Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 16:17:45 (5862)

2002-03-08 16:17:45# 127. lþ. 93.13 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[16:17]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú leitt ef hv. þm. tekur það svona nærri sér að ég skuli leggja þetta frv. fram. Mér heyrðist það á lokaorðum hans. Hann talaði þó fyrir því í upphafi ræðu sinnar að betur færi á því að fjmrh. færi með þetta hlutabréf en iðnrh. Hann virtist því ekki treysta iðnrh. mjög vel fyrir því. Ég skildi það þannig.

Það sem mér finnst vera alveg grundvallarmisskilningur í málflutningi hv. þm. og annarra hv. þm. Vinstri grænna, er að þeir telja að með því að breyta Rarik í hlutafélag sé verið að skerða þjónustu við landsmenn. Svo finnur hv. þm. að því í lok ræðu sinnar að það eigi að taka á hinum óarðbæru einingum í raforkukerfinu með sérstöku gjaldi þannig að því verði dreift á alla. Hann er að tala gegn því að þessi kostnaður sem fellur á dreifðustu byggðirnar verði leystur með almennu gjaldi. Ég skil hann ekki öðruvísi. Það rekur sig hvað á annars horn í málflutningi hans.

Hann talar um þennan gamla samning um arðgreiðslur sem núna á að afnema vegna þess að við erum að breyta þessu fyrirtæki í hlutafélag. Það er að fara inn í nýtt raforkulagaumhverfi þar sem fyrirtækið getur ekki borið þennan kostnað og getur ekki staðið undir kröfu um arðgreiðslur. Þess vegna er það afnumið. Það kemur fram í umsögn fjmrn. að fyrirtækið hefur verið rekið með tapi og að þurft hefur að yfirtaka skuldir með einhverju ára millibili vegna þessara óarðbæru eininga sem nú á að taka frá fyrirtækinu þannig að það þurfi ekki lengur að standa skil á þeim.

Í sjálfu sér heyri ég því ekkert hvað sé að málinu, en menn tala hér auðvitað um Landssímann í pólitískum tilgangi.