Lánshæfi Íslands

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 15:16:33 (5872)

2002-03-11 15:16:33# 127. lþ. 94.1 fundur 391#B lánshæfi Íslands# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[15:16]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil beina spurningum til hæstv. forsrh. vegna frétta sem borist hafa af því að undanförnu að fleiri en eitt matsfyrirtæki hafi breytt lánshæfiseinkunn eða lánshæfismati Íslands. Þannig hefur fyrirtækið Fitch nýlega endurmetið álit sitt á lánshæfi Íslands og breytt lánshæfiseinkunn vegna langtímalána en þar eru nú horfur taldar neikvæðar en voru áður stöðugar.

Hér koma að sjálfsögðu til hinar gríðarlegu erlendu skuldir þjóðarbúsins sem hafa aukist. Það gerðist á sl. hausti að erlendar skuldir fóru í fyrsta sinn fram úr landsframleiðslu og nú um áramótin eru erlendar skuldir tæplega 270% af útflutningstekjum landsins. Það tæki með öðrum orðum meira en tveggja og hálfs árs útflutning að borga niður þær skuldir og yrði þá ekki annað keypt á meðan.

Fleira gæti átt eftir að hafa áhrif á þetta mat, svo sem veikleikar í fjármálakerfinu. Ég bendi á þá miklu samþjöppun í bankakerfinu sem virðist þar notuð til að raka óheyrilegum gróða að fjármálastofnunum þrátt fyrir mikið tap á hlutabréfamarkaði. Að síðustu tala ég ekki um ef ráðist yrði í allar þær stóriðjuframkvæmdir sem fyrirhugaðar eru eða eru á teikniborðinu og skuldsetning þjóðarbúsins af þeim sökum aukin um hundruð milljarða, þá er algerlega óhjákvæmilegt að það hlýtur að hafa áhrif á lánshæfiseinkunn Íslands. Það sér maður á því að matsfyrirtækin nefna sérstaklega vaxandi erlendar skuldir þjóðarbúsins sem áhyggjuefni í því sambandi.

Ég vil því spyrja hæstv. forsrh.: Hefur staða Íslands verið skoðuð sérstaklega af innlendum aðilum? Hefur verið reynt að átta sig á þeim breytingum sem þarna eru að verða í ljósi athugasemda og ummæla hinna erlendu matsfyrirtækja?

Í öðru lagi: Verður gerð sérstök úttekt á líklegum áhrifum stóriðjuframkvæmdanna, ef í þær verður ráðist, á lánshæfiseinkunn Íslands?