Lánshæfi Íslands

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 15:23:50 (5876)

2002-03-11 15:23:50# 127. lþ. 94.1 fundur 391#B lánshæfi Íslands# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[15:23]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að við megum ekki gera því erlenda matsfyrirtæki sem hér hefur borið á góma rangt til. Það kemur fram í skýrslunni að þeir átta sig á að viðskiptahallinn er á niðurleið. En þeir telja engu að síður að aðlögunin muni verða mjög erfið og þessar miklu skuldir muni taka í á komandi árum þannig að það sé fullkomlega ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu Íslands í þessu efni. Þess vegna breyta þeir mati sínu hvað varðar horfur um langtímalán.

Við þekkjum það líka úr hagsveiflum okkar, herra forseti, að þær eru oft býsna stórar á Íslandi. Það er oft þannig að hlutirnir eru í ökkla eða eyra. Með nákvæmlega sama hætti og viðskiptahallinn minnkaði snöggt sökum þess að það dró snöggt úr innflutningi, þá getur hann aukist snöggt aftur. Og ef hæstv. forsrh. ætlar upp með sólgleraugun til að reyna að fá þjóðina til að trúa því að hér sé allt í himnalagi og nú eigi að kjósa hann einu sinni enn, hvaða áhrif mun það þá hafa? Er ekki tilgangurinn m.a. sá að reyna að tala eyðsluna aftur í gang og þá muni viðskiptahallinn aukast á nýjan leik? Munurinn er bara sá að þjóðarbúið er skuldsettara en nokkru sinni fyrr.