Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 15:05:25 (5853)

2002-03-08 15:05:25# 127. lþ. 93.13 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[15:05]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. ber sig illa yfir andsvari mínu áðan og það má kannski kalla það að gjalda í sömu mynt. En hvað varðar nýtt frv. um hið nýja umhverfi raforkumála þá reikna ég með að því verði dreift í þinginu í næstu viku eða a.m.k. í þar næstu viku. Hv. þm. þekkja það mál nokkuð vel vegna þess að því hefur verið dreift hér áður og hv. iðnn. hefur fengið tækifæri til þess að fjalla um málið. Það er rétt að þar eru miklar breytingar gerðar á raforkukerfi okkar. Það hefur verið umfangsmikið að vinna þetta verk og undirbúa frv. Ég vona að það fái góðar móttökur í þinginu.

Það sem hv. þm. gerði að umtalsefni m.a. var að það kæmi sér betur, heyrðist mér, fyrir landsbyggðina ef þar væru ákveðnar landshlutaveitur. Ég ætla ekki að fullyrða að það sé neitt fáránlegt. Hins vegar breytir það því ekki að það form sem Rarik hefur verið rekið í, sem sagt sem ríkisfyrirtæki, er ekki besta aðferðin við að reka fyrirtæki. Ég get alveg kinnroðalaust talað um það hér að ég tel að þetta fyrirtæki eigi betur heima í umhverfi hlutafélagaformsins. Þess vegna er þetta mál flutt. Það tengist ekkert nákvæmlega því að við séum að fara út í breytt raforkulagaumhverfi. Það er ekki svo. Ég skil hins vegar vel að hv. þingmenn vilji fara að sjá hið nýja frv. til nýrra raforkulaga.