Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 15:07:16 (5854)

2002-03-08 15:07:16# 127. lþ. 93.13 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[15:07]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki svo að ég kveinki mér yfir aumlegum andsvörum hæstv. ráðherra. Ég hef satt best að segja gaman af þeim. Ég geri mér það bara að íþrótt að vekja athygli á því hversu hróplega mótsagnakennd framganga hæstv. ráðherra var hér áðan, að saka aðra menn um ómálefnalegan málflutning og leggjast svo jafnlágt og hæstv. ráðherra gerði í stuttu andsvari er hún tíndi til alls konar klisjur og eignaði mér sem hvergi var að finna í ræðu minni.

Ég minntist lítið á Stalín eða orkubúskap hans (Gripið fram í.) svo dæmi sé tekið. Sameignarfélög eða samvinnufélög bar aldrei á góma og annað þar fram eftir götunum.

Hæstv. ráðherra neyddist til að viðurkenna að kannski ætti nýskipan orkumála eitthvert erindi inn í þetta samhengi og það er framför. En það var í véfréttastíl boðað að eftir viku, í næstu viku eða þar næstu viku kynni þetta frv. að líta dagsins ljós hér á þinginu. Ég segi að við ættum þá að bíða eftir því. Það er ekki víst að það eigi greiða leið í gegnum þingið á þeim örfáu vikum sem þá verða eftir af starfstíma Alþingis á þessu vori því ekki er eins og þar séu smámál á ferðinni.

Það sem ég nefndi í sambandi við stöðu Rarik-svæðanna var ósköp einfaldlega þetta: Núverandi fyrirkomulag er ekki gott og hefur ekki verið. Það hefur farið versnandi með því að verðmætir markaðir hafa gengið undan Rafmagnsveitum ríkisins sem áður hjálpuðu til við að jafna út kostnaðinum af dreifingu raforkunnar út á strjálbýlu svæðin. Það fór t.d. vænn spónn úr aski Rariks þegar Suðurnesin gengu undan þeim markaði. Þar af leiðandi nefndi ég tvo kosti í stöðunni sem ég tel að báðir kæmu til greina, annars vegar að stokka upp og sameina framleiðsluþátt og dreifingarþátt Rafmagnsveitnanna og Landsvirkjunar. Það væri einn kostur sem ætti einmitt að skoða í samhengi við nýskipan orkumála. Hinn kosturinn væri landshlutaveitur eða landshlutaorkubú. Ég tel að báðir þessir kostir komi vel til greina og gætu hvor um sig verið hagkvæmari fyrir landsbyggðina og strjálbýlið en það fyrirkomulag sem við búum við núna.