja, að láta þarna eins og ekkert sé og setja slíka texta frá sér.

Ég tel, herra forseti, að það sé tímasóun og algerlega fráleitt að ætla nefndum þingsins að fara að vinna í þessu máli fyrr en hæstv. ráðherra hefur komið frá sér orkulagafrv. og eitthvað hefur skýrst um framhald þessara mála.