Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 15:15:33 (5858)

2002-03-08 15:15:33# 127. lþ. 93.13 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[15:15]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er ákaflega gaman að taka þátt hér í rökræðum við framsóknarmenn sem eru orðnir svo sanntrúaðir og heilagir hlutafélagasinnar að það kemst engin önnur hugsun að í þeirra kolli. Einhvern tíma hefði nú einn og einn framsóknarmaður munað eftir því að til væri mögulegt samvinnuform. Það væri hugsanlega spennandi að sjá hvort samvinnuformið gæti gengið í endurnýjun lífdaga og tekið þátt í endurskipulagningu orkumarkaðarins. (HjÁ: ... ég spurði.)

Ég skal svara spurningu hv. þm. Það eru mýmörg og einmitt nærtæk fordæmi fyrir því hvernig þetta gæti gerst. Ég held að eðlilegasta leiðin væri sú að til yrði sameignarfélag ríkisins og viðkomandi sveitarfélaga um þau orkubú eða þær svæðisveitur sem til yrðu. Dæmið er nú nærtækt, þ.e. Landsvirkjun. Landsvirkjun er sameignarfélag ríkisins, Reykjavíkurborgar og Akureyrar. Af hverju? Af því að þessir aðilar lögðu saman eignir sínar, Akureyri Laxárvirkjun, Reykjavík Sogsvirkjanirnar og ríkið sitt og úr varð sameignarfélag þessara aðila (HjÁ: Á að þvinga Hitaveitu Suðurnesja ...?) sem hefur gengið ágætlega. Hitaveita Suðurnesja er ekkert endilega á leið inn í þetta dæmi. Þetta gæti prýðilega gerst t.d. þar sem orkuveitur og orkufyrirtæki eru enn í óskiptri eigu sveitarfélaga auk þess sem má hugsa sér ýmsar fleiri aðferðir í þessu sambandi. Ég er ekki að bannfæra hlutafélagaformið. Það getur vel verið að það yrði niðurstaðan að búa þetta til sem hlutafélag úr þegar starfandi fyrirtækjum af hálfu sveitarfélaganna og ríkisins. Það er ekkert bannorð í mínum huga. Aðalatriðið er að menn séu ekki að einkavæða þessa þjónustu þannig að einhverjir einkaaðilar fari að hirða út úr henni arð, verðið hækki og allt fari svo á rassgatið eins og gerst hefur t.d. í Vesturheimi. Þannig þróun viljum við ekki sjá. Það eru því engin sérstök vandkvæði í þessu sambandi og að breyta Rafmagnsveitunum í hlutafélag er alls ekki endilega heppilegasti undirbúningur undir það. Gáfulegast er auðvitað að láta fyrirtækið þá bíða í óbreyttri stöðu þangað til framtíðin skýrist.