Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 16:21:51 (5864)

2002-03-08 16:21:51# 127. lþ. 93.13 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[16:21]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta mál er ekki eins umfangsmikið og hv. þm. eru að reyna að láta líta út fyrir því einungis er um það að ræða að breyta þessu fyrirtæki í hlutafélag. Það er nú ekki stærra en það. Hlutafélagaformið þekkja allir. Eru hv. þm. á móti því að fyrirtæki séu rekin í þessu rekstrarformi? Ég skil þá þannig. Og hvaða form á þá að nota? Þá á bara ríkið að eiga fyrirtæki í samkeppnisrekstri eins og þetta fyrirtæki kemur til með að vera, það er þá bara gamla fyrirkomulagið og engu má breyta. Þetta er málflutningurinn sem ég er ósammála. Ég tel að þetta fyrirtæki eigi heima í því rekstrarformi sem kallað er hlutafélagaform. Svo einfalt er nú þetta.

Þessi málflutningur er settur hér fram einungis til þess að reyna að villa um fyrir fólki og villa um fyrir hv. þingmönnum, um að hér sé einhver stórkostleg breyting á ferðinni sem muni þýða skerta þjónustu á landsbyggðinni og ég veit ekki hvað og hvað, þegar einmitt er verið að taka á því vandamáli sem dreifðu byggðirnar hafa átt við að stríða í sambandi við þann mikla rekstrarkostnað sem allir sjá að er samfara því að reka raforkukerfi í dreifðustu byggðunum. Það er verið að taka á þessum vanda. Þá koma Vinstri grænir og eru á móti.