Stjórnsýslulög

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 16:20:15 (5897)

2002-03-11 16:20:15# 127. lþ. 94.5 fundur 598. mál: #A stjórnsýslulög# (vanhæfi) frv. 49/2002, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[16:20]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. þjaki einhver reginmisskilningur og kannski er sökin mín, mér hefur e.t.v. ekki tekist að útskýra nægilega vel það mál sem ég er að flytja. Þá verð ég að vísa til grg. með frv. sem liggur fyrir, hvetja hv. þingmann til að lesa hana vel yfir ef mér hefur mistekist að koma megininntaki hennar til skila. Ég hygg að við lestur hennar átti menn sig mjög fljótt á því að það er afar þýðingarmikið að sú skipan verði ekki fest í sessi í framhaldi af dómi Hæstaréttar að undirmenn í ráðuneyti sem gefa til að mynda leiðbeinandi úrskurði eða ráðgjöf geti gert æðsta aðila viðkomandi stjórnsýslu og allt hans starfslið í einu vetfangi vanhæft til að fjalla um málið. Það mundi algerlega snúa íslenskri stjórnsýslu á hvolf frá því sem verið hefur.

Hæstiréttur virðist hafa litið svo á að lögin væru ekki nægilega skýr og þá er ráðið að gera þau það. Það er nákvæmlega það sem vakir fyrir okkur og hafi mér mistekist að gera nægilega vel grein fyrir þessu verð ég að biðjast forláts á því en ég veit það, af því að ég hef lesið það rækilega yfir, að grg. sem með málinu fylgir er vel samin, mér finnst hún glögg og gefa góða mynd af þeim rökum sem bak við breytinguna búa.