Reiknilíkan fyrir framhaldsskóla

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 15:39:51 (5888)

2002-03-11 15:39:51# 127. lþ. 94.1 fundur 393#B reiknilíkan fyrir framhaldsskóla# (óundirbúin fsp.), JB
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[15:39]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta reiknilíkan er mannanna verk og er sjálfsagt að gefa sér ákveðnar reikniforsendur til þess að deila út fjármagni. En eins og önnur mannanna verk getur þar verið veikleiki á sem þarf að bæta úr, og nauðsyn þess að bæta hér úr hefur verið til umræðu tvö eða þrjú síðustu ár. Og þessi dráttur sem hér er á er óþolandi, herra forseti.

Ég tel að nú þegar hefði átt að liggja fyrir endurskoðað reiknilíkan til þess að ráðstafa fjármagni, og að við gætum hreinlega tekið það fyrir á fjáraukalögum fyrir vorið að veita fjármagn til þeirra skóla sem eru í vandræðum núna og vita ekki hvernig þeir geta tekið inn nemendur í haust. Ég tel afar brýnt að á þessu verði tekið. Ég skora á hæstv. menntmrh. að beita sér nú þegar fyrir því að þessi leiðrétting komist á og að á þessu máli verði tekið þannig að skólarnir fái traustan, öruggan og sannan rekstrargrundvöll nú á vordögum áður en inntaka nýrra nemenda hefst.