Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 15:57:31 (5861)

2002-03-08 15:57:31# 127. lþ. 93.13 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[15:57]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins. Ég verð að segja, herra forseti, að ég veit ekki hvort á að dást að kjarkinum eða láta í ljós vonbrigði við dómgreindarleysinu að bera þetta frv. fram núna þessa dagana. Þessa dagana þegar við erum að fjalla um hvert stjórnsýsluhneykslið á fætur öðru í hlutafélagavæddum og einkavæddum ríkisfyrirtækjum. Ég veit ekki hvort á að dást að hugrekkinu eða harma dómgreindarleysið. Það ganga meira að segja hnútuköst á milli ráðherra og einstakra þingmanna stjórnarliðsins, milli hæstv. forsrh., Davíðs Oddssonar, og hv. formanns þingflokks framsóknarmanna um hvort það eigi að láta þá framsóknarmenn sem núna sitja í stjórn Landssímans fá að sitja þar áfram eða ekki. Þetta er það sem umræðan snýst um í dag.

Mér finnst það vera býsna mikil kokhreysti að koma síðan með frv. af þessum toga, að ganga í spor hlutafélagavæðingar Landssímans. Það er ekki von á góðu, herra forseti, þegar dómgreindin hjá hæstv. ríkisstjórn, og hæstv. iðnrh. er með þeim hætti sem hún birtist okkur þessa dagana. Hefði málið ekki mátt aðeins kólna, hefði ekki mátt ljúka aðalfundi Landssímans sem hefur verið flýtt til þess að ljúka þeirri deilu sem núna er á milli stjórnarflokkanna um það hvort þingmenn Framsfl. skuli fara út úr stjórninni á Landssímanum eða ekki. Mér finnst þetta vera kokhreysti.

[16:00]

Herra forseti. Lítum á 3. gr. þessa frv. til laga þar sem stendur, með leyfi forseta: ,,Við stofnun skulu öll hlutabréf í hlutafélaginu vera eign ríkissjóðs.`` --- Og svo stendur: ,, Iðnaðarráðherra fer með eignarhlut ríkisins í hlutafélaginu.`` Hvað ætli sé langt síðan þessi texti var saminn? Hann hefur a.m.k. ekki verið saminn í gær því þá hefði þetta ekki staðið, geri ég ráð fyrir. Nei. (Iðnrh.: Hef ég eitthvað gert af mér?) Ekkert gert af þér? Nei, hæstv. ráðherra gerir náttúrlega ekkert af sér, hæstv. ráðherra er persónulega heiðvirð eftir því sem ég best veit. En við skulum samt ekki loka augunum fyrir þeirri umræðu sem á sér stað þessa dagana um heitustu málin í þjóðfélaginu. Það þýðir hvorki fyrir hæstv. ráðherra né aðra sem fara með stjórn í landinu að skella skollaeyrum við því sem sagt er og lagt til. Var það ekki einmitt hæstv. samgrh. sem greindi í ræðustól á hinu hv. Alþingi frá því að lagt hefði verið til við hann, hæstv. ráðherrann, að hlutabréfið og meðferð hlutabréfsins í Landssímanum færi undir fjmrh.? Var það ekki hæstv. samgrh. sem gat um það hér? Sagði hann það ekki óheppilegt að fagráðherrann, sá ráðherra sem færi með hin faglegu málefni, færi með eftirlit, stjórnsýslu hins faglega hluta málsins, færi jafnframt með hlutabréfið? Ég veit ekki betur en að þessum tilmælum hafi verið nokkuð vel tekið í þeirri erfiðu stöðu sem ríkisstjórnin var í þar sem því var berlega lýst yfir að hún treysti ekki hæstv. samgrh. til að fara með bréfið. Er eitthvað eðlilegra að hæstv. iðnrh. fari með hlutabréf í Rarik? Hæstv. iðnrh. hefur jafnframt hinar faglegu skyldur gagnvart dreifingu á raforku og öryggi hennar um allt land. Þar liggja hinar faglegu ábyrgðir hæstv. ráðherra.

Eru ekki hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar brenndir á því hvernig málum hefur til þessa verið hagað? Á engan lærdóm hér af að draga? Þetta er fyrir mér, virðulegi forseti, alveg furðulegt dómgreindarleysi. Það hefði ábyggilega verið svigrúm þótt ekki væri nema að breyta þessari grein í ljósi umræðnanna sem nú hafa farið fram. Fagráðherranum er ekki treyst til að fara með hlutabréf Landssímans og hví skyldi þá sú kvöð lögð á hæstv. iðnrh. að axla þá ábyrgð sem ekki hefur verið talið rétt að fela öðrum ráðherra? Ég bendi á þetta og vil inna hæstv. iðnrh. eftir því hvort þetta hafi ekki komið til tals í ríkisstjórn. Hvers vegna á að fela hæstv. iðnrh. að fara með eignarhlut ríkisins í Rarik þegar hæstv. samgrh. er ekki trúað fyrir slíku lengur, og lagt er til að eignarhluturinn fari undir fjmrh. til að forðast hagsmunaárekstra? Flumbrugangurinn og dómgreindarleysið við samningu þessa frv. er með endemum.

Nú skyldum við ætla, virðulegi forseti, þegar flutt er frv. um svo veigamiklar breytingar á mikilvægu þjónustufyrirtæki eins og Rafmagnsveitum ríkisins að verið sé að gera það vegna þess að eitthvað sé að, úr einhverju þurfi að bæta, eitthvað hafi farið úrskeiðis. Það hlýtur að vera einhver þörf. En sú þörf hefur ekki verið nefnd hér. Ekki hefur verið nefnt að neitt stórvægilegt sé að. Jú, það er vitað að fjárhagur Rariks er ekki góður, að kvaðirnar um að dreifa rafmagni um allt land geta verið fyrirtækinu erfiðar og að ríkið hefur hvað eftir annað þurft að koma með fjármagn inn í fyrirtækið til að stuðla þar að jöfnuði á raforkuverði til einstakra neytenda. Það er vitað en mér vitanlega er ekki um nein hneyksli að ræða, nein stjórnunarhneyksli eða stjórnunarvandamál eða rekstrarhneyksli eða rekstrarvandamál. Annars væri ágætt að hæstv. ráðherra upplýsti okkur, ef þarna væri verulegur stjórnunarvandi á ferðum. En ég hef ekki heyrt minnst á slíkt. Og þegar gengið er til svo veigamikilla grundvallarbreytinga á lagaumhverfi svona mikilvægrar þjónustustofnunar og þjónustuviðfangsefnis eins og Rafmagnsveitur ríkisins eru, grundvallarbreytinga á rekstrarumhverfi þess, hlýtur það að verða að vera af einhverjum ástæðum, að eitthvað sé að, en það hefur ekki verið nefnt. Hins vegar er næg reynsla, eins og vikið er að í frv., af þessari hlutafélagavæðingu á almannaþjónustufyrirtækjum og hún er býsna kotroskin í umræðu þessara daga, setning sem stendur á bls. 5, og sem ég les nú með leyfi forseta: ,,Verður í þessu sambandi að hafa í huga að hlutafélagsformið er mjög fastmótað og þrautreynt.``

Jahá, það er svo rækilega þrautreynt. Er ekki allur Landssíminn og rekstrarumgjörð hans, einkavæðingarnefnd og stjórn Landssímans, þessa hlutafélagavædda fyrirtækis, í skoðun hjá Ríkisendurskoðun? Hefur fátt verið meira umtalað undanfarna daga en hylmingar og áburður einstaklinga sem þar hafa verið í stjórnum eða forsvari, áburður hvers á annan um að hafa ekki gefið upplýsingar eða komið fram á fullnægjandi hátt við stjórnun fyrirtækisins. Ræddum við ekki einmitt nýverið þáltill. um að skipa sérstaka rannsóknarnefnd um málefni Landssímans, það sem gerst hefur í stjórnun hans og meðferð á því valdi sem stjórnendum hefur verið falið? Og það er býsna kotroskið að koma með svona frv. beint í kjölfarið.

Ég man ekki betur, virðulegi forseti, en þess sé einmitt getið í áliti Ríkisendurskoðunar að gjalda beri varhuga við því að vera með ríkisfyrirtæki með ráðherraskipuðum stjórnum. Það bjóði upp á hagsmunaárekstra og óeðlilega stjórnsýslu eins og við höfum upplifað með Landssímann. Það er býsna kotroskið að fara sömu leið.

Í þessu frv. til laga um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins er hvergi að finna setningu sem gefur til kynna í hvaða átt ríkisstjórnin stefnir í þjónustumálum, í raforkumálum. Hvernig á að efla og styrkja dreifingu rafmagns út um land, hvernig á að lækka verð þar til neytenda, hvernig á að efla og auka framboð á þriggja fasa rafmagni úti um sveitir landsins sem vitað er að háir verulega allri starfsemi þar? Það er ekki orð um þjónustu eða þjónustuskyldur í þessa veruna. Hins vegar er rækilega tíundað að gjaldskráin skuli taka mið af arðsemissjónarmiðum. Já, það vantar ekki að þar liggur krafan skýr. En hvað gerist þegar neytendur norður og austur um land fara að spyrja sig: Hvar stendur í þessu frv. að þjónustan við okkur eigi að batna eða verðið að lækka? Ekki eitt einasta orð stendur þar um það.

Þegar stofnað er hlutafélag um þjónustu sem þessa er það til þess að í því verði til hlutabréf og þau hlutabréf geta verið eitt eða fleiri í áföngum eins og hér er vikið að á bls. 5 í frv., í 4. gr. Þar er þess getið að nýir hluthafar geti komið inn í fyrirtækið, og það gerist ekki nema með því að þeir fái þá hlut og hlutabréf í viðkomandi fyrirtækjum. Það er því ljóst varðandi þetta hlutabréf sem talað er um að sé bara eitt í fyrstunni að náttúrlega er ætlunin að þau verði fleiri og verði til ráðstöfunar.

Þegar maður stofnar hlutafélag er það, eins og kemur rækilega fram í frv., í fyrsta lagi til að geta gert skilgreindar arðsemiskröfur og vikið sér undan þjónustukröfum. Það er númer eitt enda kemur það fram í þessu frv.

Í öðru lagi stofnar maður hlutafélag til þess að geta selt hlutabréf. Þessi ferill sem hér er því verið að hefja með því að leggja til að Rafmagnsveitur ríkisins verði gerðar að hlutafélagi er bara skref til einkavæðingar þessa fyrirtækis og þessarar þjónustu, einkavæðingar sem ef að líkum lætur og ýjað er að verður síðan seld, og væntanlega hæstbjóðanda. Þá er engin trygging fyrir því að það verði hérlendur kaupandi. Hann getur orðið erlendur. Við þekkjum söguna um Landssímann. Þar hófst það með nákvæmlega sama hætti. Það var nauðsynlegt að hlutafélagavæða Landssímann. Ekki átti að selja hann. Eitt bréf í hendi samgrh. og bara að bæta rekstrarumgerðina og rekstrarskilyrðin en að öðru leyti átti hlutafélagavæðingin ekki að hafa nein áhrif. En hvað varð síðan? Jú, næsta skref var að heimila sölu á Landssímanum, og meira að segja nánast gert að skilyrði eða haft að markmiði að selja ráðandi hlut hans úr landi. Það var meira að segja talin forsenda fyrir því að salan heppnaðist, eins og það var kallað, að selja ráðandi hlut úr landi.

Eru nokkrar líkur til þess að eitthvað annað vaki fyrir hlutafélagavæðingu á Rafmagnsveitum ríkisins? Nei, það eru engar líkur til annars en að svo verði.

Það er fróðlegt, herra forseti, að líta á umsagnir fjmrn. og fjárlagaskrifstofunnar. Ég leyfi mér hreinlega að inna hæstv. iðnrh. eftir því hvort hún hafi í raun lesið umsögnina sem þar er því að hún er á vissan hátt mjög afgerandi. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt samningi milli fjármálaráðherra, iðnaðarráðherra og Rafmagnsveitna ríkisins frá janúar 1995 við yfirtöku lána skulu Rafmagnsveitur ríkisins greiða arð í ríkissjóð, sem nemur tveimur hundraðshlutum af bókfærðu eigin fé við næstliðin áramót. Vegna þessa ákvæðis mun arðgreiðsla, til ríkissjóðs nema 214 millj. kr. árið 2002.``

[16:15]

Var þetta fyrirtæki aflögufært? Er það aflögufært í dag? Hvernig á það að fjármagna þessar arðgreiðslur? Jú, það á ekki möguleika á að fjármagna þær á annan hátt en að hækka verð á rafmagni til notenda eins og kemur fram í umsögninni, taka aukin lán til þess að skila þeim arði sem þarna er krafist. Þjónustuskyldan, hvergi er í umsögn fjmrn. minnst á að fyrirtækið hafi neinar þjónustuskyldur. Nei, hins vegar hefur það arðsemiskröfu. Það hefur arðsemiskröfu. Er þetta nú sjónarmið og sýn sem hæstv. iðnrh. vill fara með út um byggðir landsins þegar hæstv. ráðherra fer að kynna tillögur sínar um breytingar á rekstrarumgjörð Rariks? Þjónustan er háð því að hún kemur á eftir arðsemiskröfunni, enda er hún ekki nefnd á nafn.

Í umsögn fjmrn. er líka tekið fram, með leyfi forseta, að:

,,Rarik hefur verið rekið með tapi undanfarin ár og hefur því tvisvar á sl. fimmtán árum verið mætt með yfirtöku ríkissjóðs á hlut af skuldum fyrirtækisins. Í sjóðstreymis\-áætlun er gert ráð fyrir að taka þurfi 480 millj. kr. rekstrarlán árið 2002 og 415 millj. kr. lán árið 2003 vegna tapreksturs fyrirtækisins.``

En samt á að krefja það um arð, 214 millj. kr. árið 2002.

Og áfram segir í umsögn fjmrn. þar sem talað er á margan hátt skýrar en gert er í frv. sjálfu:

,,Gert er ráð fyrir að í frumvarpi til raforkulaga verði lagt til að tapi vegna óarðbærs reksturs verði mætt með sérstöku gjaldi á raforkuvinnslu til almenningsnota.``

Það er alveg klárt hver á að borga. Það er almenningur. Er þetta sú sýn sem hæstv. ráðherra ætlar að leggja hér á borð fyrir neytendur?

Herra forseti. Mig tekur sárt að sjá hvernig hæstv. iðnrh., ráðherra Framsfl., gengur hér erinda hömlulausrar einkavæðingar í almannaþjónustu, almannaþjónustu sem er svo mikilvægur hluti af grunnþjónustu fyrir landsmenn alla.