Landverðir

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 15:32:20 (5883)

2002-03-11 15:32:20# 127. lþ. 94.1 fundur 392#B landverðir# (óundirbúin fsp.), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[15:32]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Stofnanirnar gera rekstraráætlanir og við höfum nýlega fengið þessa til okkar eins og fram hefur komið. Það er alveg ljóst að okkur komu í opna skjöldu tillögur um samdrátt í landvörslunni, sérstaklega vegna þess að við höfum einmitt viljað auka hana ef eitthvað er, höfum m.a. stofnað nýjan þjóðgarð þannig að verið er að auka þessa landvörslu og það að passa upp á náttúruna.

Ég fór í fyrrasumar eða sumarið þar áður, a.m.k. er ég tiltölulega nýlega búin að fara, um hálendið og heimsótti landverði. Ég hef séð þá starfsemi sem þeir hafa með höndum, og í ljósi þess að ferðamannastraumur upp á hálendið er vaxandi og aukinn átroðningur er á náttúru okkar tel ég mikilvægt að við skerðum ekki landvörsluna. Ég mun því standa vörð um hana og tel alveg ljóst að Náttúruvernd ríkisins þurfi að koma með nýja rekstraráætlun sem tekur tillit til pólitísks vilja ráðherra síns.